LJÓÐSKÁLD
KRISTÍN ÓMARSDÓTTIR
Ósk
Daginn sem ég vakna ekki
óska ég mér þess
að einhver verði nálægt.
Einhver sem þekkir líkama minn.Ástin og þú

Myndavélin sem tekur myndir af lungum þínum elskar þig en þú
tekur ekki eftir ást hennar.
Eða jú. Þegar þú fórst úr bolnum og hörund þitt snerti í fyrsta sinn
spegilslétt stálið, þá tókstu eftir ást hennar en gleymdir henni strax.
Konurnar á bakvið myndavélina elska þig líka.
Og framköllunartækið.
Og ljósið sem lýsir bakvið nýju röntgenmyndina af lungum þínum.
Fingurinn á lækninum.
Línurnar, myrkrið og þokan sem búa til myndina.
Þau elska þig.
En þú ert bara ekki tilbúinn enn.
Úr „Lokaðu augunum og hugsaðu um mig“, 1998.
Kristín Ómarsdóttir (f. 1962). Ljóð Kristínar hafa læðst að orðunum meðan þau sváfu, fært þau um set og klætt þau í peysur og blómapils. Þau koma að veruleikanum úr óvæntri átt og ljá honum annkannalegan blæ, andstæðum hlutum er stillt upp hlið við hlið og tungumálið öðlast hlýlegan framandleika. Fyrsta ljóðabók Kristínar heitir Í húsinu okkar er þoka og kom út 1987 en hún hefur einnig fengist við skáldsagnagerð og leikritun og sent frá sér Einu sinni sögur sem eru á mörkum ljóða og smásagna eða örsagna og hafa yfir sér sama ævintýra- og furðublæ og ljóðin. Þerna á gömlu veitingahúsi kom út 1993 en nýjasta ljóðabók hennar heitir Lokaðu augunum og hugsaðu um mig. Stundum er frásögn í ljóðunum, lýsing á tilteknum aðstæðum og mjög oft eru ljóðin í annarri persónu: þú. Mælendur ljóðanna, þessar óstýrilátu hlaupastelpur, ætla sér ekki að vekja þann ávarpaða til meðvitundar eða umhugsunar heldur úr álögum. Tungumál ljóðanna er oft líkamlegt, erótískt, það er í þeim tiplandi leikur. Tónn þeirra er alltaf undirfurðulegur, í senn lævís og fölskvalaus. Í þeim eru sterkir litir: Hvítur er þar hvítari en annars staðar, litur brúðarslörs, mjólkur og dúfna, en það er eins víst að rauður, litur blóðs, sé á næstu grösum. Og „ást“ er það orð sem kemur hvað oftast fyrir í ljóðum Kristínar. Þetta er kát og grátandi ást, þrungin girnd og dauða. Óvænt sjónarhorn verða til fyrir tilstilli ástarinnar sem er í eðli sínu „myndavél“.
MYNDLISTARMENN
HARALDUR JÓNSSON
.........
37°C, 1998 - bleksprautuprentaðar ljósmyndir - 84 x 62 cm.
Haraldi Jónssyni (f. 1961) hefur næstum tekist hið ómögulega í verkum sínum, að skapa þögn. Þessa óendanlegu, kolbikasvörtu eða alhvítu vídd sem er upphaf og endir alls og umlykur okkur frá blautu barnsbeini og flæðir að lokum yfir okkur og inn í okkur. Það er eins og maður sé staddur í göngum, speglagöngum, og heyri ekkert nema eigin hjartslátt. Það er hljótt þarna inni, hlýtt og mjúkt í öllu þessu myrkri og öllu þessu blóði. Það er næstum eins og í snjóhúsi þar sem allt er dempað og dúðað. Maður heyrir ekkert nema kyrrð og þögn og „það lætur svo sannarlega ekki hátt í henni“. Haraldur setti einu sinni hljóðeinangrandi efnisbleðil á hjartastað þekktrar fjölmiðlakonu í beinni útsendingu. Í annað skipti sýndi hann myrkur sem gert var úr hljóðeinangrandi svörtu teppi sem var að stærð og lögun eins og kvikmyndatjald. Í Slunkaríki á Ísafirði setti hann upp vegg úr hvítum sundurgötuðum pappakössum sem hafði þau áhrif á suma sýningargesti að þeim fannst sem þeir væru staddir í hljóðeinangrandi snjóhúsi. Segja má að það sé einkum tvennt sem tekst á í verkum Haralds: næmleikinn, sjónin, heyrnin og snertingin og svo doðinn og þögnin sem leggst yfir skilningarvitin þegar móttakan bregst, sambandið rofnar, sýningarvélin bilar, skermurinn myrkvast, rafmagnið fer af. Já, allt í einu er þögn og þreifandi myrkur á þessum vel smurðu samskiptatímum þegar allt á að vera gegnsætt, klárt og upplýst. Skyndilega heyrir maður ekkert — nema niðinn í sínu eigin blóði þar sem það fellur að og fjarar út.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail