Hlín Gylfadóttir

ÚTI Á NÆRBUXUNUM

Einkennilegt að standa hérna loksins, eftir allan þann tíma sem ég vissi af þessari stund og öll þau skipti sem ég hef farið yfir í huganum hvernig þetta ætti að fara fram.

Eiginlega byrjar þessi saga á endinum, þegar ég lá í rúminu í faðmi mannsins míns og bylti mér. Þetta var allt saman eins og venjulega, hann sofandi og ég að líða eftirköst kvöldkaffisins. Ég ætlaði aldrei að geta sofnað og var orðin langþreytt á þessu veseni. Í einni byltunni gaf líkami minn undan enda orðin lúinn eftir 82 ára notkun. Annar handleggurinn rifnaði af. Þetta var algjörlega sársaukalaust, en kom mér svolítið á óvart. Ég veitti því athygli að húð mín var orðin eins og gamalt leður og holdið morkið og dökkt. Kjötið var einkennilega gróft og líktist helst hrossakjöti. Þannig tók líkami minn að rifna og brotna niður við minnstu hreyfingu. Brjóstholið trosnaði í sundur og beinin molnuðu og urðu að dufti. Ég (eða það sem eftir var af mér) sneri mér við og horfði á manninn minn sofa mér við hlið sallarólegan. Svo stóð ég upp og skildi líkamann eftir í rúminu. Ég stóð þarna á gólfinu án líkamans og leið svolítið eins og að vera úti á nærfötunum.

Ég hafði svosem ekkert að óttast því lífi mínu var ekki lokið, langt því frá. Foreldrar mínir voru alltaf fyrirhyggjusamir og lögðu sig í líma við að tryggja framtíð mína sem allra best. Mér var til dæmis gefin sparisjóðsbók í fæðingargjöf og send í myndatöku fyrir tveggja ára afmælið. Fjölskylda mín fylgdi öllum almennum reglum í þjóðfélaginu og þess vegna létu mamma og pabbi klóna mig um tveggja ára aldur. Líkaminn hafði verið geymdur í kæli til vara og ég hef alla tíð vitað af honum án þess þó að hugsa of mikið út í tilgang hans né heldur hvernig það yrði að taka hann loksins í notkun.

En nú þegar á hólminn er komið veldur það mér þó nokkrum áhyggjum að klónið mitt er líkami barns. Ég, sem hef nú reynslu áttræðrar konu, verð að fara inn í hlutverk smábarns og lifa lífinu sem slíkt. Það er óþægileg tilhugsun að fara í gegnum æskuna aftur þegar aðaláhugamálin eru bóklestur og ferðalög. Ég býst við að ég eigi eftir að skera mig svolítið úr hópnum á dagheimilinu.

Á leið minni til kælisins hitti ég gamla skólasystur mína sem virtist eiga í einhverjum krísum. Hún hefur reyndar alltaf verið sú manngerð sem býr til vandamálin ef þau eru ekki til. Hún dregur alla hluti í efa og endalausar vangaveltur og spurningar hennar um lífið hafa oftast verið mér frekar framandi. Foreldrar hennar hugsuðu málið greinilega aðeins dýpra en mínir því hún var ekki klónuð fyrr en um tvítugt. Hún þarf því aldrei að ganga í gegnum leikskólalífið á ný eins og ég. En verandi eins meðvituð og hún er, gat hún ekki sætt sig við þetta. Eftir talsvert hugarangur komst hún að því að henni fyndist siðferðilega rangt að hafa aukalíkama sem grípa mætti til ef eitthvað bjátar á. Hún sá því til þess að klónið hennar var tekið úr kælinum og því eytt.

Þetta segir hún mér nú þegar ég á engan líkama lengur. Fyrir vikið stend ég hér án líkama og hef um það tvennt að velja; að fara inn í líkama tveggja ára barns og gera þannig það sem vinkonu minni finnst siðferðilega rangt eða striplast á nærfötunum einum fata að eilífu.

listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail