Hilmar Bjarnason

Það var engin furða þótt hann yrði leiður og miður sín þegar hann var rekinn til að kasta öllu saman. Öllu því sem heilagt er og fagurt. Enda var alveg spurning hvort hann hefði nógu greiðan aðgang að kvenfólki. Og dúfurnar. Hann hugsaði virkilega vel um þær. Passaði að eggin væru alltaf hrein. Þvoði þau upp úr hreinol tvisvar til þrisvar á dag. Ég gat aldrei fundið skítugan blett á þeim. Sama hvað ég leitaði. Aldrei. Lék á píanóið fyrir dúfur og egg. Tvisvar til þrisvar á dag sagði hann. Alltaf tvisvar á dag. Á hverjum degi, alltaf tvisvar til þrisvar. Stundum oftar. Þess vegna leiddist honum auðvitað að þurfa að kasta öllu saman. Eftir alla þessa vinnu og umhyggju. Dúfur eru ekki eins og sálarlausir bílar og ökutæki. Eftir svona mikla vinnu og umhyggju. Ég veit ekkert hvort þetta stóð nokkuð í sambandi við blessað kvenfólkið, ég er ekkert viss um það. Auðvitað á það sök á mörgu, ég segi það ekki. Blessað kvenfólkið; þó það ætli sér ugglust ekkert illt og misjafnt. En það er bara svona, hann fór í dúfurnar maðurinn. Á besta aldri vænn drengur, fór bara beint í dúfurnar.

Hann hafði gert vel við dúfurnar. Búið þeim gott heimili þarna í eldhúsinu. Þær þurftu ekki einu sinni að stinga nefinu út fyrir hússins dyr. Aldrei að fara út í rigninguna og kuldann og myrkrið. Hvað gátu þær haft það betra? Þær höfðu allt. Hvaða erindi áttu þær svosem út? Þurftu ekkert að vera að þvælast þetta í slæmum félagsskap þar sem allir eru alltaf að æsa sig. Það er ekkert vert að vera neitt að æsa sig. Ekkert hundaskít að æsa sig alltaf. Alltaf hreint æsa sig. Lang huggulegast bara uppi á skápunum hjá honum, góðum dreng í eldhúsinu. Ekkert að æsa sig. Tómt kjaftæði að kasta því. Engin ástæða. Bara kasta því öllu í burtu. Öllu sem heilagt er og fagurt.

Honum leiddist, heyrði ég, hvað kærastan með hvíta kúkinn - þessi hvítkúkandi kærasta - hvað hún var mikil vinkona hans hins. Þau voru fullgóðir vinir fyrir hans smekk. Hann hafði að vísu aðeins verið að narta í þau bæði. Svona aðeins verið að narta. Eitthvað aðeins að narta. Narta svona. Það var samt ekkert hundaskít varið í það hvað þau voru fullnánir vinir. Alltof nánir vinir. En það eiga allir nóg með sjálfa sig. Fólk á bara nóg með sjálft sig og gærdagarnir eru margir ansi hressilegir. Full hressilegir kannski.

Móðir með barn í vagni er vissulega mun fegurri sjón en sálarlausir bílar og ökutæki. Hann margítrekaði þessa skoðun sína. „Móðir með barn í vagni er mun fegurri sjón en sálarlausir bílar og ökutæki“, var hann vanur að segja alltaf.

Hann hafði verið rekinn til að kasta því sem heilagt er og fagurt, en boxinu hélt hann. Nestisboxinu góða með dúfnaskítnum hreinhvíta og fagra.

Allan þennan tíma hafði hann annast þær af alúð og nærgætni. Hlúð að þeim og leikið fyrir þær á píanóið. Hreinsað eggin alltaf tvisvar á dag. Alltaf tvisvar til þrisvar á dag. Hann hefði gert hvað sem var fyrir dúfurnar.


Hann hafði litskrúðugar tennur og sneri sér að þeim, blessuðum dúfunum. Hann hafði sem sagt búið um þær ofan á skápunum í eldhúsinu, og sennilega hefur bara farið ljómandi vel um þær þar. Að minnsta kosti gerði hann sitt besta til að hlúa að þeim. Hún hafði, skilst mér, vakið hann með látum einn morguninn, einhver kærasta hans hér áður fyrr, og tilkynnt honum að hún kúkaði bara hvítum og hreinum kúk.
listamenn
gagnrýni
gallerí
miðstöð
stofa
enska
e-mail