LJÓÐSKÁLD
VILBORG DAGBJARTSDÓTTIR
Umhverfi
Reynsla

Ætli ég hafi ekki orðið átta ára þá um sumarið. Það var um hádegisbilið síðsumars að ég skrapp einsömul niður að á. Venjulega stóð trébali fullur af vatni á árbakkanum, konurnar notuðu hann til þvotta en við krakkarnir geymdum stundum í honum síli sem við veiddum í ánni. Við slepptum þeim fljótt aftur, vorum bara að skoða þau. Ég fór úr skónum og óð berfætt út í grunna ána. Vatnið var tært og kalt. Stór síli skutust milli steina. Mér tókst strax að fanga eitt og hljóp með það í lófunum og sleppti því í balann. Um leið uppgötvaði ég að vatnið var sjóðheitt, tilbúið fyrir þvott — silungurinn rak upp skerandi vein og flaut dauður með hvítan kviðinn upp úr vatninu. Hvað eru staðreyndir og skynsemi ef reynslan stangast á við hvorutveggja? Fiskar hafa enga rödd, segir þú, þeir gefa ekki frá sér hljóð. En ég man nístandi óp silungsins meðan ég lifi.
Úr „Ljósum höndum“, 1996.
Vilborg Dagbjartsdóttir (f. 1930). Bros og hvísl bernskunnar búa í ljóðum Vilborgar, glampi afdráttarlausrar hlýju sem krefst þess að lagt sé við hlustir. Í fáum dráttum er sögð saga sem er allar sögur eða dregin upp borgarmynd sem býr yfir fleiru en því augljósa. Í ljóðum hennar birtast goðsagna- og skáldsagnaverur við nútímaaðstæður; ástarguðinn Amor situr grátandi á sorptunnuloki rétt í þann mund sem Derrick byrjar í sjónvarpinu, saga Hallgerðar Langbrókar er ort upp á nýtt. Eiginmaðurinn önnum kafni og yfirmaðurinn sljói birtast í ýmsum tilbrigðum í ljóðum Vilborgar og bernskan tekur á sig margar myndir. Stundum er það bernska heimahaganna og stundum birtast andlit barna, tilsvör eða sögur, en Vilborg hefur lengi verið kennari í Austurbæjarskóla og einnig skrifað fyrir börn. Fyrsta ljóðabók hennar, Laufið í trjánum, kom út 1960, meitlað verk þroskaðrar skáldkonu. Náttúrumyndir eru rauði þráðurinn í bókum hennar, sömuleiðis ríkir ákveðinn trúnaður. Fljótlega tóku að stíga fram í þeim stoltar og óbugaðar konur úr sögunni. Vilborg hefur í ljóðum sínum átt samræður við íslenska hefð jafnt sem evrópska en eitt sterkasta einkenni ljóðanna er draumur um betri heim, ekki draumsýn heldur draumur sem á að rætast. Myndmál og andblær ljóðanna er oft úr veröld þjóðsagna og þjóðkvæða, ævintýraminni eru látin renna saman við hversdagslegar aðstæður. Vísað er í þjóðtrú sem tengist íslenskum grösum og blómum en einnig bregður fyrir rósum. Í ljóðum Vilborgar birtist stundum skýr pólitísk afstaða sem kann einnig að búa í áherslum þeirra á verðmæti hversdagslífsins.
MYNDLISTARMENN
RAGNHEIÐUR JÓNSDÓTTIR
Hrímtjöld I, 1998 - kol á pappír - 150 x 150 cm.
Ragnheiður Jónsdóttir (f. 1933) er einhver snjallasti grafíklistamaður þjóðarinnar og fór á sínum tíma fremst í flokki þeirra sem túlkuðu kvenfrelsisbaráttu í myndum sínum. Myndir hennar af óléttukjólum, sem hengdir voru á snúrur eða festir á stóla, urðu víðfrægar. Þetta var á áttunda áratugnum, rauðsokkuáratugnum, og sagði Ragnheiður löngu síðar að kjólarnir hefðu lýst tilfinningum sínum; hinni miklu eftirvæntingu að eignast börn og kvíðanum við að vera bundin og ófrjáls. Sjálf eignaðist hún fimm stráka áður en hún sneri sér að myndlistinni af fullum krafti. Samlíðun með manneskjunni og sterk réttlætiskennd ganga eins og rauður þráður í gegnum verk hennar. Þegar ástandið er ískyggilegt í veröldinni og heimsfriðurinn í hættu hefur samstundis dimmt yfir verkunum; grafíksería frá 1991 til ‘92 er full af svörtu sólskini úr Völuspá og Persaflóastríðinu. Enginn má þó halda að allar myndir Ragnheiðar séu háalvarleg heimsádeila. Myndin „Deluxe and Delightful“ af konu með tertu á hausnum sýnir að ádeila getur líka verið fyndin. Einnig má nefna fallega myndröð sem hefur farið víða og heitir Bækur. Á seinni árum hefur Ragnheiður lagt grafíkina til hliðar og tekið til við að gera stórar og magnaðar kolateikningar. Fólk og hlutir hafa vikið fyrir punktum, blettum og línum úr fókus. Ragnheiður hefur líkt verkum sínum við barn í berjamó sem horfir ofan á þúfnakollana. Þeir breytast í hæðir og fjöll og lyngið í runna eða tré. Síðan ímyndar barnið sér að Guð sjái okkur einhvern veginn svona þegar hann horfir ofan á okkur svífandi á hvítu skýi.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail