|
|
|
LJÓÐSKÁLD |
BRAGI ÓLAFSSON
|
Umhverfi |
|
|
Aldrei bjóst ég við að við ættum eftir að hittast hér
er það fyrsta sem mér dettur í hug að þú segir
þegar þú kemur að heimsækja mig.
Ég er búinn að vara þig við ljósgrænu veggjunum
en þær eru fallegar konurnar
og betri en ég á nokkurn tíma skilið.
Nú þegar allt sem gerst hefur í heiminum
frá upphafi
er staðfest að hafi í raun og veru gerst
finnst mér eins og þú sért þegar komin
og farin. Manni hlýtur að leyfast
að minnsta kosti ein vitleysa á dag
og í allan dag hefur mér liðið eins og heil hljómsveit
bíði eftir að ég lyfti sprotanum.
Ég er þegar búinn að þakka þér fyrir
að koma og færa mér það sem þú leggur á borðið
eftir að þú kyssir mig;
konfektkassinn er með mynd af fjalli og bláum himni
bananinn gulur eins og eldur.
Þú kemur aftur. Býst ég við.
En þá verð ég búinn að kyssa þig. |
|
|
Áður óbirt ljóð.
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Bragi Ólafsson (f. 1962) er hæverskt skáld og ljóðin hans eru annarleg og undrandi. Þau þéra lesanda sinn eins og hann sé staddur í kurteisisheimsókn eða vitjun, oft við tilteknar aðstæður: á veitingahúsi eða í búð í framandi borg. Það er búið að hnika veruleikanum dálítið til, skekkja hann svo halla verður höfðinu til að lesa í hann. Við þær formlegu kringumstæður sem ljóðin draga upp er beitt rökvísi af alveg sérstakri gerð sem erfitt er að ímynda sér að sé kennd í skólum. Þessi rökfræði liggur ekki alltaf í augum uppi; hún afþakkar staðfastlega eitthvað sem ekki er í boði og tíminn getur tekið fram úr sjálfum sér. Bragi er borgarskáld, skáld húsa, kaffistaða, hafna; mannlífsathuganir hans eiga sér stað jafnt á Íslandi sem í útlöndum. Segja má að ljóð Braga gerist á horni tveggja gatna, t.d. Bayswater Road og Lækjargötu, þar sem tíðarandinn er ræddur af tveimur skeggjuðum mönnum. Á því götuhorni er einnig að finna hringekjur, sirkustónlist úr dósum og skjálfhentan sjónhverfingamann sem liggur lágt rómur og tínir smáorð með óvæntri yfirvegun upp úr hatti sínum og lætur þau hverfa. Ljóðin eru full af ókunnugu fólki sem gerir sig heimakomið, ávarpar af stakri kurteisi og vekur grun um að vísast sé að feta sig leið sína um þessa skökku veröld af varfærni. Í fyrstu ljóðabók Braga, Dragsúgi frá 1986, er glerbrotum dreift í grasið þar sem börnum þykir gaman að leika sér og maður skyldi vara sig þegar manni eru boðnar Ansjósur (1991), þegar maður gengur um Ytri höfnina (1993) eða skilur eftir sig Klink (1995) í söfnunarbauknum við kirkjudyrnar. Glerbrotin leynast alls staðar eftir að hafa losnað úr iljum barnanna.
|
|
|
|
|
|
|
MYNDLISTARMENN |
ÓSK VILHJÁLMSDÓTTIR
|
|
|
|
Sólhvörf, 1998 - bleksprautuprentuð ljósmynd - 150 x 100 cm.
|
|
|
|
Ósk Vilhjálmsdóttir (f. 1962) lagði stund á hefðbundna málaralist í upphafi ferils síns en tók að leita nýrra leiða þegar hún var við framhaldsnám við listaháskóla í Berlín. Hún tók meðal annars upp á því að mála eftir fjölskylduljósmyndum og notaði þá sömu fyrirmyndina aftur og aftur. Á sumrin starfaði Ósk sem leiðsögumaður fyrir erlent ferðafólk á hálendi Íslands og veitti því þá athygli að það var sem fólkinu fyndist að náttúrufyrirbærin yrðu ekki raunveruleg fyrr en þau höfðu verið fest á filmu. Þegar Ósk sneri á ný til Berlínar fann hún ókjör af gömlum litskyggnum og fjölskyldualbúmum í haugum hjá skransölum borgarinnar. Allt varð þetta til að vekja áhuga hennar á ljósmyndum sem fólk tekur næstum ósjálfrátt án afláts í afmælisveislum, jólaboðum og ferðalögum. Litskyggnunum, sem koma flestar úr dánarbúum, hefur Ósk komið fyrir í stórum gluggum á opinberum stöðum þar sem sólin lýsir þær upp. Hún hefur einnig látið prenta hluta af þessum myndum á pappír og sýnt þær þannig, einkennilega upplitaðar og máðar eftir sólarljósið. Þessar myndir sem búið var að fleygja, og fólkið sem á þeim er, öðlast þar með nýtt líf. Ósk vinnur þó ekki aðeins með fundnar myndir heldur á hún líka til að taka myndir sjálf og sýna þær. Gott dæmi um það er röð af stórum litmyndum sem hún tók af rosknu fólki sitjandi í uppáhaldshorninu á heimili sínu og sýndar voru í sýningargluggum á mannmargri neðanjarðarlestarstöð. Í þessari myndaröð Óskar er teflt saman opinberu rými og einkalífi, en þessir tveir pólar skapa einmitt spennuna í mörgum verka hennar. |
|
|
|
|