LJÓÐSKÁLD
MEGAS
Gakktu bljúgur
gakktu bljúgur á böðlanna fund
betlaðu af þeim miskunn enda standi þeim allt þitt til boða
sannfæring gildi og siðir allir
ef þeir sjái í gegnum fingur við þig leysi þig frá verðskulduðum voða
gakktu boginn á böðlanna fund
biddu grátandi um náð þú vildir segðu engan styggja
spyrðu hvað svo þóknist þeim
hvort þér sé sæmra á bakinu eða maganum að liggja
.....er traðka þeir á þér takið frekar hinn hann á það skilið
.....hann tekur engum sönsum segðu og sættir sig aldrei við spilið

skreiðstu brotinn á böðlanna fund
bjóddu þeim allt semað áttu og allir þínir vinir
sárbændu um að gefa þér grið
því þú gerðir ekkert nema í bestu meiningu það voru allir hinir
þiggðu flatur böðlanna boð
og hlýddu bönnum þeirra af kostgæfni og vísaðu veglyndur á aðra
við þeim hlæðu og hræðstu þá í senn
berðu hundsins aðalsmerki gakktu sem lengst í að fletta’onaf og flaðra
.....glaður vertu er traðka á þér þeir gera það sem er þér fyrir bestu
.....gerðu þér það upp uns það er ekta þakklætið því þakklæti er fyrir mestu

vertu breiður í böðlanna hóp
bentu þeim á alla þá sem eru ekki á réttum kanti
þú þekkir þá best því á þeirra öxl gréstu
er á þinn rétt fannst þér gengið og grátt leikinn af lögleyfðum fanti
efast aldrei um að í þeirra klíku
eigirðu best heima og farðu sem framast
vertu bæði auga þeirra og eyru
uns hatrið á sjálfum þér er þínu eigin eðli tamast
.....blóðug og meidd og marin en þakklát kossum heitum
.....maklega vöndinn heiðra skalt’ án afláts uns orðinn ert að þræli akfeitum
Áður óbirt ljóð.
Megas (f. 1945). Í söngtextum sínum lætur Megas fugla tísta á hverri grein og það þótt þeir séu dauðir. Í textunum er útlegðarkennd, þrammað í kringum borgarmúra og ögrað í þeirri von að þeir hrynji. Stundum skýtur ljóðmælandi sér með orðunum undan dómi samfélagsins, íslensk hefð er sett í nýtt samhengi og snúið á hvolf, það eru sagðar sögur af götunni og inn á milli glitra tærir ástarsöngvar. Á fyrstu plötu hans, Megas sem kom út árið 1972, mátti sjá Egil Skallagrímsson stíga „upp á bakið á köflóttum hesti“ og Jón Sigurðsson forseti var „sveitungi óþekktrar konu“. Verur úr fornum goðsagnaheimum birtast oft við algjörlega dæmigerðar nútímaaðstæður þar sem þær eiga engan veginn heima, þar sem „allt er með svo annarlegum blæ“. Leikur Megasar með útlagastefið náði hámarki og endapunkti í Drögum að sjálfsmorði 1978. Margra ára þögn fylgdi í kjölfarið. Megas var orðinn goðsögn og hafði lifað til fulls hlutskipti þeirra sem ekki vilja lúta reglum samfélagsins. Þegar hann sneri aftur í kjölfar hins kraftmikla pönks var meiri nánd í textum hans, bæði við rokk og íslenska ljóðagerð, og hann hélt meðal annars áfram að þróa eigin tegund af heilræðavísum þar sem er að sönnu ekki að hafa „heilnæm eftirdæmi“. Megas orti sig aftur inn á bannhelgt svæði með hreinsandi biturð og kynferðislegum usla. Ljóð Megasar hafa sérstæða rödd, kímna og kaldhæðna, einlæga og sanna. Þau beygja sig ekki og í þeim er andóf. Þau ganga aldrei bljúg á böðlanna fund.
MYNDLISTARMENN
HULDA HÁKON
Þú ert varkár og tekur engar óyfirvegaðar ákvarðanir [...], 1996 - akrýllitir á hydrocal og MDF - 40 x 60 x 3 cm.
Hulda Hákon (f. 1956) spyr í einu verka sinna: „Hverra manna ertu?“ Þessa spurningu er varla hægt að þýða á önnur tungumál, en eldra fólk á Íslandi hefur alltaf spurt svona til að staðsetja gestkomandi ungmenni. Í dag heyrist æ sjaldnar spurt á þennan hátt því gamla ættarsamfélagið, sem mat fólk eftir uppruna sínum, er að líða undir lok. Þetta er rifjað upp hér vegna þess að Huldu Hákon hefur tekist með lágmyndum sínum, sem minna um margt á gamlar útskornar töflur í Þjóðminjasafninu, að skapa nútímalegt framhald af þjóðsögum þar sem ættingjar og vinir, prestar, broddborgarar, stjórnmálamenn, fótboltakappar, dægurmálahetjur og jafnvel hundar og kettir stíga fram á sjónarsviðið. Hulda Hákon leitaði strax í íslenskan frásagnarheim og endurskapaði úr honum ferskar goðsögur sem tengdust hennar eigin sögu og nánasta umhverfi. Segja má að í frásagnarlistinni renni þekking og fagurfræði saman á hversdagslegan hátt, en meitlaðir textar sem opna óvænta vídd eru oftast hluti af verkum Huldu. Þeir eru gjarnan kaldhamraðir en geta líka tekið á sig einlægan og ljóðrænan blæ: „Hið dásamlega, ýkjukennda, ólíklega, ósiðlega“, þannig hljómar einn þessara texta sem fylgdi sýningu Huldu á „eldi og bláum blómum“. Þarna er kominn dulúðugur og kynngimagnaður tónn í verk hennar, einhver niður sem fylgir þeirri ýkjukenndu frumhvöt alls lífs að reyna að vaxa og dafna næstum hvar sem er. Bruni og blómstur eru tákn eilífrar hringrásar lífsins sem sum trúarbrögð líta á sem hreint og beint böl. Hulda virðist aftur á móti líta á hana sem dásamlegt, ýkjukennt böl. Hringrásin er lifandi afl í verkum hennar.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail