Svanur Kristbergsson Hvað ertu að fara með þessu verki? ... mjá, mjá, mjá; það er handan tungumálsins; hviss, hviss. Hvað er handan tungumálsins? Er eitthvað handan tungumálsins? Er ekki það er ekki hægt að útskýra það, það er handan tungumálsins ódýrt svar við spurningunni hvað ég sé að fara með þessu verki, með list minni? Ég veit ekkert hvert ég er að fara, á þeirri frumspeki hvílir líf mitt. Það er svarið! Það eru smástirni sem er skítsama um örlög mín, þau eiga ekki erindi við mig en þau stefna á mig – svellkaldar þessar stjörnur: Im a star-magnet. Hvað ert þú að reyna að segja með þessu verki eða þessari seríu sem þú kallar Einu sinni aldrei aftur? Það veltur alfarið á því hver ég er þegar ég svara spurningunni. Ef ég er í tómhyggjukasti þá er svarið einfalt: Ekkert. Ef ég er náfölur af heildarsorg og í sárri þjáningu yfir skilningsleysi, sambandsleysi, snertingarþörf og ástleysi, þá segi ég: Forgengileiki lífsins. Ef ég er himinlifandi, hálfslefandi af gleði, þá svara ég: Svarið er ekki að finna hjá mér, líttu upp í himininn, á stjörnurnar, hlustaðu á fegurð náttúrunnar, strjúktu skjaldböku, finndu lykt úr vöggu lífsins. Þar er svarið! En hvert er hið raunverulega svar? Hið raunverulega svar er ekki til en við getum alltaf látið eins og það sé í raun og veru til, þ.e. tilgerðarsvar: Sjáðu til, þetta er eina verk mitt, verk í verki. Þú ættir að fylgjast með mér, hinum einstaka. Komdu til mín og þá skal ég segja þér frá einhverjum verkum. Kannski eggjum sem ég safnaði þegar ég var lítill eða litlum börnum sem eru á lífi í Suður-Ameríku. Þú mátt skoða augun í mér, þú mátt meira segja dýfa fæti í þau og finna hvað þau eru temmilega heit. Ekki nálgast mig frá verki, nálgastu verkið frá mér. Ég er frá mér! Hvað finnst þér um dauðann? Hann sýnir okkur að engin veröld getur verið án prinsessu. Það getur enginn verið án Díönu. Af hverju heldurðu að dauði Díönu hafi verið sorglegasti atburður gjörvallar mannkynssögunnar? Hin einstaka Díana dó. Hún er sú sama einstaka og þú sem ert ávörpuð í auglýsingum. Þú sem ert einstök með þátttöku í fjöldamenningunni og borðar eða notar það sama og allir hinir. Þetta er sannleikur auglýsinganna. Þetta er þeirra eðli, þeirra verufræði: að uppfræða okkur um einstakleik okkar. Með því að halda að okkur hlutlægum fjöldaframleiddum vörum þá efla framleiðendur með okkur einstaklingsvitundina og einnig þá þægilegu vissu að við tilheyrum einhverjum, séum ekki ein. Hver hafrahringur er einstakur eins og sérhvert tár þitt. Þessir hringir eru lítil tárafræ, og svo kaupum við þetta handa börnunum okkar! Æ, það skiptir svo sem engu máli hvað við kaupum handa þeim. Svona að lokum, hver er sannleikurinn? Vandi minn er vandi hins raunverulega svars; það er ekki raunverulegt, það er alveg örugglega ekki guðdómlegt, það er víst — í mesta lagi guðfræðilegt. Besta svarið væri þó örugglega: þetta er ég sem hringsnýst á Aolíu, áttavitalaus í leit að Guði. Ég öfunda hvern þann sem lifir í blekkingu, í blekkingu lambsins sem er alið upp til að deyja. |
||||||||||
|