Katrín Sigurðardóttir

Stað/setning

Í verkum mínum vinn ég gjarnan með þá hefð sem lýsir landfræðilegri gerð, staðsetningu og hreyfingu. Kortagerð er oft viðfangsefni mitt og/eða vettvangur, vegakort, tópógrafísk kort og landslagsmódel. Sem stendur er ég að vinna með ljósmyndir af yfirborði líkama míns, sem ég umbreyti þannig að þær líkjast einna helst infrarauðum loftmyndum.

Fyrir mig – og ég held marga aðra – þjóna kort sjaldnast þeim tilgangi að vísa veginn í gegnum það land sem þau gera skil í bókstaflegri merkingu. Þó kortið lýsi landi, ákveðinni heimsmynd, er það aðeins kódi sem ímyndun eða raunveruleiki verða að fylla. Kortið þjónar þannig ekki endilega sínum upprunalega og rökrétta tilgangi heldur getur orðið að vegakerfi í gegnum ímyndunarafl áhorfandans. Kortið verður þannig sjónblekking – rökræn frekar en formræn – nokkurskonar ofurkerfisskipað málverk, þar sem ímynduð rökfræði réttlætir að ákveðnum hugmyndum sé dreift skipulega niður á breiddar- og lengdargráður og tengsl mynduð þeirra á milli.

Er þessi skoðun á kortinu ótengdu sinni upphaflegu fyrirmynd, kortinu sem mynd af afstrakt eða óhlutbundnu landi, terra incognita, ef til vill útópísk þrá? Er hún saklaus flóttatilraun úr „þessu landi“ inní „annað“ þar sem umhverfið mótar ekki aðkomumanninn, heldur er mótað af honum? Er hún uppdráttur útlagalandsins, lands þess hluta sjálfsins sem ekki á heima innan landfræðilegra og menningarlegra marka þjóðríkisins?

Síðustu áratugum hefur mjög verið grafið undan hinni gamalgrónu hugmynd um heimalandið og hugmyndinni um rými sem afmörkun (enclosure) með enduruppröðun á landakorti kapítalismans, heimslægu rými (global space) sem arftaka staðbundins rýmis, og síðast enn ekki síst með tilkomu nýrrar upplýsingatækni. Staður sjálfsins, „heima“, hefur gengist undir uppskurð í afbyggingu landafræðinnar, sögunnar, málfræðinnar, sjálfsmyndarinnar og þjóðerniskenndarinnar. „Heima“ er ekki lengur bara einn staður. „Heima“ eru margar staðsetningar og engin þeirra er nauðsynlega statískur. „Home is where the heart is – on the bus.“ Hefðbundið landakort vottar ekki um þessa óvissu og upprót, heldur um staðfræðilega fullvissu. Það er því grátbroslega að leita að „stað“ í óhlutlægri merkingu á kortinu – í táknum hefðbundinnar, hlutlægrar staðfræði, einmitt þar sem þann stað er ekki að finna.

Í samtíma þar sem flest viðtekin gildi og heildir eru „veikt“ með kerfisbundinni sundurgreiningu, hefur krafan til okkar eigin líkama þvert á móti orðið sterkari og hin líkamlega lögsaga einstaklingsins orðið algildari en áður. Þó það komi til álita hversu langt skilgreiningin á eigin líkama nái, á tímum plastískrar og stafrænnar líkamshönnunar, þá má finna öruggan samnefnara á milli líkamans og heimalandins. Boðorð femínismans, að byrja á eigin líkama til að finna sitt eiginlega valdsvið og sjónarhorn, þaðan sem hægt sé að horfa, tala, skapa, liggur hér til grundvallar – fyrir öll kyn. Hið essentíalíska heimaland getur þannig í besta falli verið rýmisleg líking fyrir eigin líkama.

Um tíma velktist það fyrir mér hvort ég skyldi nota sjálfa mig sem módel fyrir yfirstandandi kortagerð mína eða líkama annarrar konu. Hugmyndin um mig að ljósmynda annan líkama varð fljótlega snúin og óþægileg, bæði fyrir mig og módelið, ekki bara á praktískum forsendum heldur líka vegna þess að með því væri ég að ala á tvískiptu valdakerfi – sú sem horfir/sú sem horft er á – þar sem fólki er jafnan sett í hlutverk, úthlutað valdi eftir kyni, litarhætti, kynhneigð og/eða stétt, þar sem hinn evrópski gagnkynhneigði, stéttvísi karlmaður hefur jafnan skipað hlutverk þess sem horfir, túlkar, dregur upp, m.ö.o. nýtur valds áhorfsins. Þetta vekur stærri spurningar um vald listakonunnar eða listamannsins sem áhorfanda, túlkanda, uppdráttarfræðings á veruleikanum, sem að mörgu leyti er ekki svo frábrugðið valdi kortagerðarmannsins. Kortagerð, rétt eins og öll önnur myndræn framleiðsla langt fram á þessa öld, hefur aðeins endurspeglað og vottað um augnatillit (gaze) hins evrósentríska karlaveldis. Sjónarhorn þess hefur verið í slíku algleymi að erfitt hefur verið að greina hinn sterka maskúlíníska bías í því hvernig horft hefur verið á heiminn, þar með talinn kvenlíkamann og landið. Maskúlínísk gildi hafa þannig gengið sem „hlutlaus, kynlaus, stéttlaus, almenn, góð“ gildi. (Hversu oft heyrist ekki: „Hvaða máli skiptir það hvort þetta verk sé gert af karli eða konu, lesbíu eða ekki lesbíu? Það eina sem skiptir máli er að það sé góð myndlist.“ Hvað er meint með góð myndlist?)

Kort hafa þannig verið dregin upp, málverk hafa verið máluð til að lýsa eignardeild karlmannsins og „til að vísa honum veginn“. Kortagerðarmaðurinn stúderar anatómíu landsins á meðan nektarmálarinn stúderar anatómíu konunnar og setur hana gjarnan bera einhvert útí haga eða inní skóg. Þetta bergmálar síðan enn voldugri og grundvallarlegri tvíhyggju, þ.e. menning á móti náttúru, þar sem náttúran er kvengerð og öfugt með því að líkamsferlum konunnar og náttúrunnar er líkt saman. Hlutverk karlmannsins hefur þannig verið að eiga og ráðstafa konunni í
náttúrunni og konunni í mannverunni. Eignarétturinn yfir þessum líkama hefur kallað á ýmis ferli til að hægt sé að stjórna honum sem best, landi er skipt og það er merkt, ríki verða til í heilögu hjónabandi landsins við ákveðna pólitík.

Ég held að það sé auðveldara fyrir öll kyn að tileinka sé maskúlíníska heimsmynd, vegna þess að hún er svo inngróin og sjálfsögð í okkar menningu að hún sést varla og er sjaldan gagnrýnd. Þó að ég sé kona þá tek ég mér maskúlíníska stöðu með því að varpa aðferðafræði kortagerðarinnar uppá kvenlíkamann. Í þessu samhengi (þ.e. kona að skoða og kortleggja sjálfa sig) snýst þessi framkvæmd uppí einfalda marxísk-femíníska æfingu á eignarétti mínum á eigin líkama. Það að vera í senn skoðandi og það sem skoðað er þjónar þó ekki eingöngu tilgangi sjálfsskilgreiningar og femínískrar sjálfseflingar, heldur er ég fyrst og fremst að leika mér með og þannig véfengja hefðir sem endurspegla grunnskyggna heimsmynd, þar sem öllu er skipt uppí andstæður: maður/kona, menning/náttúra, hugur/líkami, sá sem beitir valdi/sú sem beitt er valdi, sá sem horfir/sú sem horft er á, listamaður/módel, sjálf/annað.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail