Spessi PYLSA OG KÓK Are you the one that Ive been waiting for? Nick Cave Actio in distans, fjarverkun. Karldýr hreinlega dragast að kvendýrum, og öfugt, geta ekki látið hvort annað í friði en verða þó aldrei eitt. Spenna, já segulmögnuð spenna, eitthvað svoleiðis, það er fínt! Þetta vissi Newton, þetta vissi Nietzsche, og eftir að síðasti rómantíkerinn dó, þá vita þetta allir. Eða hvað. Við erum hreinlega fædd til að vera nákomin einhverju(m) öðru(m), þannig virkar vistkerfið; og við, mennirnir, berum ábyrgð á því – þangað til sólin syngur sitt síðasta. Fars: hakkað kjöt hrært saman við krydd. Til eru ótal tegundir pylsna, veltur á hráefninu hversu fínt kjötið er hakkað og hvaða krydd eru notuð o.s.frv. Vínarpylsan sem er soðin í u.þ.b. 10 mínútur, síðan sett í fínt hvítt brauð (stundum þvalt). Síðan er ýmislegt notað með: sinnep, remúlaði, tómatsósa og steiktur laukur eða hrár eru það helsta. Þó hafa heyrst sögur af notkun hinna ótrúlegustu efna með pylsum og sumar eru hreinlega ekki í frásögur færandi. Allir hafa nokkuð ákveðna hugmynd um það hvernig þeir vilja hafa pylsuna sína og beiðni um pylsu á ,,veitingastað jaðrar stundum við trúarlega tilbeiðslu. Eitthvað sem undirstrikar náið samband við eitthvað dularfullt og er um leið mögnun einstaklingsvitundar. Coca Cola, Coke, kók. 99% sykurvatn, karamelludökkbrúnt á litinn. Líklega er ekkert orð þekktara er Coke. Þökk sé morfínsjúklingnum Dr. John Stith Pemberton og tilraunum hans með coca-lauf frá Perú. Hann hugðist finna upp drykk og selja sem róandi mjöð og lyf, en í bænum hans í Atlanta var heldur betur þörf á því, móðursýkin yfir illsku brennivínsins var alla að æra. Hann ætlaði að finna upp hið sanna lyf og hinn fullkomna drykk í sama pakka. Árið 1886 taldi hann sig vera kominn með lausnina, það vantaði bara nafnið. Frank nokkur Robinson stakk upp á Coca Cola; síðan hefur sigurganga drykkjarins verið óstöðvandi. Cola er unnið úr hinni afrísku kóla-hnetu en hún er náskyld coca-plöntunni suður-amerísku sem hefur í árþúsundir verið tuggin m.a. við meltingartruflunum, til að lengja líf og sem ástarlyf. Fyrstu fimmtán árin sem Coke var framleitt var að finna í því kókaín í mjög litlum mæli. Coca Cola er drukkið um allan heim, það nær til allra, það hefur áhrif! Eftir að fundum þeirra bar saman á Íslandi hafa þau kók og pylsa átt í ástríðufullu sambandi, þetta veit hvert mannsbarn. Það hreinlega slitnar ekki slefið á milli þeirra. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þau eru svona nákomin hvort öðru? Nánast er óhugsandi að ímynda sér þau sitt í hvoru lagi, allavega ekki í sömu andrá, en þau verða aldrei eitt! Þau eru sönnun þess að allt er ekki eitt; sönnun þess að ekkert er eitt. Allt stendur í tengslum við eitthvað annað og segir okkur alltaf eitthvað um eitthvað annað. Svanur Kristbergsson |
||||||||||
|