|
|||||||||||
Ósk Vilhjálmsdóttir hóf feril sinn sem málari, eins og títt er um unga myndlistarmenn, en fór að leita nýrra leiða þegar hún var við framhaldsnám við listaháskólann í Berlín. Hún tók upp á því að mála eftir ljósmyndum og notaði þá sömu myndefnin aftur og aftur. Hér nægir að nefna myndir sem hún málaði af tveggja ára dóttur sinni eftir ljósmyndum sem höfðu verið smelltar af henni í afmælisveislu. Á sumrin starfaði Ósk sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðmenn á hálendi Íslands og veitti því þá athygli hversu mikilvægt það er fyrir ferðamennina að festa náttúrufyrirbærin á mynd. Það var eins og hlutirnir yrðu ekki raunverulegir fyrr en þeir höfðu verið fangaðir á filmu. Þegar hún sneri aftur til Berlínar fann hún eitt haustið ókjör af gömlum slidesmyndum og fjölskyldualbúmum í ruslahaugum hjá skransölum í borginni. Allt varð þetta til að vekja áhuga Óskar á ljósmyndum sem fólk tekur næstum ósjálfrátt af ótal tilefnum: afmælisveislum, jólaboðum og ferðalögum. Ósk Vilhjálmsdóttir hefur sum sé skoðað heiminn í gegnum prívatljósmyndir undanfarin ár. Hún hefur grafið upp slidesmyndir á skransölum hundruðum og þúsundum saman - þær koma víst flestar úr dánarbúum - og sett upp í stóra glugga á opinberum stöðum, þar sem sólarljósið lýsir þær upp, eða hún hefur varpað þeim með sýningarvél út á götu. Hún hefur látið prenta hluta af þessum myndum á pappír og sýnt þær þannig, einkennilega upplitaðar og að nokkru leyti útmáðar eftir sólarljósið. En Ósk hefur einnig tekið með sér hljóðupptökutæki og vídeókameru og heimsótt aðkomufólk í erlendri borg og fengið það til að sýna sér myndirnar sem það tók með sér að heiman. Ósk Vilhjálmsdóttir hefur, með öðrum orðum sagt, fengið fólk til að sýna sér sínar hjartfólgnustu myndir auk þess sem hún hefur gefið myndum sem búið var að fleygja, og fólkinu sem á þeim er, nýtt líf. Listamannsferill Óskar er samofinn hennar eigin lífi og reynslu og því kemur ekki á óvart að hún vinnur ekki bara með prívat myndir annarra, heldur líka sínar eigin myndir sem hún finnur í skúffum sínum og fjölskyldualbúmum. Og hún vinnur ekki aðeins með fundnar myndir heldur á hún líka til að taka myndir sjálf og sýna þær. Dæmigerð fyrir slíkar myndir er sería af stórum litmyndum sem hún tók af rosknu fólki í uppáhaldshorninu eða stólnum á heimili sínu og sýndi þær svo í sýningargluggum á mannmargri neðanjarðarlestarstöð í stórborg. Í þessari myndaseríu Óskar Vilhjálmsdóttur er telft saman opinberu rými og einkalífi á mjög opinn hátt og þegar að er gáð má segja að þessir tveir pólar skapi spennuna í öllum verkum hennar þar sem hún vinnur með ljósmyndir. Hjálmar Sveinsson |
|||||||||||
|