LJÓÐSKÁLD
SIGURÐUR PÁLSSON
Hótelstigi
Jarðhæðarmarmari

Beittir smellir hárra hæla

hverfa eldsnöggt

þar sem dumbrautt stigateppið
tekur við

Skyndilega fáum við
blindar stytturnar
á jarðhæðinni
sjón hugljómandi sjón:
Já það hlýtur að vera guð
sem skapaði konuna

við sjáum það glöggt

þar sem hún gengur upp dumbrautt
stigateppið
fagnaðarstigateppið
frá jarðhæð til æðri veru

En við höldum áfram að vappa
ráðstefnulegir í jakkafötum
á jarðhæðarmarmara


Brattur stigi

Brattur kjallarastigi bernskunnar
Datt niður hann
Oftar en einu sinni
Hljóp oft upp hann
Á ofsahræðsluhraða
Undan draugum

Dreymdi hann illa
Tólf ára
Lamaður ótta sá ég sambland af
Draugum og górilluöpum
Á leið upp stigann

Kötturinn vakti mig
Sólin skein inn um austurgluggann
Síðan þá var stiginn aldrei brattur

Ég datt aldrei framar niður
Hljóp aldrei framar upp
Geng æ síðan með köttinn
Innra með mér
Brosandi
Úr „Ljóðlínudansi“, 1993.
Sigurður Pálsson (f. 1948) kemur með veröldina í farteskinu í ljóðum sínum, klyfjaður „forðumforða orðanna“, með land og sögu og persónulegan frumleika. Fyrsta ljóðabók Sigurðar heitir Ljóð vega salt og kom út 1975. Myndmál hennar er óvænt og sótt í töfrandi hversdag sem hafði ekki haldið innreið sína í íslenska ljóðagerð áður. Titlar ljóðabóka Sigurðar, níu að tölu, mynda samhverfu og raða sér upp í þrenndir. Í þeim öllum er einstakur skýrleiki í hugsun, það mætti kalla hugsun þeirra heimspekilega en í þeim er ekki síður að finna ljóðrænt hrifnæmi. Nútíminn og staða mannsins í honum eru yrkisefnin. Sömuleiðis „ástin, harmurinn, fögnuðurinn og trúin“ eins og hann hefur orðað það. Það er galsi í ljóðunum, ekki síst þeim elstu, orðin bregða á leik, varpa nýju ljósi á hlutina og fá óvænta merkingu. Hreyfing þeirra er oft upp á við: Ef einhver fer inn í lyftu er öruggt að hún stefnir ofar en á efstu hæð hæstu byggingar í borginni sem svo oft myndar umgjörð ljóðanna. Eins er stigum ekki stillt upp við veggi heldur stjörnur, en þó er þessum stjörnum ekki lýst því þær „lýsa okkur miklu betur/ en við þeim“, eins og segir í einu ljóði. Nýleg ljóð Sigurðar hafa „rætur á himni“ og bernskan birtist í þeim bljúg og nálæg þrátt fyrir fjarlægð í tíma. Samhliða veraldarvönu yfirbragði og menntaðri heiðríkju eru ljóð hans mjög jarðtengd og íslensk og líkt og þjálfuð í því að vera „byrjendur“ í þeim skilningi að komið er að viðfangsefnunum á ferskan og nýjan hátt. Að lesa þau er að hefja langt og strangt en þó létt og leikandi nám með það að markmiði að verða á einhvern hátt byrjandi í eigin lífi sérhverja stund.
MYNDLISTARMENN
ÍVAR BRYNJÓLFSSON
Uppeldisstöðvar I, 1997 - seleníumtónað silfurgelatín prent - (2) 50 x 50 cm.
Ívar Brynjófsson (f. 1960) tekur ljósmyndir sem virka ögn sérviskulegar á Íslandi af því hér er nær engin hefð fyrir jafnhversdagslegum og fábreytilegum myndefnum: bakgarðar í Garðabænum, kaffikönnur og plastmál á kosningaskrifstofum, sprengdar klappir og skurðir í útjaðri byggðarinnar og vörurekkar í sjoppum og búðum. Þetta eru svarthvítar heimildamyndir af hversdagslegum hlutum og „venjulegum stöðum“. Þær eru fullkomin andstæða þeirrar fagurfræði sem birtist í ótal glansmyndum af „ósnortinni náttúru“ landsins og hraustlegum íbúum þess. En við skulum fyrir alla muni ekki kalla myndir Ívars listrænar ljósmyndir, það væri eins og að tala um listræna list. Ívar nam ljósmyndun í San Francisco og myndir hans sverja sig í ætt við ljósmyndastefnu sem kom fram í Bandaríkjunum upp úr 1970 og kallast „ný staðalýsing“ (New Topographics). Forgöngumenn stefnunnar veigruðu sér við að taka rómantískar landslagsmyndir eða stemmningsríkar götulífsmyndir því þeir vildu setja sig í spor hlutlauss skrásetjara. Myndir þeirra eru ævinlega af manngerðu umhverfi. Einmitt þannig er staðalýsing Ívars; myndir hans eru heimildir um tíðarandann eins hann birtist hverju sinni á ofurvenjulegum stöðum. Þetta eru ekki myndir sem eiga að hjálpa okkur að uppgötva fegurð hins smáa og hversdagslega, heldur segja þær ósköp einfaldlega: svona var þessi staður á þessum tíma út frá þessu sjónarhorni. Umhverfið er næstum alltaf mannlaust í myndum Ívars; það er eins og allir hafi skroppið í burtu — og eitt augnablik veltir maður því fyrir sér hvort fólkið komi nokkurn tíma aftur.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail