|
|
Lucky People Center
Lucky People Center (LPC) er hópur sænskra og íslenskra listamanna sem fæst við hinar ólíkustu listgreinar. Innan hópsins eru kvikmyndagerðarmenn, myndlistarmenn og tónlistarmenn. Lucky People Center fæst jafnt við að halda tónleika, gera sjónvarpsþætti og búa til myndlistasýningar eða svokallaðar innsetningar. Tónlist Lucky People Center er rafeindatónlist eins og hún gerist hvað skemmtilegust í dag og hefur hópurinn notið mikilla vinsælda meðal ungra tónlistarunnenda um allan heim um talsvert skeið. Til þessa hafa komið út tvær breiðskífur undir nafni Lucky People og hafa þær báðar fengið afbragðsgóða dóma í tónlistartímaritum. LPC hafa frá árinu 1993 fengist við gerð myndbanda og þykja þau afar sérstæð. Þau eru gerð með þeim hætti að klippt eru saman brot úr fréttum og öðrum þáttum sem sýndir eru í sjónvarpi þannig að úr verður nokkurs konar collage eða klippimynd af því sem er að gerast í heiminum hverju sinni. Með því að taka til dæmis efni úr fréttatímum sjónvarps og klippa það saman á nýjan hátt og setja undir það tónlist öðlast áhorfandinn nýtt sjónarhorn á heimsviðburðina. Fjöldi sjónvarpsstöðva um alla Evrópu hefur sýnt myndbönd LPC með þessum sérstæðu klippimyndum.
Myndbandsverk LPC hafa einnig verið sýnd á listasöfnum um allan heim og nægir þar að nefna Pompidu safnið í París og Nýlistasafnið í Stokkhólmi.
Nú hefur LPC nýverið lokið við gerð kvikmyndar sem er að hálfu söngleikur og svo heimildarmynd. Myndin er kvikmynduð í 20 löndum og er tilgangur hennar að kynnast andlegu ástandi heimsbyggðarinnar í lok tuttugustu aldarinnar. Einnig er reynt að leita svara við því hver hugðarefni almmennings um allan heim eru við upphaf nýrrar aldar. Framleiðendur myndarinnar Lars Jönsson sem meðal annars framleiddi stórmyndina Breaking The Waves eftir Lars Von Trier og danska kvikmyndafyrirtækið Zentropa. Myndin er styrkt af sænska og danska kvikmyndasjóðnum, sænska sjónvarpinu, TV2 í Danmörku og EUROIMAGES. |