|
|
|
LJÓÐSKÁLD |
ÍSAK HARÐARSON
|
Steinsnar |
|
|
Elliheimilið og fjósið
bara steinsnar
á milli
Kýrnar jórtrandi
á básunum og gamla fólkið
í minningunum
Bráðum
verður þeim hleypt
út í ljósið!
Bara steinsnar á milli
Á síðustu dögum
einmanaleikans
Krossinn á turni Stokkseyrarkirkju
er jafn mannlaus og krossarnir
á öðrum kirkjum um alla jörð
Og hnegg einmanaleikans
bergmálar frá heiminum
um innstu kima hjarta míns:
ÞAÐ HÉKK ÞAR HELDUR ALDREI
NEINN NEMA ÉG
Ó hvað þessi einmanaleiki er vitlaus!
Því mannleysi krossanna
ber manninum einmitt vitni:
Hann er farinn
rétt ókominn!
Dáinn úr ást
fór hann
að sækja okkur eilífð |
|
|
Úr Stokkseyri, 1994.
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Ísak Harðarson (f. 1956). Ísak er trúarskáld á helgisnauðum tímum. Þetta er ekki trú sem fæst án fyrirhafnar, ekki sátt við heiminn, ekki alltaf auðmjúk og ekki laus við efann. Í ljóðum Ísaks á sér stað árekstur milli Guðs og manns og heims og manns. Verið er að kljást við guðdóminn og nútímann af alvöru en þó með kímni, frumleika og siðferðilegum yfirtónum. Ísak Harðarson kom fram á sjónarsviðið árið 1982 með ljóðabók sinni Þriggja orða nafni sem býr yfir miklum samfélagslegum og trúarlegum sprengikrafti. Opnað var upp á gátt fyrir þær tegundir orðræðu sem ekki höfðu átt greiðan aðgang að ljóðum áður, skrum auglýsinga og alls konar texta úr umhverfinu. Framsetning ljóðanna er óvenjuleg og oft myndræn. Orðum er skipt í línur þannig að þau detta í sundur og öðlast breytta merkingu, tengjast öðrum orðum svo úr verða ný. Í fyrstu bókum Ísaks tók trúin á sig mynd guðlasts en í þeim seinni hefur persónuleg trúarsýn fært sig í forgrunn ljóðanna. Réttlætiskennd hefur alltaf verið ríkur þáttur í skáldskap Ísaks. Hnefinn var steyttur gegn hræsni heimsins og ranglæti í ljóðabókum á borð við Ræflatestamentið gegn valdhöfum og vopnaskaki og Guði sem yfir öllu ríkir. Í nýlegum bókum eins og Stokkseyri hefur kaldhæðnin mildast og orðið hnitmiðaðri. Himinninn hefur fært sig nær og farið er að bera á undrun yfir sköpunarverkinu, hlýlegri kímni og persónugerðum einmanaleika. Og aldrei er mjög langt í ljósið.
|
|
|
|
|
|
|
|