|
|||||||||||
Gluggi Ráðhús Reykjavíkur, mars 1996 Sýningin í Ráðhúsinu samanstóð af 10.000 slidesmyndum. Þær þöktu hluta af suðurglugga Tjarnarsalar þannig að dagsljósið sem kom inn í salinn skein í gegnum þær. Þegar dimmdi snerist það við, því þá kom ljósið að innan og varpaði myndunum út á tjörn. Þetta eru notaðar myndir, þær koma úr dánarbúum og eru keyptar hjá skransölum. Myndirnar sýna heilu ævirnar; skírnarveislur, afmælisveislur, fermingarveislur, brúðkaup, jól, ferðalög, jarðafarir, barnabörn og barnabarnabörn. Þetta eru prívat sögur dregnar út úr myrkrinu fram í dagsljósið. Maður þurfti reyndar að ganga þétt upp að glugganum til að sjá hvað er á hverri mynd. Úr svolítilli fjarlægð leystust þær upp í endalaust litaflæði. Hugmyndin á bak við sýninguna er einföld. Myndirnar eru ekki teknar af listamönnum heldur venjulegu fólki. Sýningin var tilraun til að endurvekja og endurlífga allar þessar myndir sem búið var að fleygja. En eftir að þær hafa hangið uppi í nokkurn tíma taka þær að upplitast vegna sólarljóssins. Upphaflegu litirnir breytast í andstæðu sína; grænt í rautt osfrv. Að lokum hverfa litirnir og útlínurnar mást út - rétt eins og fólkið sem myndirnar eru af. Fyrstu ljósmyndirnar voru nefndar heliografie sem þýðir teiknað af sólu. Hugmyndin var sú að finna upp tækni til að gera myndir þar sem náttúran teiknaði sjálfa sig og óstyrk mannshöndin kæmi hvergi nærri. Myndirnar, sem hér voru til sýnis, lokuðu hringnum ef svo má segja. Þær eru afteiknaðar, útmáðar af sólu. Sólin bæði gefur og tekur - eins og guð. The Window |
|||||||||||
|