Hafsteinn Austmann
Glettur 1984 - Olía 100 x 120 sm
Sjónarspil á Sjónþingi

eftir Halldór Björn Runólfsson

Það eru nú liðin fjörutíu ár frá því Hafsteinn Austmann hélt sína fyrstu einkasýningu í Listamannaskálanum. Þá var hann svo til nýkominn heim eftir eins árs framhaldsnám við Académie de la Grande-Chaumiére í París. Þar komst hann í bein kynni við þá strauma sem kenndir voru við skóla þeirra borgar. Eins og flestir íslenskir kollegar hans á árunum 1950 til 1955 hreifst Hafsteinn mest af þeim hluta Parísar-skólans sem sneri að geometrískri abstraktlist, enda gerði hann þeirri liststefnu hin verðugustu skil. Megininntakið í þeirri list bar eins og það var sett fram af Leon Dugand, ritstjóra listtímaritsins ‘Art d'aujourd'hui’, endurlausn tjáningarinnar undan allri ytri tilvísan, áferðareffektum og myndrænum sjónhverfingum.

Svo er að sjá sem Hafsteinn hafi fylgt þeirri forskrift í meginatriðum svo lengi sem hann hélt tryggð við geometríska tjáningarhætti. En fljótlega tók ljóðrænni stíll völdin og Hafsteinn gerðist lýrískur abstraktmálari og afkastamikill vatnslitamálari. Raunar má það ljóst vera að honum lætur mun betur að fást við miðlungsstærðir en risafleti. Að frátöldu nokkuð löngu og ófrjóu tímabili á 8. og 9. áratugnum, svokölluðu ‘sveiflutímabili’, hefur Hafsteinn Austmann ræktað garð sinn með alúð og kostgæfni. Hann hefur stöðugt þróað tækni sína og myndmál án þess að taka afgerandi stakkaskiptum. En þess ber að gæta að hann hefur aldrei reynt að teygja sig út fyrir þann reit sem hann markaði sér á fyrstu árum starfsævinnar.

Vissulega má skilja þá gagnrýnendur Hafsteins sem telja hann vera að fást við löngu leyst vandamál sem engu máli skipti fyrir framvindu listarinnar á vorum dögum. Á Sjónarhóli þar sem finna má nýjasta og jafnframt heilsteyptasta hlutann á listkynningunni sýnir listamaðurinn lipurð sína sem abstrakt-expressionisti, bæði í olíumálverki og vatnslitum, en þeir eru kjörmiðill hans hvað sem öðru líður. Að margra dómi eru þessi ‘flinkheit’ helst til síðbúin. Þau hefðu þurft að vera nokkrum áratugum fyrr á ferðinni til að hrista upp í viðteknum viðhorfum. [...]

(Alþýðublaðið, 18. apríl 1996) 

Fjórir nútímalistamenn

eftir Jón Proppé

Samsýningin í Norræna húsinu myndar allsterka heild þótt margt skilji listamennina að, bæði hvað varðar útfærslu myndanna og efni. Listamennirnir fjórir — Björn Birnir, Hafsteinn Austmann, Helgi Gíslason og Valgerður Hauksdóttir — hafa öll mótað sinn sérstaka stíl sem orðinn er listunnendum kunnur. En það er vel til fundið að sýna verk þeirra saman því í þeim má segja að birtist samfelldir kaflar í þróun afstraktmyndlistar á Íslandi; í þeim má greina samhengi sem reynist vera hugmyndalega órofið síðustu þrjátíu eða fjörutíu árin þótt miklar sviptingar hafi annars orðið í myndlistinni. Samhengið nær allt aftur til þeirra strauma sem hingað bárust frá Salon des Réalites Nouvelles í París enda sýndi Hafsteinn Austmann þar árið 1955 og fram til þeirra aðferða sem íslenskir listamenn hafa þróað gegnum grafík en á því sviði hefur Valgerður Hauksdóttir einmitt markað spor sín frá því hún sneri heim frá námi.

Sýningar af þessu tagi sýna að það er enn mikið líf í þeirri myndhugsun sem afstraktið kveikti en varð síðan tískustraumum að bráð og þótti um tíma bókstaflega púkó. Kannski höfum við loksins tækifæri til að skilja þessa myndhugsun í samhengi við aðrar hugmyndir í listinni í stað þess að telja hana vera algera höfnun á því sem áður hafði verið gert, líkt og var alltof algengt þegar þessar stefnur voru fyrst að ryðja sér til rúms, eða sem úrelta kreddu, líkt og gert var þegar yngri listamenn helltu sér ákafir út í konsept og síðar ‘ný málverk’. Sýningin í Norræna húsinu er sönnun þess að í leit sinni geta myndlistarmenn náð saman þótt árin skilji þá að og að einlæg leit þeirra í sköpuninni myndar samhengi sem er á endanum sterkara en nokkur stílhugmyndafræði.

(DV, 22 apríl 1995)

Svo er að sjá sem Hafsteinn hafi fylgt þeirri forskrift í meginatriðum svo lengi sem hann hélt tryggð við geometríska tjáningarhætti. En fljótlega tók ljóðrænni stíll völdin og Hafsteinn gerðist lýrískur abstraktmálari og afkastamikill vatnslitamálari.
Án titils 1996 - Olía 150 x 205 sm
Án titils 1996 - Olía 150 x 205 sm
Án titils 1997 - Olía
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail