|
|
|
LJÓÐSKÁLD |
ÞORSTEINN FRÁ HAMRI
|
Fyrnd
|
|
|
Hrundar borgir
og brotin skip
kalla menn ýmsar sinna kærustu stunda.
Og eins þótt endrum og sinnum
teygi sig turnar í heiðið
og þjóti í þöndum seglum
laðar þá gagnsæ hönd
á rúst og reka.
Gleðin
Gleðin er bernsk: hana brýtur
sí og æ
á sömu skerjunum,
kýs þó jafnan fleytuna fremur en brú
og nær að endingu
lífhöfn, lendingu
í mannsfjöru eins og minni, um nónbilið eins og nú. |
|
|
Úr Urðargaldri, 1987, og Það talar í trjánum, 1995.
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Þorsteinn frá Hamri (f. 1938). Sagan andar í ljóðum Þorsteins, í hrynjandi þeirra, stuðlum og höfuðstöfum. Þau brúa bilið milli þjóðkvæðahefðar og nútímaljóðlistar, standa á milli hefðar og nýjunga. Stundum er eins og álfar og tröll hafi brotist út úr fangelsi síns tíma en nútíðin brýst einnig út úr andartakinu og leitar eigin sögu og uppruna. Þetta eru ekki ljóð til að gleypa í sig. Læra þarf að rata um innviði þeirra því orðin standa í lífrænu sambandi hvert við annað; rústir við turn, reki við segl. Þorsteinn er nútímalegt skáld en í yrkisefnum hans er sátt við fortíðina, þjóðmenninguna, þjóðsöguna sátt með dálitlum semingi. Ljóðin hafa að geyma heildræna sýn og næmt innsæi. Í þeim eru aldrei látalæti heldur þrautseigt viðnám gegn hvers konar skrumi og sýndarmennsku, gleði þeirra og fögnuður eru langt að komið dýrmæti. Fyrsta ljóðabók Þorsteins, Í svörtum kufli, kom út árið 1958. Hann er afkastamikið skáld og á að baki vel á annan tug ljóðabóka, auk skáldsagna og þátta. Það sem ekki verður alveg tjáð með orðum er vakandi þáttur í skáldskap Þorsteins, eitthvað liggur á milli orðanna, í eyðum, þögnum og því ósagða. Stundum gerist eitthvað af miklum krafti í ljóðunum, atburður sem ekki er hægt að festa hönd á, eitthvað leysist úr læðingi á laun eins og fyrir tilverknað særingarþulu. Í nýjustu bókum Þorsteins, Sæfaranum sofandi og Það talar í trjánum, hefur bæst við galdur ljóðanna tilfinning sem kenna má við þrátt fyrir allt og allt. Hvorki sátt né ofbirta en það talar í trjánum.
|
|
|
|
|
|
|
MYNDLISTARMENN |
KRISTJÁN DAVÍÐSSON
|
|
|
|
Án titils, 1960 - blönduð tækni - 43 x 41 cm. |
|
|
|
Kristján Davíðsson (f. 1917) á heiðurinn af því að vera fyrstur íslenskra málara til að gera svokallaðar slettumyndir. Hann notaði til þess bílalakk og sýndi myndirnar á tveimur einkasýningum árið 1957. Kristján hafði þá haldið sig til hlés í sjö ár, því strangflatarmálverkið var ríkjandi stíll á þessum tíma og sú óþvingaða og ljóðræna myndlist sem Kristján aðhylltist átti ekki upp á pallborðið. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en Kristján Davíðsson hefur samt alltaf haldið sínu striki og slettu. Kristján ólst upp á Patreksfirði og varð fyrir sinni fyrstu myndlistarlegu upplifun fimm ára gamall þegar hann sá Mugg mála höfnina á Vatneyri. Hann lærði í einkaskóla Jóhanns Briems og Finns Jónssonar í Reykjavík og hefur sennilega orðið þar fyrir áhrifum af expressjónísku málverki með þykkri litaáferð. Heimsókn Kristjáns til New York 1946, þar sem hann sá verk eftir Paul Klee og Jean Dubuffet, markaði tímamót á ferlinum. Hin sérkennilega blanda af barnslegu sakleysi og frumstæðri kynngi í verkum þeirra höfðaði sterkt til hans. Sjálfur málaði hann nokkur eftirminnileg portrett í þessum stíl af vinum og kunningjum eins og Steini Steinarr, en það var þó ekki fyrr en undir 1960 að list hans fór að blómstra. Þá hafði dýrkun strangflatarmanna á beinum línum og hreinum litum orðið að víkja fyrir ljóðrænni afstraktlist, eða slettulist eins og hún var kölluð í Frakklandi (tachisme). Sletturnar í verkum Kristjáns eru auðvitað óhlutbundnar því þær eru ekki eftirlíking af neinu. Samt hafa flestir skynjað einhvers konar jarðsamband í þessum verkum við íslenska náttúru eins og hún gerist hrikalegust og hreinust. |
|
|
|
|