LJÓÐSKÁLD
SJÓN
(ástarljóð)
á milli okkar
vegir
þaðan hingað
þangað héðan
*
silkistálglerolíahálmur
sameina okkur
*
ég-þú
*
frá brjósti þínu
að lófa mínum
að lófa þínum
frá brjósti mínu
*
þú og ég
*
silkiégstál
þúglerég
olíaþúhálmur
*
eitraður regnbogi!
eitraður regnbogi!
*
við eftir rauða strikinu
við yfir bláu línuna
hjartað hjartað hjartað
mittþitt
á milli okkar

(ástarljóð)
Úr „ég man ekki eitthvað um skýin“, 1991.
Sjón (f. 1962). Það er botnlaust fjör í ljóðum Sjóns og oft fjörbrot líka, kátína sem ættuð er úr Breiðholti, úr framúrstefnum aldarinnar og úr brjálaðasta hluta grípandi rokklags. Þeim hluta þar sem hljóðfærin missa stjórn á sér og renna út í óreiðu rétt áður en sést móta fyrir formi á ný. Sjón var meðlimur súrrealistahóps sem kallaði sig Medúsu og fyrsta ljóðabók hans, Birgitta, hleruð samtöl, kom út 1979. Hún var neðanjarðargersemi en hana má líka finna í Drengnum með röntgenaugun, safni ljóða frá 1978-1986. Nýjasta ljóðabók hans heitir Myrkar fígúrur. Sjón hefur unnið á tilraunakenndan hátt með sjálfsímynd sína, hann er líkt og gangandi og kvikt ljóð; um leið og maður telur sig vera búinn að ráða í rúnirnar tekur ljóðið á sig nýja mynd og sleppur alltaf undan viðleitni manns til að flokka og skilgreina. Hann er drengurinn með röntgenaugun en líka nýkominn úr neðansjávarveröld þar sem villidýr ráfa um og líkamar leysast upp. Þetta er hættuleg og dularfull veröld og í erótísku myndmáli hennar er oft gripið til eggvopna. Sjón hefur komið fram í sjóræningjabúningi og sveiflað sverði um leið og hann las ljóð, ögrað viðteknum hugmyndum um skáld á sama hátt og ljóðin ögra viðmiðum um hvað sé ljóð. Sjón brýst inn í skjalaskápinn í höfðinu á okkur og ruglar röð hlutanna svo við stöndum eftir andspænis veröld þar sem B kemur á undan A, þar sem tvisvar tveir eru óhjákvæmilega fimm og hálfur. Það á sér stað samruni lífs og listar, veruleikanum er umstaflað og öllu teflt saman, dýr renna saman við menn og veröldin tekur sífelldum hamskiptum. Í ljóðum Sjóns rekst maður á sjóræningja og hrekkur upp við eldsnöggt hnífsbragð.
MYNDLISTARMENN
TUMI MAGNÚSSON
Kamillute og frumuæti, 1996 - olía á striga - 30 x 35 cm.
Tumi Magnússon (f. 1958) hóf málaraferil sinn í kringum 1980 þegar nýja málverkið svokallaða fór eins og eldur um sinu hugmyndalistarinnar. Nýja málverkið, sem barst hingað frá Þýskalandi og Ítalíu, var óbeislað og fullt af frásagnargleði og hleypti nýju lífi og miklum sköpunarkrafti í listaheiminn. Reyndar breyttust frásagnargleðin og taumlausar tilfinningarnar fljótt í ósjálfráða kippi, enda eru þeir listamenn sárafáir sem tókst að þróa þetta málverk. Einn þeirra er Tumi Magnússon. Fyrstu málverkin sem Tumi sýndi voru stórar olíumyndir í æpandi litum af heykvísl í heysátu, svo dæmi sé tekið. Síðan milduðust litirnir aðeins og verkin urðu enn einfaldari þegar heysátan hvarf og túnið sem hún stóð á, og ekkert var eftir nema óeðlilega stór heykvíslin í miðjum fleti. Þá komu í halarófu flennistór olíumálverk af einni einustu skrúfu, kaffibolla, gaffli, greiðu og tannbursta. Þetta eru einstaklega skondnar myndir og fallegar í einfaldleik sínum, en Tumi er ekki mikið fyrir að róa á örugg mið. Undanfarin ár hefur orðið róttæk en samfelld breyting á verkum hans því hlutirnir hafa smám saman horfið með öllu. Fljótt á litið virðast þetta vera næstum einlitar myndir og óhlutbundnar, en ekki er allt sem sýnist. Í raun flæða um strigann ýmis konar vessar og þykkni og myndirnar heita líka eftir því: „Hafragrautur og heróín“, „Heilavefur og rauðvín“. Hér eiga sér stað stöðugar myndbreytingar og fyrr en varir gerist hið ómögulega: Myndefnið rennur saman við litinn og flötinn. Það er engu líkara en Tuma hafi tekist í þessum verkum sínum að brúa bilið milli orðs og hlutar, vitundar og heims, myndar og myndefnis.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail