Orlan
Líkami Orlans
og margmiðlun

Eftir Isabelle Rieusset-Lemarié
Þýtt af Auði Ólafsdóttur

Tengsl verka Orlan við verk á sviði margmiðlunar geta virst mótsagnakennd. Aðdáun á margmiðlunarlist er oft blandin ótta við að hin tæknilega fullkomnun útiloki hið líkamlega úr fagurfræðilegri reynslu manna. Þótt Orlan kjósi að líta á verk sín sem verk margmiðlunarlistamanns, þá er líkami hennar alltaf í kjarna sköpunarinnar. Þannig má hugsa sér líkama hennar sem athvarf fyrir fagurfræði margmiðlunarlista, rétt eins og líkaminn einn og sér væri lifandi sönnun þess að hægt sé að losna undan martröð þeirrar afholdgunar sem ógnar listsköpun eftir að hún fór inn á svið nútímatækni og tók að nýta sér myndbönd og ýmsa möguleika margrása samskiptakerfa.
Þegar nafn Orlan er nefnt dettur mörgum í hug ljósmynd sem skreytti forsíðu rits helguðu fjarskiptaráðstefnu á sviði lista, milli Parísar og Toronto í Kanada, dagana 4. og 5. nóvember 1988. Ljósmyndin sýndi Orlan sem kvendýrling með nakið brjóst í barokkumgjörð. Titill myndarinnar var: „Heilög Orlan, verndardýrlingur boðskiptalista.“ Markmið Orlans með sviðsetningu eigin líkama var þó ekki að „lána líkama sinn“ í þágu félagslegrar ímyndar, heldur myndgerir hún líkama sinn. Það má segja að í þeirri athöfn sé fólginn kjarninn í því sem Orlan hefur verið að fást við alla tíð síðan í gegnum ótal fegrunarskurðaðgerðir. Líkami hennar er verkfæri sem hún umbreytir og lagar samkvæmt kröfum listrænnar sköpunar. Jafnvel þótt sú stefna hennar að nota fegrunarskurðaðgerðir í list sinni hafi hneykslað marga aðdáendur hennar, hefur það einungis gert Orlan enn einbeittari og róttækari í hugmyndum sínum.
Markmið Orlans er ekki hvað síst að fletta ofan af þeirri firringu sem felst í skefjalausum fegurðarkröfum til konunnar sem ná hámarki í „sjálfsögðum“ fegrunarskurðaðgerðum samtímans. Orlan skoðar áhrif slíkra aðgerða í listrænum tilgangi. Gagnrýnendur hennar gætu sagt að með því að beita þeim aðferðum sem hún beitir, sé hún í raun og veru að framlengja listhefðina sem gengur út á það að gera út á ákveðna ímynd kvenlíkamans. Orlan gengur hins vegar mun lengra í afstöðu sinni, því það er ekki bara ímynd kvenlíkamans, heldur líkaminn sjálfur sem er „lifandi“ efniviður hennar.
Samkvæmt hefðum er listamaðurinn karlkyns og stöðugt undir áhrifum pygmalion-duldarinnar.1 Undir því yfirskini að „móta“ kvenlíkamann eftir eigin höfði til að gera hann að sköpunarverki sínu, er hann ekki einungis að svipta konuna eigin ímynd, heldur einnig eigin lífi. Hann læst vera að gæða konuna sál sem hún ella væri sneytt og gæti eingöngu öðlast sem efniviður í höndum hálfguðsins, listamannsins. Orlan hefur hins vegar ákveðið að vera eigin „pygmalion“ og á því er grundvallarmunur.
Það er lýsandi í því sambandi að listakonan telur sig ekki vera að „sæta“ lýtaaðgerðum í þágu listarinnar, heldur leggur hún ofuráherslu á vilja listamannsins sem ræður ávallt ferðinni í verkum hennar, jafnvel þeim hátæknilegustu. Þjáningin (það að vera þolandi) sé hins vegar eitt lævíslegasta form firringar sem til er. Orlan líður enga löghyggju, hvort sem er félagslega, líffræðilega eða tæknilega í listsköpun. Þar liggur líka galdurinn að baki því mótsagnakennda jafnvægi sem er að finna í verkum Orlans milli líkama og tækni.
Í því sambandi er athyglisvert að skoða atvik sem átti sér stað við framkvæmd gjörnings sem hún nefndi „Kossinn víxlverkandi“ og byggðist á tæknilegri snertingu tveggja líkama úr fjarlægð. Ekki var um að ræða tilfinningu fyrir snertingu sem búin var til með aðstoð rafrænna hanska eða klæðnaðar tveggja persóna, heldur einfaldlega sviðsetningu sýndarveruleika með aðstoð myndbandatækni, þar sem tvö andlit, annað í París en hitt í Toronto runnu saman í eitt með aðstoð tungunnar. Ekki tókst hins vegar að skapa táknrænan samruna milli líkama og tækni í það skiptið, því fjarsambandið í gegnum gervihnött rofnaði í miðjum gjörningi.
Viðbrögð Orlans við „tæknibilun sem óháð var vilja hennar“ voru lýsandi fyrir afstöðu hennar og hugmyndaheim. Úr því að tæknin brást og kom í veg fyrir holdlausa kossa, ákvað Orlan að framkvæma verkið með því að láta allt aðstoðarfólk sitt á staðnum kyssast hvert sem betur gat. Á þann hátt sýndi hún fram á að alltaf var hægt að treysta á líkamann, sem öfugt við tæknina brást aldrei, því líkaminn laut vilja hennar.
Að vissu leyti má segja að víxlverkandi koss fjarráðstefnunnar hafi verið undanfari ýmissa tilrauna með hreyfiskynmöguleika sýndarveruleikans, svo sem að „skynja“ handaband með hjálp rafrænna hanska, njóta „stýrikossa“ og stunda ýmsa hlutverkaleiki þar sem hægt var að flakka á milli persónuleika. Allt á þetta sér samsvörun í verkum Orlans sem markvisst hefur leitað leiða til að losna undan klafa viðtekinna og staðlaðra ímynda og óbreytanlegrar persónugerðar með því að nota eigin líkama sem hún umbreytir og gefur hin furðanlegustu form – svo sem eins og dularfulla hnúða – sem virðast fremur eiga skylt við „sýndarmenningu“ en þekkta fegurðarstaðla. Sú samsvörun er þó aðeins blekking.
Hugmyndir Orlans snúast þegar á heildina er litið ekki um sýndarlíkamann, jafnvel þótt hún geti komið inn á það svið líka. Aðferð hennar er enn róttækari, því hún teflir fram hinum raunverulega líkama á sambærilegan hátt og menn leika sér með sýndarlíkama. Með því tekst henni að sneyða hjá fagurfræðilegum klisjum hefðbundinnar hlutverkaskipan.
Á tímum líftækni væri í raun hægt að ganga mun lengra, þar sem umbreytingar á líkamanum eru ekki lengur draumsýn heldur veruleiki. Það er hins vegar grundvallarmunur á umbreytingu með tölvutækni og líffræðilegri umbreytingu. Orlan er ekki hlynnt líffræðilegum umbreytingum (t.a.m. klónunum), en hún þolir heldur ekki að eigin líkami sé óumbreytanlegur, að hann sé stöðluð mynd sem hægt er að ganga að hvenær sem er, líkt og portrettin af hinum eftirlýstu í spjaldskrám lögreglunnar. Það er grundvallaratriði í listsköpun Orlans að hún vinnur ekki með aðra líkama en sinn eigin. Hún umbreytir ekki líkömum annarra og leyfir ekki heldur að aðrir vinni með hennar líkama. „Ég hef gefið líkama minn listinni,“ segir Orlan.
Orlan lánar ekki líkama sinn, hún gefur hann. Hugmyndafræði hennar er andstæð allri nytjahyggju, miklu fremur í ætt við hinn upphaflega helga tilgang listarinnar þegar listir voru óháðar og lausar undan þeirri samfélagslegu kröfu að vera gagnlegar. Að því leytinu eru verk Orlans í samræmi við hugmyndir Georges Bataille um sanna list. Æðri list, samkvæmt Bataille, var samskiptalist sem byggðist á því að einstaklingurinn fórnaði tálsýninni um eigin lokuðu, persónulegu ímynd til þess að opna sig fyrir öðrum og gerast þannig miðill kennda sem voru honum sjálfum yfirsterkari.
Orlan teflir ekki einungis fram eigin ímynd, heldur hikar hún ekki við að leggja til líkama sinn, opna hann fyrir umbreytingarferli sem gerir hann að „æðri“ líkama og list hennar þar með að hinu æðsta listformi, samskiptalist.
Hvort sem hún notar eigin líkama eða önnur meðöl í sköpunarferli sínu, þá segist Orlan „aldrei hafa unnið nokkurt verk (teikningu, ljósmynd, skúlptúr, myndband, gjörning) án þess að hugsa það sem líkama í leit að öðrum líkama“. Öðru vísi fengi verkið ekki merkingu.
Margmiðlunarlíkaminn er í eðli sínu æðri líkami því hann er líkami sem tengist öðrum líkama. Þar er því um allt annað að ræða en það að „lána“ líkama sinn til að skapa ímynd heilags verndardýrlings samskiptalista. Það er hvorki um það að ræða að nota líkamann sem efnivið í listaverk né heldur að hefja samskiptalistir upp á stall með aðstoð upphafinnar líkamsmyndar. Það er um það að ræða að holdgera listina, það er að segja hin æðri samskipti manna.

listamenn
gagnrýni
gallerí
miðstöð
stofa
enska
e-mail