Hafsteinn Austmann
Komposition 1955 - Olía 85 x 105 sm
Kliðfastar og hugljúfar

eftir Aðalstein Ingólfsson

Hafsteinn Austmann verður að telja úthaldsbestan íslenskra afstraktmálara og um leið þann fágaðasta þeirra. Í meira en þrjátíu ár hefur hann rækt og ræktað sína fínlegu afstraktlist, án þess að skeyta hætishót um tískusveiflur í heimslistinni, hvað þá um hina svokölluðu ‘fígúratífu skírskotun’ sem raskað hefur ró margra góðra listamanna.

Hafsteinn hóf myndlistarferil sinn um miðjan sjötta áratuginn undir merkjum strangflatarlistarinnar, en í kjölfar hinnar ljóðrænu afstraktlistar tók hann að mýkja allar áherslur í myndum sínum. Við upphaf sjöunda áratugarins var Hafsteinn búinn að finna sér gullinn meðalveg milli harðlínustefnu og mýktar í málaralist sinni. Það gerði hann með því að viðhalda hinu bjarta, stundum viðkvæmnislega litrófi sínu og aðlaðandi áferð, en slá utan um þetta tvennt gildum innviðum í ‘flug’-stíl Þorvalds Skúlasonar. Þannig lukkaðist Hafsteini að gera myndir sínar bæði ramm- og fíngerðar.

Vissulega má margt gott segja um þessar myndir Hafsteins. Þær eru pottþéttar tæknilega, yfirleitt bjartar í litum og kvikar í teikningu, nokkuð svo nærverugóðar, hvort sem er á heimili eða á opinberum vettvangi. Þeim má líkja við kliðfasta og hugljúfa Vínarmúsík Roberts Stoltz. [...]

Í seinni tíð er þó eins og Hafsteinn sé á höttunum eftir traustari kjölfestu fyrir málverk sín og frjálslegri vinnubrögðum í vatnslitunum. Málverkin eru mörg massífari í útliti en áður og ískyggilegri í litum og vatnslitirnir hafa að hluta til hrist af sér staðlaða myndskipan á la Þorvaldur og teygja sig um gjörvalla pappírsörkina á la Kristján Davíðsson. Vatnslitamyndir Hafsteins eru eins og mitt á milli þeirra tveggja vita sem hér hafa verið nefndir, með tilheyrandi kostum og göllum.

(Vísir, 1984)



Vatnslitamyndir Hafsteins Austmanns

eftir Guðberg Bergsson

Hafsteinn Austmann er vestrænn málari, hann þekur þess vegna allan flötinn með litum. En með sama hætti eða svipuðum og hinn kínverski notar hann pensilinn til þess að teikna með honum eða draga oftast grófar línur. Auðsætt er þó að hann beitir ekki penslinum með sama hætti og reglur segja fyrir um í kínalist, en það er í sjalfu sér talsverð íþrótt að beita pensli að kínverskum hætti. Af þessum sökum gerir Hafsteinn lítinn greinarmun á notkun pensils við olíumálverk og vatnslitapensils. Það gildir sama um hann og fjölmarga íslenska málara, þeir eru í hinum ýmsu greinum málaralistarinnar en nota sömu aðferðirnar við þær allar. Þannig vinnur grafíklistamaður málverk eins og það væri grafíkmynd, teiknarinn teiknar eins og hann væri að reyna að líkja eftir málverki o.s.frv.

En það er Hafsteini til happs að málverk hans eru í eðli sínu náskyld vatnslitamyndunum, vegna þess að hann leggur höfuðáherslu á blæbrigði og gagnsæi í staðinn fyrir andstæður eða stranga formbyggingu. Málverk hans og vatnslitamyndir eru þess vegna miklu fremur mynstur en formbygging. Hafsteinn nýtur sín einstaklega vel í vatnslitamyndum, einkum þeim þar sem hann ‘teiknar’ ekki um of og leyfir vatnslitunum að flæða. Því það er eðli vatnsins að flæða fremur en safnast í tjarnir, og á jafnt við um það þótt það hafi fengið í sig aukalit.

Ýmsir málarar, líkt og Turner, teiknuðu undir en leyfðu vatnslitunum síðan að flæða yfir blýantsteikninguna. En þau undursamlegu áhrif hverfa ef penslinum er beitt sem blýantur væri, jafnvel þótt litir flæði síðan yfir pensilförin. Vatnslitamyndir eru viðkvæmar, gæddar duttlungum og draumum fremur en ríkri skapgerð fullri af andstæðum. En kannski er mikil skapgerð einslags yfirborðsform sem leynir blæbrigðum, jafnvel rótleysi, sem getur verið einkar fagurt í vatnslitamyndum og Hafsteinn nálgast það aðeins á köflum. Kannski er þetta skýringin á því að bretar eru bestu vatnslitamennirnir.

Því miður hafa íslenskir listamenn ekki lagt mikla stund á það að mála vatnslitamyndir, og ef þeir gera það þá draga þeir næstum undantekningarlaust línur með penslinum, líkt og Gunnlaugur Scheving. Ásgrímur er þó undantekning í síðustu myndum sínum, sem sýndar voru hjá Listvinafélaginu árið 1953, að mig minnir, en síðan ekki söguna meir.

Hafsteinn Austmann skipar sér í hóp fremstu vatnslitamálara okkar. En okkur vantar hugsuði sem fjalla um flæði og litinn og eiginleika beggja og andstæður, því ef vatnið í vatnslitunum er flæði, þá er litarefnið festan í honum. Og það eru þessir andstæðu eiginleikar sem gera litinn svo vandmeðfarinn og heillandi. Listamaðurinn sem notar vatnslitinn verður að íhuga. Vatnslitamyndin er íhugun.

(Pressan, 1983)

Við upphaf sjöunda áratugarins var Hafsteinn búinn að finna sér gullinn meðalveg milli harðlínustefnu og mýktar í málaralist sinni. Það gerði hann með því að viðhalda hinu bjarta, stundum viðkvæmnislega litrófi sínu og aðlaðandi áferð, en slá utan um þetta tvennt gildum innviðum í ‘flug’-stíl Þorvalds Skúlasonar.
Þríhyrningar 1991 - Vatnslitur 41 x 58 sm
Rjóður 1983 - Vatnslitur 41 x 28 sm
artists
critics
gallery
central
office
icelandic
e-mail