LJÓÐSKÁLD
ÍSAK HARÐARSON
Steinsnar
Elliheimilið og fjósið
— bara steinsnar
á milli

Kýrnar jórtrandi
á básunum og gamla fólkið
í minningunum

Bráðum
verður þeim hleypt
út í ljósið!

Bara steinsnar á milli



Á síðustu dögum
einmanaleikans

Krossinn á turni Stokkseyrarkirkju
er jafn mannlaus og krossarnir
á öðrum kirkjum um alla jörð

Og hnegg einmanaleikans
bergmálar frá heiminum
um innstu kima hjarta míns:

„ÞAÐ HÉKK ÞAR HELDUR ALDREI
NEINN NEMA ÉG“

Ó hvað þessi einmanaleiki er vitlaus!

Því mannleysi krossanna
ber manninum einmitt vitni:

Hann er farinn
— rétt ókominn!

Dáinn úr ást
fór hann
að sækja okkur eilífð
Úr „Stokkseyri“, 1994.
Ísak Harðarson (f. 1956). Ísak er trúarskáld á helgisnauðum tímum. Þetta er ekki trú sem fæst án fyrirhafnar, ekki sátt við heiminn, ekki alltaf auðmjúk og ekki laus við efann. Í ljóðum Ísaks á sér stað árekstur milli Guðs og manns og heims og manns. Verið er að kljást við guðdóminn og nútímann af alvöru en þó með kímni, frumleika og siðferðilegum yfirtónum. Ísak Harðarson kom fram á sjónarsviðið árið 1982 með ljóðabók sinni Þriggja orða nafni sem býr yfir miklum samfélagslegum og trúarlegum sprengikrafti. Opnað var upp á gátt fyrir þær tegundir orðræðu sem ekki höfðu átt greiðan aðgang að ljóðum áður, skrum auglýsinga og alls konar texta úr umhverfinu. Framsetning ljóðanna er óvenjuleg og oft myndræn. Orðum er skipt í línur þannig að þau detta í sundur og öðlast breytta merkingu, tengjast öðrum orðum svo úr verða ný. Í fyrstu bókum Ísaks tók trúin á sig mynd guðlasts en í þeim seinni hefur persónuleg trúarsýn fært sig í forgrunn ljóðanna. Réttlætiskennd hefur alltaf verið ríkur þáttur í skáldskap Ísaks. Hnefinn var steyttur gegn hræsni heimsins og ranglæti í ljóðabókum á borð við Ræflatestamentið — gegn valdhöfum og vopnaskaki og Guði sem yfir öllu ríkir. Í nýlegum bókum eins og Stokkseyri hefur kaldhæðnin mildast og orðið hnitmiðaðri. Himinninn hefur fært sig nær og farið er að bera á undrun yfir sköpunarverkinu, hlýlegri kímni og persónugerðum einmanaleika. Og aldrei er mjög langt í ljósið.
MYNDLISTARMENN
HREINN FRIÐFINNSSON
....

......

7, 1978-79 - sjö svarthvítar ljósmyndir
- 29 x 35 cm.
Hreinn Friðfinnsson (f. 1943) var einn af stofnendum SÚM-samtakanna árið 1965 en þau skiptu sköpum í þróun framúrstefnulistar hér á landi á sjöunda áratugnum. Hreinn hefur búið í Amsterdam síðan 1971 og sýnt verk sín víða. Myndlist hans er ljóðræn og innileg, en henni hefur líka verið líkt við heimspekilega könnunarferð um hverfula hversdagslega tilveru. Þegar litið er yfir verk Hreins fer ekki á milli mála að ljósmyndin er honum afar hugleikin. Hann notar hana í hugmyndaverkum sínum og sem hluta í samsettum lágmyndum, en einnig sem heimild eða skrásetningu. Hreinn hefur sjálfur sagt að hann reyni alltaf að hafa upp á því sem er óvenjulegt í hinu venjulega og þau orð eiga vel við ljósmyndir hans frá áttunda áratugnum. Þá gerði hann oft heimildarmyndir af ofurvenjulegum hlutum eða atvikum; myndir sem eru einhvern veginn mjög afslappaðar en samt einbeittar og hárnákvæmar og ná fyrir vikið að skapa sérkennilegan galdur. Raunar mætti í grófum dráttum skipta verkum Hreins hingað til í þrjú skeið. Á áttunda áratugnum gerði hann nær eingöngu ljóðræn ljósmyndaverk í anda hugmyndalistar. Á níunda áratugnum tók hann að glíma við áþreifanlegan efnivið og formbyggingu og gerði samsettar, þríðvíðar lágmyndir sem eru oft dálítið leikrænar og dulúðugar. Á tíunda áratugnum ber aftur meira á ljósmyndum og einföldum hversdagslegum fyrirbærum í verkum Hreins. Í viðtali sem tekið var við hann fyrir nokkrum árum segist hann alltaf reyna að koma auga á möguleika sem tengjast einhverju sem er fyrir hendi og gera á því „örlitla breytingu sem nægir til að blása í það nýju lífi“.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail