Guðjón Bjarnason | ||||||||||||
Guðjón starfar bæði sem myndlistarmaður og sem arkitekt, og hefur vakið athygli bæði fyrir sýningar sínar hér heima og erlendis, og fyrir störf sín að byggingarlistinni. Eftir hann liggja málverk sem oft eru gríðarstór, höggmyndir og myndraðir á pappír.
Guðjón á að baki margar einkasýningar á Íslandi, meðal annars á Kjarvalsstöðum, í Hafnarborg og Norræna húsinu, auk þess sem hann hefur haldið margar einkasýningar í Noregi og Bandaríkjunum. Þá hafa verk hans verið á samsýningum víða um heim. Ein af nýlegum sýningum hans var fimm manna sýning í Henie-Onstad listamiðstoðinni í Noregi þar sem hann sýndi ásamt Roj Friberg, Odd Nerdrum, Patrick Huse og Michael Kvium. List Guðjóns er fjölþætt og oft óræð, en svo notuð séu orð sýningarstjórans Øivind Storm Bjerke má lesa list Guðjóns sem landslagssýnir sem standa andspænis kosmísku rými. Þetta er list sem er upplifuð en þar sem natúralísk eftirmyndun skynjunarinnar á hvergi heima. Myndirnar tengjast túlkun á rómantísku hefðinni að svo miklu leyti sem hún tjáir sig með náttúruelementum á borð við eld, loft og vatn, en blandar þeim saman í eina óskilgreinda heild af birtu og orku. Náttúran birtist hér sem samspil óreiðu og reglu. |
||||||||||||
Greinasafn | ||||||||||||
|