LJÓÐSKÁLD
GYRÐIR ELÍASSON
Hjartsláttur allífsins
Í fífilgróinni brekku
neðan við sjúkrahúsið
hefur safnast fólk með
kaffibrúsa og kökudunka

Og út um kjallaradyr
á sjúkrahúsinu kemur
læknir á hvítum slopp
með hlustunarpípu um
hálsinn og sest í
gula og græna brekkuna

Og hjartaslög hópsins,
þau heyrast alla leið
hingað, niður að logn-
sléttum sjónum


Græðarinn

Tíminn —
hann er
undarlegur náungi

Hann gengur um
með grösin sín
í poka um öxl
og leggur við
djúp sár

Janúarblómstur
febrúarlilju,
marsklukku,
aprílurt,
maígresi —

Alltaf sömu jurtirnar
aftur og aftur

Og kuflinn hans
er ofinn á víxl
úr ljósum
og dökkum
þráðum
Úr „Indíánasumri“, 1996.
Gyrðir Elíasson (f. 1961). Kynjaverur leika lausum hala í ljóðum Gyrðis og einhvers staðar er einhver að strita við að smíða sér vængi. Víst er hann undarlegur náungi þessi Tími með sín græðigrös enda er tíminn í ljóðum Gyrðis ekki sá sem við mælum og kostar peninga heldur sá sem líður kuflklæddur um veröld þjóðsagna. Undiralda streymir hægt en stöðugt í ljóðaheimi Gyrðis. Yfirborð ljóðanna gárast varla en það er aðeins staðfesting á að kvikan sé þarna, þessi spenna, þetta rökkur sem er samgróið ljóðum Gyrðis. Í einu ljóðanna í Indíánasumri er dimmasta myrkrið fangað í krukku og gengið með það út í bjartan daginn. En það eru alltaf stjörnur á himninum, alltaf ljós sem kemur langt og mjótt. Stjörnukíkir á háalofti bernskunnar orkar eins og hálfgleymd minning í sameiginlegu hugskoti, þetta er á einkennilegan hátt hanabjálki hvers og eins. Minningar allra um atburði sem aldrei hafa átt sér stað en eru þarna samt. Fagurfræði Gyrðis hefur breyst mjög síðan fyrsta bók hans kom út árið 1983, en stíll elstu ljóðanna náði fullum hæðum í ljóðabálknum Blindfugl/svartflug 1987. Í nýrri verkum hans eru meiri stillur, kyrrlátara yfirborð en grunurinn er þeirra annað eðli, hugboð sem stendur svo nálægt ljóðrænni afstöðu til lífsins. Það ættu að vera skilti á ljóðum Gyrðis: Varúð! Brothætt. En þessi orð eiga þá ekki síður við um vitund lesandans. Með varfærnislegu átaki opna ljóðin lúgur að löngu gleymdri veröld sem endurbirtist alveg splunkuný og ilmar af kaffi.
MYNDLISTARMENN
EGGERT PÉTURSSON
Án titils, 1997 - olía á striga - 35,5 x 25,5 cm.
Eggert Pétursson (f. 1956) er þekktur fyrir fínlegar teikningar og litmyndir af blómum í bókinni Íslenskri flóru. Samhliða þessum myndum urðu til afar sérstæð olíumálverk af blómum og plöntum sem vakið hafa athygli fyrir furðulega dýpt sína, skrautkennd og iðandi litbrigði. Sennilega hefur enginn íslenskur málari náð að túlka jafnvel það smágerða foldarskart sem náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson orti um. Og raunar má til sanns vegar færa að Eggert sé á sinn hátt bæði náttúrufræðingur og skáld. Á fyrstu einkasýningu sinni (1980) pressaði hann íslenskar jurtir milli vatnslitaarka og sýndi svo afþrykkin í stað jurtanna. Síðan hefur hann nýtt sér gróðurlífið í fjölmarga miðla, rýmisverk, ljósmyndir og bækur. Málverk Eggerts eru unnin í mörgum lögum á kerfisbundinn hátt og stundum málað hvítt á milli til að ná fram tilbrigðum. Við þetta fá verkin sérkennilega áferð sem minnir stundum á skán eða jafnvel hrúður. Blómin eru máluð í raunstærð og sjáum við beint ofan á þau stinga sér upp úr sverðinum. En það sem gerir myndir Eggerts svo sérstakar er að þar er ekki beitt hefðbundinni fjarvíddarteikningu heldur er eins og myndflöturinn lyftist upp og fari allur á hreyfingu þegar maður kemur nær, enda hefur þeim verið líkt við þríðvíðar tölvumyndir. Sjálfur hefur Eggert líkt þessum áhrifum við það að núa augun, þá fari litir og línur að flökta, form og mynstur að iða. Einhvers staðar grillir í djúpan sannleik um sjálfa sköpunina og skynjun mannsins: „Skínandi deplar og agnir gefa til kynna rými handan myndarinnar. Þar hefur ljósið ekki skilist frá myrkrinu fyrr en áhorfandinn aðgreinir það í huganum.“
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail