Serge Comte

Home Sweet Home

Eins og í allri almennilegri goðafræði þá hlýtur Philippe Dorain að hafa sprottið út úr læri einn góðan veðurdag árið 1993. En ef Mir átti sína Mirosku, hver er það sem hefur Philippe að sínu góða (eða vonda?) leiðarljósi? Það er Serge Comte, myndlistarmaður frá Grenoble í Frakklandi, sem skapar tvíhöfða verk með því að vera á mörgum stöðum samtímis. Afleiðingin er vellíðan en leiðindi eru versti óvinurinn.

En hversu ánægjuríkur sem þessi klofningur kann að virðast kemur hann ekki í veg fyrir árekstra. Þó að Serge dansi og syngi þá fellur þessi sýndarvera, sem er í senn ágeng og ómissandi, í skuggann af „Sound of happiness made in France“. Í einglyrnisaugnaráði vídeótökuvélarinnar – eina vitni þessara uppákoma – er afhjúpun þeirra eins konar hugarsvölun. Þar sýnir Serge Comte opinskátt hið alsaklausa andartaksbrjálæði sem flestir gerast eingöngu sekir um í einrúmi. Því hver vaggar sér ekki eða talar við veggi þegar hann veit að engin forvitin augnaráð hvíla á honum? Umvafinn yfirlætislausum þægindum íbúðar sinnar (sem hann yfirgefur sjaldan), festir Serge á filmu kjarnann í þessu einmanalega lífi sem hann deilir þó með öðrum á mótsagnakenndan hátt. „Safe at home“. Hvað segirðu? Þannig skilgreinir listamaðurinn þessa heilsusamlegu innilokun sem á að koma honum í Nirvana hinnar fullkomnu friðsældar.

Eyðimörkin aðskilur þó listamanninn frá reglubróðurnum því Comte tekur uppljómaða upplyftingu sjónvarpsskermsins fram yfir hrjúfan sand merkurinnar. Þessari lífsnauðsynlegu ljóstillífun hefur hann einnig kynnst sem farþegi í „Barbacar“ – sem minnir á Barbapapafjölskylduna og perfekt farartæki Jean-Michel og Vidyu, dúósins frá Grenoble – þar sem Comte lýsti upp hörundið undir ljósblossum skyndimyndatökuvélanna. Utan hópsins fer leit hans að „bakskautsþægindum“ (confort cathodique) fram á nákvæman og hefðbundinn hátt: Serge Comte kveikir á sjónvarpstækinu og setur uppáhaldsplötuna með Michael Franks á fóninn.

Hver er útkoman? Stuttmyndirnar sem teknar eru í hita hljóðsins eru einn fjórði drama og þrír fjórðu algleymi. Í Ayrton hermir hann eftir aksturslagi brasilíska ökumannsins með alls kyns hljóðum en í „I wanna be your favorite bee“ finnur Serge sér nýjan ham í býflugu: myndin er þannig tekin að sýndaræðvængjan flýgur inn í blómkrónurnar og safnar í sig blómsafanum. Með skírskotun til ofskynjana áttunda áratugarins veldur flug býflugunnar dálítilli ógleði en er um leið svo litríkt að það er eins og maður hafi gleypt heilan bauk af ofskynjunarlyfjum.

Úr vímu flugsins til manndráps, í Loup-Loup og Orange Sanguine – óhóflegir orðaleikir listamannsins leyna sér ekki – birtist Serge (nema það sé Philippe því blekkingin er alger) grímuklæddur og rödd hans er óþekkjanleg. Þannig væri maður líka af minna tilefni: persónan á skerminum játar að hafa framið morð og – af ást – lagt sér fórnarlambið til munns. En af hverju skyldi maður ráðast á aðra þegar minni lagaleg hætta felst í því að beina árásum á sjálfan sig? Í Tout Doux er Serge ber að ofan og rakar sig dansandi: í sjö mínútur nuggast kinnar listamannsins við hárbeitta egg rakvélarblaðsins án þess að hljóta skeinu. En það er ekki ætlun Serge Comte að tileinka sér sársaukafullt óhóf Body Art-listamanna áttunda áratugarins með sínum rjóðu kinnum. Comte sýnir því listformi engan áhuga. Þessar örsmáu tilraunir til að skapa hámarks vellíðan líkjast mun frekar innanhússtónlist Erik Satie heldur en gjörningum Vito Acconci því þær eru eins og hlýr arineldur, og eina markmið þeirra er að vekja ánægju.

Emmanuel Grandjean
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail