Ragnheiður Jónsdóttir
MÖTUN, ÓLYST, ÍTROÐSLA Matskeið volgt lýsi. Hnausþykkur, kekkjóttur, hálfkaldur, saltlítill og seigur hafragrautur. Eina skeið fyrir mömmu Eina skeið fyrir mömmu. Eina fyrir pabba. Eina fyrir litlu systur. Eina fyrir litla barnið í maganum á henni mömmu. Eina fyrir bra bra. Eina fyrir afa, sem er uppi hjá Guði og englunum. Eina fyrir ömmu. Eina fyrir Sigga frænda son hennar ömmu. Eina fyrir Olla frænda, sem hann afi átti með henni Gauju í austurbænum. Eina fyrir ho ho. Eina fyrir Kalla litla son hennar Dóru dóttur hennar Beggu systur hans afa. Eina fyrir me me. Eina fyrir Dúnu litlu dóttur hennar Dísu hálfsystur hennar Siggu, sem hann afi átti með henni Gunnu í vesturbænum. Láttu ekki svona barn, þetta er svo hollt. Eina skeið fyrir mjá mjá. Eina skeið fyrir Dúu litlu dóttur hennar Dæju hálfsystur hennar Siggu dóttur hennar Beggu systur hans afa. Eina fyrir bí bí. Eina fyrir Siffa frænda son hennar Lóu dóttur hennar Soffíu systur hans afa. Þú ætlar þó ekki að spúa þessu öllu aftur á diskinn? Elskan mín góða – ætlarðu aldrei að verða stór? |
||||||||||
|