LJÓÐSKÁLD
INGIBJÖRG HARALDSDÓTTIR
Lækurinn
Það rennur lækur niður brekkuna
gjálfrar og skoppar á steinum

Það gengur kona upp brekkuna
kvíðin og hljóð

Nemur staðar á bakkanum
rýnir í vatnið
tínir upp gleymdar myndir
og gömul orð

Það stendur kona við lækinn
efst í brekkunni og sér
allt streyma fram
til óss, til hafs, til enda.


Afmælisljóð til sjálfrar mín

Svífandi ber þig að lágu húsi
í útjaðri draumsins
upp ljúkast dyr með ískri
innanúr myrkrinu heilsar þér gömul þögn
(af moldu ertu komin og hér muntu lífið verða)

þig undraði mest að tíminn
rann sporlaust til þurrðar
á hringferð heiman og heim

sem snöggvast finnst þér að loks
muni gátan ráðin
þú réttir fram hönd
en myndin gárast þú grípur í tómt
og grimmur hlátur þér fylgir
til næsta draums.
Úr „Nú eru aðrir tímar“, 1989, og „Orðspori daganna“, 1983.
Ingibjörg Haraldsdóttir (f. 1942). Í ljóðum Ingibjargar býr galdur, ekki íburðarmikill eða flókinn heldur látlaus og einlægur. Í ljóðum hennar er djúp persónuleg tjáning en jafnframt mæla þau lífið við félagslegt umhverfi og sögu. Þau brynjast einfeldni sinni, kaldhæðni bítur ekki á þau. Ingibjörg gaf út fyrstu ljóðabók sína, Þangað vil ég fljúga, árið 1974 og hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur síðan, síðast Höfuð konunnar 1995. Ljúfsárar stemmningar eru í þeim öllum, brothættar hugsjónir og draumar um betri heim eru oft yrkisefnin svo og staða konunnar, jafnt í heiminum sem á heimilinu. Það er ort til barna og fuglum sést bregða fyrir, oft eru þeir í búrum eða rétt óflognir burt. Ljóðin leitast við að stöðva þunga framrás tímans eitt andartak. Líf konunnar er ókennilegt og hversdagurinn framandi, rétt eins og önnur kona hafi lifað þessu lífi, umgengist þessa hluti, unnið þessi húsverk. Stundum eru vísanir í bókmenntahefðina þar sem horft er á umfjöllunarefnin frá nýju sjónarhorni, sjónarhorni konunnar. Sólin í ljóðunum er frá fjarlægu landi og í þeim býr virðing fyrir heimi mennta, sögu og hugsjóna. Í Nú eru aðrir tímar má skynja tæran trega, eftirsjá, og sérstaka tilfinningu fyrir tíma, sem einnig setur mark sitt á Orðspor daganna. Hreinskilinn ótti, kannski fremur uggur, setur svip sinn á ljóðagerð Ingibjargar. Þar eru skuggar, feigð og snjór, náttúra með mennskri nærveru en alltaf galdur — töfrum slungin nærvera þrátt fyrir allt. Og lagt er á brattann.
MYNDLISTARMENN
HELGI ÞORGILS FRIÐJÓNSSON
Blóm á strönd, 1991 - olía á striga - 55 x 45 cm.
Helgi Þorgils Friðjónsson (f. 1953) ruddi málverkinu nýja braut laust upp úr 1980 hér á landi, eftir að þetta gamalgróna listform hafði lent í djúpri lægð á áttunda áratugnum, sem stundum hefur verið kallaður áratugur hugmyndalistarinnar. Helgi hóf feril sinn með stórtækri framleiðslu á teikningum og teiknimyndabókum þar sem menn og dýr lifðu frjóu samlífi. Síðan fór hann að gera hráar skissur og teikningar beint á striga; hugmyndin var sú að einfalda sköpunarferlið og koma hugsuninni milliliðalaust í málverkið. Hið sjónræna skipti ekki öllu máli heldur hugmyndin á bak við allt saman. Helgi Þorgils á því rætur í hugmyndalistinni og fullyrða má að myndmál hans eigi fremur uppruna sinn í fantasíum og furðum hugans en í áþreifanlegum veruleika. Finngálkn, kentárar, englar og grískar goðaverur eru að vísu ekkert nýtt í málverkinu, þaðan af síður girnilegir ávextir. Mikilvægasta framlag Helga felst í óskilgreinanlegri stemmningu myndanna sem aðeins er hægt að lýsa í þverstæðum. Þarna ríkir fullkomin ró vestan úr mjúkum Dölum og brjálæðiskennd hugsýn, einlægt draumaríki og hárnákvæm blekking, upphafinn heilagleiki og stráksleg stríðni, trúin á eitthvað upprunalegt, saklaust og fallegt, og írónísk vitund um fáránleika tilverunnar. Ýmsir gagnrýnendur tóku verkum Helga fremur illa til að byrja með; þeim fannst vanta í þau eðlilega náttúru og karlmannlegar pensilstrokur og sögðu þau flausturslega unnin. Þessar raddir eru löngu þagnaðar. Helgi hefur sagt að myndir sínar séu raunsæjar og fegurð þeirra felist í því að þær séu sannar og réttar. Það er engu líkara en hann hafi rétt fyrir sér.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail