Orlan

Hin holdlega list Orlans

Andrew McNiven og Stephane Napoli
Þýðing Bárður R. Jónsson

Skilgreining
Holdleg list er sjálfsportrettið í klassískum skilningi en raungert með möguleikum tækninnar. Hún vafrar á milli afmyndunar og endurmyndunar. Áletranir hennar í hold eru afurðir tímanna sem við lifum. Líkaminn er tilsniðinn tilbúningur (ready made), ekki lengur í hlutverki hugsjónarinnar sem hann eitt sinn táknaði; líkaminn er ekki lengur sá hugsjónalegi tilbúningur sem dugði til áletrunar.

Sérkenni
Eins og holdleg list er aðgreind frá líkamslist felur hún ekki í sér að sársaukinn frelsi eða sé uppspretta skírslar. Holdleg list skeytir lítt um niðurstöðurnar af mótunarskurðlækningum heldur er skurðarferlið sjálft mun áhugaverðara, uppákoma og framsetning tilsniðins líkamans sem orðinn er vettvangur opinberrar umræðu.

Guðleysi
Holdleg list tekur ekkert í arf frá hinni kristnu hefð, þvert á móti er hún í andófi gegn henni. Holdleg list dregur fram afneitun kristninnar á holdlegum nautnum og flettir ofan af veikleikum hennar andspænis vísindalegum uppgötvunum. Holdleg list hafnar þjáningahefðinni og píslarvættinu, hún kemur í staðinn frekar en að fjarlægja, eflir frekar en að smækka. Holdleg list er ekki sjálfsafmyndun. Holdleg list umbreytir líkamanum í tungumál; hefur endaskipti á biblíuhugmyndinni um að orð sé hold; holdið verður að orði. Aðeins rödd Orlans helst óbreytt. Listamaðurinn vinnur að framsetningu. Holdleg list telur viðurkenninguna á þjáningu barnsfæðingarinnar bæði tímaskekkju og fáránlega. Eins og Artaud, hafnar hún náð Guðs. Þess vegna skulum við héðan í frá njóta mænudeyfinga, staðdeyfinga og ómældra verkjalyfja: Vive la morphine! (Lengi lifi morfínið!) A bas le douleur! (Burt með sársaukann!)

Skyn
Ég get horft á líkama minn skorinn upp án þjáningar. Ég get litið í iður mín inn, alveg nýjar sýnir. Ég get litið hjarta ástar minnar, dýrleg hönnun þess kemur táknheiminum ekkert við. Elskan, milta þitt hugnast mér. Lifur þín er æði. Brisið geggjað og boginn í lærlegg yðvarr kemur mér til.

Frelsi
Holdleg list staðfestir eintaklingsbundið sjálfstæði listamannsins. Í þeim skilningi andæfir hún gegn forskriftum og því fyrirframgefna. Þetta er ástæðan fyrir því að hún hefur dregið að sér athygli samfélags og fjölmiðla (þar sem hún rótar upp í viðteknum hugmyndum og skandaliserar); og nær jafnvel inn í skúmaskot laganna (nafnbreyting Orlans).

Útskýring
Holdleg list hefur ekkert á móti fagurskurðaðgerðum heldur viðteknum viðmiðum, einkum í tengslum við kvenlíkamann en einnig líkama karlmannsins. Holdleg list verður að vera femínísk, það er nauðsynlegt. Holdleg list lætur sig ekki aðeins varða fagurskurðlækningar heldur einnig aðra þróun innan læknis- og líffræðinnar. Hún dregur í efa og varpar fram spurningum um stöðu líkamans og vekur upp siðferðilegar spurningar.

Stíll
Holdleg list hefur í hávegum paródíuna, hið baróka, gróteskuna og öfgarnar. Holdleg list rís gegn því viðtekna sem setur mannslíkamanum skorður og afurðir holdlegrar listar ráðast gegn því formbundna og aðhæfða.

listamenn
gagnrýni
gallerí
miðstöð
stofa
enska
e-mail