Inga Svala Þórsdóttir

Óður

Ég ólst upp í sveit. Ég var átta ára þegar ég fyrst fór inn í kind til að bjarga lambi, eins og það var kallað. Hendin mín smaug inn í kindina, stundum upp á handlegg, jafnvel upp að öxl. Tilfinningin var þétt, heit, alger, endalaus. Mér fannst ég sökkva í himingeiminn, á þessum tíma hafði ég ekki heyrt um svarthol. Seinna þegar ég las um þau fannst mér ég þekkja þau náið.

Ég var orðin þrettán ára, í sauðburði austur á landi. Ég átti að sjá um að sópa garðana þennan morgun. Fann ókunnan verk, eitthvert óþekkt máttleysi gagntók mig alla, fætur mínir brauð og garðinn virtist endalaus. Í hádeginu kom ég engu niður. Á klóinu uppgötvaði ég blóð í buxunum í fyrsta sinn. Þetta var ekki stór blettur en hann var óvefengjanleg staðreynd rétt eins og máttleysið um morguninn. Hádegishléið var stutt, eftir það fóru allir saman á rússajeppa og einum traktor út á hús. Í húsunum jarmaði illa á sig komin kind. Hún var búin að missa vatnið en hafði einhverra hluta vegna ekki lag á að beita sér. Kannski var grindin of þröng, kannski brást henni kynslóðaminnið sem hefði einmitt í þessari stöðu átt að nýtast henni. Ég vissi að kindin var tveggja vetra, líka að hún hafði átt gimbur árið áður.

Ég settist á hnén í stíunni hjá henni. Hún andaði ört og aumkvaði sér mikið. Ég talaði rólega til hennar á meðan ég fór hægt og varlega inn í hana. Við urðum eitt. Ég þreifaði fyrir mér, fann fyrir tveimur lömbum, þau voru flækt illa saman. Fann hjartslátt annars lambsins, þurfti að skilja þau að. Draga þau svo út eitt af öðru. Kindin blés mikið og bar sig illa. Blóðið hennar bleytti peysuna mína í handarkrikanum. Okkur blæddi báðum. Mér fannst ég vera komin á bólakaf inn í sjálfa mig. Ég vera hún og verða að bera þessi lömb. Loks tókst mér að greina fætur lambanna að, ná taki á framfótum annars og draga það út. Fyrst kom gimbur, svo hrútur. Lömbin lifðu bæði. Kindin karaði þau strax og ákaft, hún virtist ekki í neinum vafa um að lömbin væru hennar. Ég var sú sem ekki var viss, alveg uppgefin, mér leið eins og þetta hefði verið minn fyrsti burður.

Síðar uppgötvaði ég önnur göt. Fyrst fann ég götin á mínum eigin líkama, síðan í sameiningu göt á líkama hans. Til leitar þurfum við næði. Við kíkjum. Snertum, potum og komum við. Förum varlega inn í, utan um. Töpum áttum, finnumst annars staðar. Komum. Þegar hann fær fullnægingu utan um fingurna mína, grípur hann þétt utan um þá aftur og aftur, ég loka augunum, og finnst við vera tvær konur. Stundum er hann eins og ég hef heyrt karlmenn lýsa konum, feiminn og tregur við að opna klofið alveg. Og hann klemmir eins og stelpa. Ég skil feimni hans vel, af því að ég er kona og þekki umstangið sem þurfti til þess að skoða sköpin mín. Þau eru nefnilega ekki í sjónlínu frá augunum. Þegar hann uppgötvaði gatið sitt með mér, sagði hann: „Vá, mér finnst ég verða þú.“ Þá ákvað ég að mála þessa mynd og kalla hana óð. Karlmaður fyrir framan mig með gat til að leika við, með gat eins og mitt. Hann er að vísu bara með eitt gat en ég með tvö. Bæði erum við með fleiri göt í viðbót. Þrjú göt eru ærinn skammtur, samt hefur mig dreymt um að eignast fleiri göt og glænýja krika. Ég veit að ég gæti látið fjölgað þeim ef ég vildi standa í því, annað eins er nú hannað í lok þessarar aldar. Ákveð að láta mér í bili nægja þau göt sem mér voru gefin í upphafi. Teikna mynd af sjálfri mér með fleiri göt og nýja krika. (Myndir eru einmitt góðar til svona verka.) Við gerð myndar gæti einhver talið málara hafa viðfangsefni sitt meira í hendi sér en hann hugsanlega hefði tök á í raunveruleikanum. Mér finnst það stundum sjálfri.

Í þessa mynd nota ég fyrirmyndir sem ég þekki, ekki einn karlmann heldur nokkra. Mála eina mynd fyrir þá alla. Ég gæti auðvitað verið nákvæmari, sukkað svolítið og málað fleiri en eina mynd. En ég ákveð að þar sem ég mála mynd af karlmanni sem slíkum, geti ég komið þeim öllum á eina mynd. Ég ræð á þessari mynd. Ég get látið honum vera heitt eða kalt. Hann vera stóran eða minni, loðinn eða snoðinn. Ég get komið honum fyrir hvar sem er, til dæmis á lyngi fyrir austan í ágúst. Ég get sett hann á skeifulaga skrifborð á hjólum. Sett hann upp á vask í lest sem fer samkvæmt áætlun um meginlandið. Ég get fleygt honum upp í hótelrúm hvar sem er í heiminum. Mér er jafnvel mögulegt að flakka meir um í tíma og sett hann upp í rúm heima í sveitinni í gamla daga. Þar fékk ég fullnægingu fyrst, hún var skýjuð, bleik, best.

Kona þarf spegil til að skoða sköpin sín. Einhver annar getur tekið að sér hlutverk spegils til dæmis með því að taka ljósmynd, skrifa texta eða mála málverk. Karlmaður kemst varla hjá því að sjá stóran hluta kynfæra sinna, því hann handfjatlar þau oft á dag. Til að skoða rassgatið sitt þarf karlmaður hins vegar spegil rétt eins og ég. Gustave Courbet tók að sér hlutverk spegils árið 1866 og málaði mynd af konu. Hann kallaði myndina „L’Origine du Monde“. Rúm öld er liðin síðan Courbet lauk við þessa mynd, hér langar mig að þakka honum verkið.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail