|
||||||||||
Ljósmyndin er hugsun Ljósmyndin er tilraun til að sýna það ósýnilega líkt og röntgenmyndir eða strikamerki. Hvað er í myndinni sem við sjáum en greinum ekki? Ljósmyndir sýna fyrst og fremst það sem við hugsum. Hugsun ljósmyndarans er þar á meðal. Ljósmyndir eru því ekki það sem við sjáum heldur það sem við hugsum. Og ekkert annað þar sem myndin hefur enga merkingu utan mannlegrar tilveru. Ljósmyndin er hins vegar alltaf önnur sýn, önnur sýn á það sem við ekki sjáum. Við sjáum ekki með augum ljósmyndarans, en við höfum aðgang að augum og hugsun hans í gegnum ljósmyndina. Mér virðist sem að stundum gleymist að ljósmyndin getur ekki lifað án mannsins og hefur enga merkingu utan manlegrar tilveru. Ljósmyndin er í þeim skilningi forgengileg líkt og myndefni sem tilheyrir liðinni tíð á sömu stundu og myndin er kláruð. Og líkt og tíminn vinnur á manneskjunni, vinnur tíminn á skilningi hennar á myndefninu. Það sem vex þrífst á því sem undan hefur látið. Tíminn vinnur því ekki eingöngu á efnislegri tilvist myndarinnar heldur einnig á merkingu hennar. Ljósmyndarinn stendur aftur á móti utan við lýsandi orð myndarinnar. Myndin er lýst hugsun hans og verður kannski aldrei það sem hann ætlaði sér í hugum þeirra sem sjá myndina. Það er því ekki nóg að sjá með augum ljósmyndarans. Hann býður okkur upp á margræða einföldun á ferhyrndum fleti. Orðin hjálpa til við að einfalda þessa margræðni. Fram á þenna dag hefur Íslendingum verið tamt að umgangast ljósmyndir líkt og þær eigi sér ekki fleiri líf en eitt og snúist eingöngu um myndir sem eittvað sjáist á. Ljósmyndir af engu eru hins vegar ekki til og ljósmyndin á sér ótal líf á sama tilverustiginu því sama myndi hefur oft margvíslega merkingu innan sama menningarsvæðis. Á það jafnvel við fyrir sama manninum. Sé litið til eldri ljósmynda sést t.d. að þær eiga sér eilíft líf og vafalaust hafa margar þeirra gengið í gegnum mörg tilverustig. Verið handfjatlaðar af nokkrum kynslóðum og notaðar í ólíku samengi í gegnum tíðina. Það er hugsunin sem gerir ljósmyndina að því sem hún er. Sigurjón Baldur Hafsteinsson, mannfræðingur |
||||||||||
|