Haraldur Jónsson

blóðtíðir

I

hvítleitt ógegnsætt sjúkratjald frá lofti til gólfs á miðhæð nýlistasafnsins. Það blasir við gegnt hurðinni þegar komið er inn og hólfar af eitt horn salarins. fljótt á litið komast tvær manneskjur fyrir þarna inni sem reynist líka vera raunin. við hlið tjaldsins stendur auður stóll. skilti á veggnum býður upp á blóðnám einu sinni í viku, en aðra daga blasir þessi tómlega og lokaða mynd við sýningargestum.

á sunnudögum situr kona í hvítum hjúkrunarskrúða á stólnum og býður þjónustu sína gestum og gangandi. Þegar hinn áhugasami birtist heilsast þau með augunum, jafnframt því sem hún dregur tjaldið í sundur og býður gestinum til sætis, en inni í tjaldinu eru tveir kollar og lítið borð. Þau setjast niður. hún býður honum að bretta upp aðra ermina og strýkur síðan með vísifingri eða löngutöng eftir handleggnum í leit að réttri æð. að því búnu dregur hún sprautu upp úr tösku, festir á hana nál og rekur hana síðan inn í handlegg gestsins. lofttæmi sprautunnar fyllist af blóði. að því loknu dregur hún nálina út, býr um stungusárið með bómullarhnoðra og réttir gestinum sprautuhylkið með rauðu innflóðinu. hann stendur á fætur og yfirgefur tjaldbirtuna með hluta af sjálfum sér meðferðis. næsti gjöri svo vel.

II

hér getur hann látið hjúkrunarkonu draga sér blóð og haft það síðan með sér heim í gegnsæjum sívalningi, komið því fyrir uppi á hillu, tekið það niður og neytt þess í lotningu, eða horft á það köld dægrin löng meðan hann bíður hvíldar eftir ferð um sígræna skóga, hins gullna fyrirheits sem hann forðum nam í demantaborg svartra augna, eða var það kannski blekking, artús*, ljósbrot í slímugum tóftum, táldragandi bölvunarflaug svikuls töframanns? komstu alla þessa leið til einskis, svívirti öldungur, nú þegar blóð þitt er löngu runnið af beinum í áhrifalausan skáldskap um hvíta dásemd kúpunnar;

eða hvað gerðist? minnti þetta tvískipta rými ekki á skriftaklefa kirkjunnar, þar sem við þvógum af okkur blóð ástríðnanna, dökkan dreyra óleyfilegra mökunardrauma, sem farið höfðu eldi um hug okkar daga og nætur; eða gengum við inn í klínískt kvæði um frumstætt augnablik, lífsblikið sjálft, um ljóst blóð sem rennur fyrir hvítt sæði í öfugum samförum, og fylgir þér áfram í líki einhvers konar tvífara sem deyr fyrir augum þínum, því tær vökvinn verður að dökkum saurkenndum kekki uppi á gamalli tréhillu, í sívölu blóðhorni listamannsins, kringdum glerveli getnaðar og endaloka, sem þú knékrýpur fyrir og sökkvist fyrir kraft blóðbænar í alheilög svört djúpin, og skuggi hennar sem í hugarfylgsnum bjó, hin bjarthjúpaða og hálfgleymda gunnvör, hleypur fram í stríðum rauðum flaumi, því nú skal enn og aftur skorið til hvítra höfuðbeina, hins hulda kaleiks;

III

hugsanir þínar leituðu um veröld alla í líki frækinna riddara, en voru þeir nokkuð nema fagurfræði, artús, ást þín á reynslu hugans og hinu óhugsaða; eða var kvöldið í höllinni við fljótið forðum sársæll draumur kokkálaðs trúðs, táknaði prósessían inn gólfið að bekk hins sára konungs sjálfsfróandi hvöt þess sigraða, fólu blóðspjótið, kaleikurinn og ljósastjakinn í sér öfugsnúið þrátefli svika, getuleysis og fullnægingar? eða hví máttir þú ekki mæla, aumkunarverði stafkarl, hví þegir þú enn sem fastast? veistu ekki að óspurð fær þögnin vitund og mál í öskri ókunnugs og hættulegs blóðs;

og splundrast þá undir hálu geðsvelli eldforn haus guðsins sem við hugðum líf eða sjálf, en var í raun hákarl í dauðavatni, stirð líflaus augu starandi á þig: hið týnda gral án guðslegra dreggja, helgibikar sturlandi tómleika, því það sem við höfðum leitað árum saman um djúpa skóga er löngu glatað, hafi það nokkurn tíma verið til nema í ímyndunarafli fjörgamals sagnaþular;

og töframaðurinn hefur breyst í mjóslegna hjúkrunarkonu með enn mjórri nálina, bjóðandi, blóðandi, nauðgandi, líkt og gunnvör forðum ...
*Hinn ágæti Artús konungur réð fyrir Englandi á sjöttu öld, svo sem mörgum mun vera kunnugt. Hann var þeirra konunga frægastur sem verið hafa þann veg frá hafinu, segir í Ívents sögu Artúskappa, og vinsælastur annar en Karlamagnús, enda naut hann röskvustu riddara sem í voru kristninni. Artús þessi varð um síðir konungur yfir Rómarborg, að sögn, en hafði þá eignað sér Bretlandseyjar auk Danmerkur, Noregs, Færeyja, Gotlands og Frakklands. Hafði hann marga frækna höfðingja í liði sínu, til dæmis Malvasíus konung yfir Týle, en þar heitir nú Ísland, segir í Bretasögum. Fylgja Artúss var dreki en á skjöld hans, sem gjörður var úr einum sterkustu húðum, var pentað líkneski vorrar frúar, því hann ákallaði hana jafnan sér til trausts, en sagt er að hann hafi vaðið í gegnum óvinafylkingar sem væru þær mjöll. Um ágæti Artúss segir í Bretasögum: „Hann var mikill á vöxt, vænn að áliti, spekingur að viti, auðugur af fé, sterkur, harður og vápndjarfur, glaður og góður vinum en grimmur óvinum, fastnæmur og forsjáll, siðlátur og sigursæll, víðfrægur og að öllu vel menntur“ (Hauksbók. Kaupmannahöfn 1894, 284-96). Artús var undir lokin svikinn af eiginkonu sinni (Gunnvöru) og dó eftir mannskæðan bardaga af sárum sínum. Miklar bókmenntir urðu til á miðöldum um Artús og riddara hans, Merlin, Fskikonunginn og hinn heilaga kaleik sem nefndur var „graal“ eða „grail“. Nefna má til fróðleiks tvö verk þessa efnis frá tólftu öld, Perceval eftir Chrétien de Troyes (1174-1190) og Joseph eftir Robert de Boron (1180-1199).

Matthías Viðar Sæmundsson
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail