Jóhann Ludwig Torfason

Að æsa sig upp út af myndlist

„Málarinn F. hefur nýlega haldið sýningu hér í Reykjavík. Ég fór og sá mér til hrellingar og viðbjóðs. Ekki fyrir það, að nú væri hér á ferð sérstakur vankunnáttumaður. Þvert á móti má með allmiklum sanni segja að myndirnar á þessari sýningu væru unnar (teiknaðar), að minnsta kosti margar þeirra. En þær voru unnar af óhugnanlegri hugkvæmni innan þeirrar þröngu tilveru og sjúka sálarástands, sem efnisval myndanna greinir frá. Nokkrar þessara mynda gefa tilefni til ákafrar hneykslunar, – eru ekki annað en viðbjóðslegar klámmyndir, eins og t.d. nr. 1 og 5. Myndir eftir þessum tveimur „málverkum“ eru prentaðar á sýningarskrána, er látin er fylgja aðgöngumiðanum að sýningunni. Sýning þeirra og dreifing sýningarskrárinnar heyra tvímælalaust undir ákvæði hegningarlaganna.

Manni gæti helst dottið í hug að efnisval myndanna hefði farið fram í víti, frönskum hóruhúsum, fangabúðum nasista í Belsen eða Auschwitz, eða álíka vistarverum, því að myndir þessar eru samtíningur af allavega skinhoruðum og vansköpuðum mannskrípum í ýmiss konar fjölbreytilegum klámstellingum.
Í mynd nr. 1 sem nefnd hefur verið „Fæðing án þjáningar“ getur t.d. að líta innan í nokkrar kvenófreskjur með mismunandi stór börn innan í sér, mannskrípi, kvenleg og karlleg, ýmist krjúpandi, sitjandi, liggjandi og (á nr. 5) heldur nakið mannskrípi að sér, í fanginu, öfugum kvenstriplingi, þannig að afturendi hennar,- lær, rass og fætur snúa upp, og sér í andlitsófreskju mannskrípisins aftur á milli læra hennar.

Alls konar ómyndum úr beinarusli og öðru dóti er svo raðað upp með þessu dóti til hrellingar og athlægis. Sem sagt, þetta er viðbjóðslega svívirðilegt. Það er næstum óhugsandi, að nokkur heilvita maður geti fengið sig til að setja saman annan eins viðbjóð, og kenna hann við listaverk.“

Langhundur eftir Freymóð Jóhannesson sem birtist í Alþýðublaðinu 1960, en þar lýsir hann viðbrögðum sínum við málverkum eftir Erró (þá Ferró) sem til sýnis voru í Listamannaskálanum í maí sama ár. Freymóður kærði tvö verkanna til dómsmálaráðuneytisins.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail