LJÓÐSKÁLD
MATTHÍAS JOHANNESSEN
Haustljóð um vorið
Gekk út í garð, trén úfin
og reytt þennan dag, engir
þrestir og erfidrykkja haustsins
ekki hafin, fölgular hálfnaktar
greinar, sé laufið falla
á stéttina, sé rauða klasa
haustveizlunnar bíða gestanna, sé
sjálfan mig í þessu fjúkandi
laufi, þessum þrastlausu
hálflaufguðu greinum, sé
sjálfan mig í þessum gamla
kliðlausa garði.

Haltrandi af bakverk
geng ég að sírenunni, leita
að rauðlitri angan, leita
vors sem er löngu liðið, leita
okkar sem eitt sinn vorum ung, okkar
í þessu ilmlausa hausti, leita
þín sem eitt sinn var ég
en finn aðeins mig sem eitt sinn
var þú,

ó, vor

eitt sinn fundum við
ilm sírenunnar saman
og hún rétti mér hönd sína
rétti mér vorið sem eitt sinn
var hún,

rétti mér vorið sem er hún
á þessu svikula hausti.
Það er vindurinn, sagði hún, það
er vindurinn og horfir á laufið þyrlast
við fætur okkar, horfir á
hvernig vindurinn feykir gulu laufi
hvernig það fennir í spor okkar, það
er vindurinn segir hún,
ósýnilegur eins og tíminn.

Þegar ég sé þessi rauðu tré hugsa ég
um hana og hvernig hún hefur
aðlagast haustinu, hugsa
um okkur og hvernig við
höfum búið okkur undir upprisu, hugsa
um það hvernig hún flaug eins og þögnin
úr hjarta mínu, hugsa
um fugla og fiðrildi og hvernig tíminn
skilur garðinn sinn eftir
eins og minningu, hugsa
um hana og hvernig hún skilur eftir
haustrauða minningu fuglanna.

Haustið kviksárt eins og nálar
furutrésins og minningin
fuglshvítur vængur
sem hverfur hægt inn í haustrautt
sólarlag,

þá hugsa ég um austrið
og hvernig það færist
vestur með landinu, slokknar við jökul

hugsa um okkur sem erum
bundin tímanum
eins og trén jörðinni.
Áður óbirt ljóð.
Matthías Johannessen (f. 1930). Breiður menntaheimur og víðfeðmi eru einkenni á ljóðum Matthíasar. Ort er til skáldsagnapersóna, skálda, rithöfunda og heimspekinga og lagt út af einstökum atriðum í sögu mannsandans. Bækur hans eru margar og miklar að vöxtum og yfir þeim er evrópskt yfirbragð þótt ljóðin eigi sér sterkar rætur í íslenskri hefð, ekki síst sagnahefð. Matthías tekur við kyndli frumherja módernismans og hefur tvíbenta afstöðu til bæði hefðar og nútíma. Fyrsta ljóðabók hans, Borgin hló, kom út fyrir fjörutíu árum. Hún sló sterkan tón en þó er táknveröld Matthíasar aldrei söm: trjám, fuglum, vængjum og vötnum sést endurtekið bregða fyrir. Árstíðir og dagar renna upp í náttúru sem er svo algerlega og óhjákvæmilega íslensk en í næstu andrá eru gerðar sposkar athugasemdir við heimsmálin eða leikið á létta strengi í örstuttum alþýðlegum þulum. „Kumpánlegt olnbogaskot“ dauðans er ekki fjarri og á himninum í ljóðum Matthíasar birtast alheimsteikn. Oft er landslagið í ljóðunum gert af manna höndum, borg eða almenningsgarður, en ekki liggur ljóst fyrir hvar sá almenningsgarður er, í miðri Evrópu, á Indlandi eða á Íslandi — eða alls staðar í senn. Stundum er landslagið kunnuglegt og íslenskt en á næsta andartaki taka að vaxa þar ilmsterkar og framandi sírenur. Í nýjustu ljóðabók Matthíasar, Vötn þín og vængur, er þetta skýrt einkenni, ljóðin leitast við að rúma alla tíma og alla staði í senn. Í ljóðum hans kallast ein árstíðin á við allar hinar, trúarlegur hátíðleiki á samleið með gáskafullri íhugun.
MYNDLISTARMENN
BRAGI ÁSGEIRSSON
Hin blakka, 1956 - steinþrykk - 76 x 53 cm
Bragi Ásgeirsson (f. 1931) er grafíklistamaður, listmálari, myndlistarkennari og mikilvirkur gagnrýnandi. Ef marka má sögur um að nemendur hans í kringum 1970 hafi fyllst svo miklum ákafa við grafíkmyndagerð að þeir tímdu ekki að fara heim, heldur sváfu í svefnpokum í skólanum, þá gefur augaleið að Bragi Ásgeirsson hefur líka kunnað þá list að kveikja neistann í brjóstum ungs fólks. Hann hefur raunar verið kallaður guðfaðir hinnar miklu vakningar sem átti sér stað í íslenskri grafíklist á áttunda og níunda áratugnum. Samhliða námi í málaralist stundaði Bragi nám í grafíklist, einkum steinprenti, á sjötta áratugnum í Osló og München. Til þess var tekið á fyrstu einkasýningum hans milli 1955 og 1960, að Bragi gerði grafíkverkum sínum jafnhátt undir höfði og málverkunum. Það sýnir að sjálfsagt þótti að setja grafíklistirnar skör lægra en málverkið, en sýningar Braga juku mjög veg þeirra og virðingu í augum íslenskra sýningargesta, ekki síst yngri kynslóðarinnar. Á þessum sýningum gat að líta strangflatarmálverk, sem eru eins konar óður til línunnar, litarins og hreinna flata, og við hlið þeirra mjúkar og dulúðlegar grafíkmyndir af íturvöxnum konum. Í sumum tilvikum blandaðist þetta tvennt saman þannig að litfletir með ströngum og beinum línum mynduðu bakgrunn fyrir konur í nýklassískum stíl með hvelfdan barm. Hreintrúarmönnum í strangflatarlist hefur eflaust þótt þetta sérkennileg samsetning en Bragi hefur alltaf hrifist af hvoru tveggja: fígúratífum myndum af hlutum og fólki og óhlutbundinni list, enda hefur hann sagt að mannslíkaminn sé í eðli sínu meistaraverk náttúrunnar í flatarmálsfræði.
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail