Þóra Þórisdóttir

Ég hafði verið að sauma út í línið. Þetta lín var það fínasta sem ég fann. Þetta er bómullarlín, það hefði verið betra úr hör en ég fann ekkert nógu fínofið. Ég var að sauma út mynstur í hvítan kjól, bródera harðangur og klaustur. Mynstrið er af vínviðnum og berjunum. Hver nálarspor táknar þjáningu hans. Hvíta línið er brúðarlín, og eins konar skírnarklæði, og táknar réttlæti. Hver hefur efni á slíku klæði? Ég sting mig í fingurinn með hárbeittri nálinni og horfi á blóðrauðan blettinn stækka. Ég hugsa um blóð, mitt blóð og hans blóð. Fórnarblóð og hreinsunarblóð. Ég er varla byrjuð að sauma í kjólinn og er nú þegar í vandræðum með að halda honum hvítum. Þar sem ég ætla að sýna kjólinn á Listahátíð verð ég að hafa hraðar hendur ef ég ætla að ljúka við hann. Þó veit ég að hann verður aldrei kláraður því að útsaumurinn er lofgjörðin til hans sem má aldrei hætta. En ég hef vissar áhyggjur af því, að þegar til kemur verði ég orðin of feit í kjólinn - kjólinn sem táknar innri tjaldbúðina og skýlir nekt minni frammi fyrir honum.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail