Spítalalífæðar


Myndlist á eins vel við á sjúkrahúsum og orðin sem ljóðskáldin töfra fram. Framtakið að safna myndum og sýna á ellefu sjúkrahúsum og hvetja orðsins menn til að tjá sig um lífæðar á spítala verður upplyfting fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur. Í framtakinu felst virðing fyrir öllum sem eiga þess kost að heyra og sjá verkin. Ungir listamenn jafnt sem þeir er komnir eru yfir miðjan aldur, allir áræðnir, allir djarfir, hafa stillt saman strengi sína á vegum Íslensku menningarsamsteypunnar art.is. Listin er hvort tveggja í senn, uppspretta og afl. Eins og lífæðin, sem flytur súrefni um líkamann. Eins og umferðaræðin, sem tengir saman borg og bæ, lönd og strönd um göng. Lífæðar listamannanna eru jafnmargslungnar og þeir eru margir. Matthías og Hulda Hákon, Kristján og Sjón og allir hinir. Óþrjótandi tilbrigði í listinni, tilbrigði við lífið. Gleðin og sorgin sem birtist okkur stundum í sínum nöktustu myndum á sjúkrahúsum. Tuttugu og fjórir listamenn með orð og myndir. Listamenn sem flytja líf í list sinni inn á ópersónulegan gang sjúkrahúss. Straumar og stefnur í myndlist og ljóðagerð í hartnær hálfa öld. Verk sem á að njóta og brjóta um leið til mergjar hugrenningarnar sem þau kalla fram. Ég hlakka til, ég veit að þeir sem sjá og heyra eiga eftir að njóta, ég þakka art.is framtakið og listamönnunum fyrir sinn þátt.




heilbrigðisráðherra


... í gagnsærri skikkju
kemur gamall maður til jarðar
og gengur við sólstaf
yfir hraunið

Landið eftir Matthías Johannessen



Myndlistar- og ljóðasýningin Lífæðar

Á árinu 1999 mun myndlistar- og ljóðasýning Íslensku menningarsamsteypunnar art.is, Lífæðar, verða sett upp á ýmsum sjúkrastofnunum landsins í boði lyfjafyrirtækisins Glaxo Wellcome. Sýningin verður opnuð á Landspítala þann 8. janúar 1999 og lýkur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í árslok eftir hringferð um landið. Glaxo Wellcome er sönn ánægja að stuðla að líflegu og menningarlegu umhverfi sjúklinga, starfsmanna og gesta og vonar að framtaki fyrirtækisins verði vel tekið.

Glaxo Wellcome er lyfjafyrirtæki sem byggir á frumlyfjarannsóknum. Markmið fyrirtækisins er að færa sjúklingum um allan heim nýjungar í lyfjameðferð og þjónusta þær heilbrigðisstéttir sem sjúklingana annast.

Glaxo Wellcome starfar í 150 löndum og hjá fyrirtækinu vinna u.þ.b. 60.000 manns við rannsóknir, framleiðslu og markaðsfærslu. Íslenska dótturfyrirtækið var stofnað árið 1990 og eru starfsmenn þess sjö.


Njótið heil.


Kristján Sverrisson

framkvæmdastjóri
Glaxo Wellcome ehf.

Sýningin Lífæðar 1999

var haldin á eftirtöldum sjúkrahúsum:


Landspítalinn
8. janúar - 8. febrúar 1999

Sjúkrahús Akraness
12. febrúar - 12. mars 1999

Sjúkrahús Ísafjarðar
19. mars - 19. apríl 1999

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki
23. apríl - 17. maí 1999

Fjórðungssjúkrahús Akureyrar
22. maí - 22. júní 1999

Heilbrigðisstofnunin á Húsavík
26. júní - 19. júlí 1999

Heilsugæslustöðin Vopnafirði
23. júlí - 10. ágúst 1999

Heilbrigðisstofnunin Seyðisfirði
12. ágúst - 30. ágúst 1999

Heilbrigðisstofnunin á Selfossi
3. september - 3. október 1999

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
8. október - 8. nóvember 1999

Sjúkrahús Reykjavíkur
12. nóvember - 12. desember 1999










artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail