Steingrímur Eyfjörð Kristmundsson Grýla/Venus: líkamleg ofskynjun Grýla er ein sterkasta alþýðuhugmynd sem ennþá lifir góðu lífi í íslenskri þjóðarsál, eða eins og Salvör Gissurardóttir orðar það í bréfi til mín um Grýluhugmyndina: Grýla er miklu meiri partur af einhverri sameiginlegri vitund Íslendinga heldur en Njáll á Bergþórshvoli. Í sameiginlegri vitund þjóðarinnar lifir Grýla og hefur lifað allt frá því þegar hún birtist fyrst í Snorra-Eddu og til dagsins í dag og hún hefur verið í mörgum hlutverkum. Grýlu-hugmyndin hefur lifað af vegna þess að í grunninn er hún tákn fyrir persónugervingu óttans: ógn, hrörnun, grimmd og ljótleika. Hún hefur náð því að vera endanleg tilvísun innan ramma kvenímyndarinnar eins og Venusarhugmyndin er endanleg vísun til fegurðar. Venus vísar í sjálfa sig hvað varðar fegurð og Grýla vísar í sjálfa sig hvað varðar ljótleika. Er einhver fallegri en Venus og er einhver ljótari en Grýla? Venus og Grýla eru tengdar andstæður. Hugmyndin um Venus kallar á Grýlu og sú síðarnefnda kallar á hugmyndina um Venus. Myndverkið Handrit af Grýlu hugsa ég sem skoðun á skilaboðum úr tímaritum sem stýra og móta kvenímyndina bæði hvað varðar lífsstíl og útlit hennar. Ég geng út frá því að hluti af þeim skilaboðum og stýringu á neyslu og sjálfsmynd neytandans virki eins og Grýla á lesandann í birtingarmynd Venusar. Ég geng út frá því að neytandinn upplifi milda ofskynjun á eigin líkama eftir að hafa meðtekið skilaboð kvenímyndarinnar, þau skilaboð sem stýra og hvetja neytandann til að breyta og lagfæra líkama sinn. Það er hægt að túlka skilaboð sem ógnun og hótun í kvenímyndarauglýsingu um að þú verðir eins og eða sért eins og Grýla ef þú ferð ekki eftir fyrirmælum auglýsingarinnar. Handrit af Grýlu er samansafn skilaboða þar sem Venusarskilaboðin kalla fram einkenni Grýlu í formi tilvísana í menningu og náttúru sem mynd hennar hefur birst í. Ég tek mið af hugmyndum sem tengjast Venusi og Grýlu, en skáka neyslustýringunni, eins og Úlfhildur Dagsdóttir skilgreinir kvenímyndir, sem hina kynferðislega aktívu og aggressífu konu, hinnar yfirþyrmandi monstrous móður og femíninsta. Ég hugsa mér að þær frelsi sig frá Grýlu og Venusarhugmyndinni, nái að meðhöndla upplýsingar og breyta þeim þannig að þær verða sjálfstæðar frá Grýlu og Venusi. Þær eru samt sem áður flæktar í því táknkerfi sem við lifum í og óhjákvæmilega er notað sem hráefni í birtingu á Venus og Grýlu. Þær eru nýttar af neytandanum þrátt fyrir að þær sjálfar hafi sagt sig úr táknkerfi Venusar og Grýlu innan neysluheimsins. Hver er Grýla þessara kvenímynda og hver er þeirra Venus? Er til einhver birting á þeirra heimi? Er hægt að rekja þeirra táknheim til Venusar og Grýlu? |
||||||||||
|