Sólveig Þorbergsdóttir

"Myndlist er sannleikur og í sannleikanum liggur fegurðin." Sigurður Guðmundsson.

Fyrir mér er sannleikurinn að viðurkenna allar þær hliðar sem ég hef í mér. Ég leita að sambandi við aðrar manneskjur, snertingu. Ef ég opna fyrir minn sannleika þá gæti ég snert einhvern.

Ég viðurkenni ástina, hatrið, reiðina, sorgina, gleðina, æsinginn og löngunina. Allt er í mér og jafnvel margt í einu. Ég vil ekki bara brosið - finn ekki næga snertingu í því og í því er lygi - til þess að vera eðlileg og viðurkennd í samfélaginu.

Ég lita með puttunum, fótunum eða bara með tungunni vegna þess að ég vil ekki hafa of mikla stjórn. Ég vil koma sjálfri mér á óvart, finna snertinguna og upplifa verkið í gegnum líkamann.

Ég leita að því að vera opin. Þvinga sjálfan mig á brúnina á hengifluginu og vera samt opinn fyrir því sem skeður. Finna hræðsluna. Vera opin fyrir orku frá öðrum. Hún er líka minn sannleikur.

Ég vil frekar finna hættuna í vonleysinu, að ná aldrei sambandi eða snertingu, heldur en að vera dauð lifandi.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail