LJÓÐSKÁLD
HANNES PÉTURSSON
Umhverfi
Hve lengi get ég lofsungið þessi fjöll
lofsungið þetta haf, þessar eyjar og strendur
já menn og alla hluti sem huga minn gleðja

hve lengi, án þeirrar vissu að eitthvað sé til
ofar sérhverjum stað, hverri reynslu og hugsun
sem teflir þessum fjöllum fram, þessu hafi
fjarlægð og nálægð, öllu — lífi og dauða

leikur því fram fyrir augum mér öruggri hendi?Sem dropi tindrandi
tæki sig út úr regni
hætti við að falla
héldist í loftinu kyrr —

þannig fer unaðssömum
augnablikum hins liðna.
Þau taka sig út úr
tímanum og ljóma
kyrrstæð, meðan hrynur
gegnum hjartað stund eftir stund.
Úr „Innlöndum“, 1968, og „Heimkynnum við sjó“, 1980.
Hannes Pétursson (f. 1931). Þessum ljóðum er leikið fram öruggri hendi. Orð og hlutir nema staðar eitt andartak og eru sett undir hvelfingu, eftirlætislögun Hannesar. Það eru fornir og ilmandi skógar og skógarjaðrar í ljóðunum og myndin af göngumanni og fjöru er þess virði að festa í huganum, ekki aðeins af því að fjaran kemur oft fyrir í ljóðum Hannesar heldur líka vegna hins að ekki er hlaupið að því að njörva niður hvaða fyrirbæri fjara er þegar búið er að fanga hana í orð. Fjaran birtist strax í fyrstu ljóðabók Hannesar, Kvæðabók, sem kom út 1955 og ljóð hans gerast oft á einhverjum mörkum. Þau eru í lifandi sambandi við hefð og sögu — þjóðlega geymd jafnt sem evrópska klassík — en glíma um leið við nútímalega vantrú á tungumálinu. Skáldið freistar þess að fanga glampann sem flöktir af orðunum, blik orðanna í sinni upprunalegu mynd. Ljóðin lýsa oft söknuði eftir nánu samneyti orða og hluta, heims og ljóðs. Þjóðsagan og náttúran læsast saman í órjúfanlega heild í ljóðum Hannesar og mörk manns og náttúru eru afmáð. Stundum eru orðaðar af varfærni stórar hugsanir: Það sést glitta í örugga hönd á bak við allt sem er, regndropi hættir við að falla. Ljóðaheimur Hannesar á sín Heimkynni við sjó eins og ljóðabók hans frá 1980 er til marks um, en sú bók markaði þáttaskil á ferlinum þótt hún sé í eðlilegu framhaldi af fyrri vegferð. Og leitinni er haldið áfram í Eldhyl, nýjustu bók hans. Ljóð Hannesar koma orðum að því ómælanlega og fanga tilfinningu fyrir nýrri byrjun, lífsumbrotum.
MYNDLISTARMENN
GEORG GUÐNI
Án titils, 1996 - olía á striga - 135 x 150 cm.
Georg Guðni (f. 1961) hefur átt stóran þátt í að blása nýju lífi í íslenska landslagsmálverkið. Það hafði lengi verið í ónáð þegar hann hélt sýningu árið 1985 á olíumyndum af ellefu íslenskum fjöllum. Þau voru öll auðþekkjanleg en mynduðu eina formræna heild á móti himninum. Litir voru grábláir og formin afmörkuðust fremur af mismunandi tónum og birtu en skýrum línum. Þarna voru komin sum mikilvægustu höfundareinkenni Georgs Guðna og landslag sem var gerólíkt því þjóðerniskennda og rómantíska landslagi sem yfirgnæfði mestalla myndlist í landinu, þegar landið var fagurt og frítt, frá aldamótum og fram undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari. List Georgs Guðna byggir á nákvæmum athugunum á veðrabrigðum, litum og birtu upp til fjalla og heiða. Í fyrri verkum tókst honum að galdra fram einkennilega blámóðu yfir fjarlægum fjöllum þannig að þau urðu loftkennd og eignuðust hlutdeild í himninum. Undanfarin ár hefur landslagið orðið jafnvel enn fábreyttara í verkum hans. Í stað auðkenna eins og fjalla og hóla er komin brún heiði, oft í hálfgerðum rigningarsudda. Landslagið verður flöktandi og fljótandi í votviðrinu og gæti verið hvar sem er. Þessar myndir eru málaðar í ótal hálfgagnsæjum, mikið þynntum lögum sem búa yfir svo fíngerðum litbrigðum að þær geta virst einlitar. Hér eru engar dæmigerðar náttúruperlur og fannhvítir jöklanna tindar, heldur landslag sem horfir á ferðalanginn og spyr með þögn sinni: „Hver ert þú og hvað er þú að vilja hingað?“ Allt tal um náttúruna sem auðlind, fyrir virkjunarmenn eða ferðamenn, verður hjákátlegt frammi fyrir þessum verkum. Náttúran er ekki til mannsins vegna.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail