|
|
Ólafur Árni Ólafsson
og Libia Perez de Siles de Castro
Uppskrift
Lófafyllir af hári
3 tár
300 grömm skítur
4 lítrar blóð
afklippur af 8 nöglum
nokkrar barnatennur
sletta af sæði
rafmagn
2 plötur af dökku suðusúkkulaði
örlítið munnvatn
prump úr kvenmanni á túr
1 lítri blóð
sviti innan af lærum tveggja karlmanna
2 teskeiðar salt
Með upphafinu kom innihaldið ...
Eftir að hafa skapað mannslíkamann og himininn og jörðina á 6 dögum skapaði Guð 7. daginn. Dag hvíldarinnar. Líklega gleymdi hann í hvíld 7. dagsins, að skapa 8. daginn. Vonandi hefði það þá orðið dagur leifanna. Leifa alls þess sem áður var skapað. Þökk sé Evu fyrir að borða eplið og gera okkur þar með þess meðvituð að það eru engir 7 dagar án þess að sá 8. fylgi ekki í kjölfarið. Alveg eins og enginn er líkami án lyktar, svita, hárs, piss, skíts, tíðablóðs (kvenlíkami), sæðis (karllíkami), hors, nagla, prumps, ropa, slefs og annarrar líkamlegrar útferðar og uppgufunar. Allt hluti af ferli líkamans til að lifa af og hreinsa sig af óæskilegum efnum. Allt þetta stöðuga útstreymi að innan sem ýmist endar í klósettinu, andrúmsloftinu eða á yfirborði hörunds okkar. Þetta útstreymi okkar leka líkama veldur okkur talsverðum vandræðum að því leytinu til að við vitum ekki hvert við eigum að setja allan þennan úrgang. Það sem okkur gremst hins vegar enn meir er að þetta eilífa streymi, allar þessar endalausu breytingar minna okkur á nærveru okkar eigin líkama, upphaf og endi okkar tilveru.
... og með tímanum breytist formið
Síðastliðið sumar urðum við vitni að litlum atburði á skyndibitastað í Þýskalandi. Þetta var nánar tiltekið á 10. Documenta-sýningunni í Kassel og skyndibitastaður þessi sérhæfði sig í alls kyns kartöfluréttum. Við höfðum einmitt eytt síðustu mörkunum okkar í þjónustu líkamans og sátum á veröndinni og gæddum okkur á steiktum kartöflum með sósu. Þá verður okkur litið á tvo menn sem sátu á næsta borði við okkur. Við blasti undarleg sjón. Það leit út fyrir að annar mannanna væri svo heltekinn af samræðum þeirra að hann hefði ekki lengur stjórn yfir eigin líkama. Þeir voru að öllum líkindum að ræða það hvort Documenta 10 væri góð sýning eða ekki. Þessi maður hafði klárað allar kartöflurnar af disknum sínum, en hann lét ekki þar við sitja, heldur var hann hálfnaður með að borða diskinn líka. Hann var einmitt í þann mund að taka nýjan bita þegar hann varð var við það að við vorum að góna á hann. Hann brosti til okkar og kinkaði vingjarnlega kolli og tók svo vænan bita af disknum og hugðist halda áfram spjalli við kunningja sinn. Gat það verið að honum væri það enn ekki ljóst að hann væri búinn með allar kartöflurnar og væri að borða diskinn eintóman?
Við gátum ekki þagað lengur, við urðum að komast til botns í þessu máli. Við spurðum hann því kurteislega hvort hann hefði tekið eftir því að það væru engar kartöflur eftir á disknum hans og hann væri að borða diskinn. Hann brosti aftur til okkar, fáfróðra útlendinganna og svaraði glaðlega: Hann er ætur. Minna rusl! Okkur féll allur ketill í eld við þessa yfirlýsingu mannsins. Það rann upp fyrir okkur að þessi maður væri á þessari stundu að gegna félagslegu hlutverki sem við höfðum ekki vitað fyrr að væri til. Hann var að sinna starfi hinnar mannlegu ruslatunnu! Diskur þessi var gerður úr efnum sem eru meltanleg. Þannig átu viðskiptavinirnir sitt eigið rusl í stað þess að fleygja þvi í tunnuna. Eftir að hafa smakkað okkar eigin disk komumst við að því að hann bragðaðist á engan hátt vel og minnti einna helst á oblátu. Það spaugilega við þetta allt saman er að þessi ábyrgi þjóðfélagsþegn fer á næsta vatnssalerni og skítur pappadisknum meltanlega. Það er nefnilega þar sem diskurinn verður að verulegu umhverfisvandamáli – sem mengandi skítur úti í sjó. |
|