Hallgrímur Helgason


LATINA

Lestin stendur kyrr á stöðinni um stund.

Enginn kemur inn og enginn fer út
og enginn í bænum talar lengur málið.
Ég hlusta bara á það sem augun segja.

Binario uno

Rafknúin þögn yfir þungri lest og sólin
(það sem hún er ekki búin að gera fyrir mann, sú gamla)
úti á himni, yfir hafi, inn um gluggann
og örlítill blettur af henni í hinum
að verma kletta hátt í fjalli
(hvort tveggja myndi strangt til tekið kallast Ítalía.)
og undir því sofandi maður
í sætinu fjær
með yfir sér opna bók.
Geispandi George Orwell.
Aftar í vagninum brakar í La Republica
og höfuð hennar á móti er svo fullt af söng
að vellur útum eyrun lágvær kliður:
skeggrótarrispuð rödd full af ítalskri angist.

Binario due

Hún er ekki beint lagleg, heldur dálagleg, drengslega byggð
og upphandleggjadeigið þykkt, með stuttum ermum, létt fasískar axlir
og nef
og brjóstin eins og Balthus hefði haft þau:
Balthús lítil tvö, full matar; þrýstin,
án þess að varpa dónalegum skuggum
nú þegar sólin fellur á þau.
Og buxur fullar af mat.
Stífbrakandi glanshnoðað leðurlíki líkt og húð á pulsu
og húð sem vellur úr strengnum, ásamt ombelico, í kringum hann:
Hvirfilvindur af upplýstum hárum.

Þybbin myndu sumir segja
but sexy is that glorious moment before thin, getting thicker, goes fat.
Peysan er ljós.

Peysan er ljós og haldarinn hvítur,
tvískiptur eins og tvítug ævi; gagnsær til hálfs
og með karlmannlegum vilja má greina geirvörtur:
Húðdökkvi að gægjast um gagnsæju.
Hárið er sítt.
Og bleikur fölvi á vör.
Á auða sætisbakið við hliðina málar sólin andlit hennar
á mjög einfaldan hátt, í prófíl, sem hreyfist:
Tyggjó.
Hún tekur úr sér sönginn, setur í tösku.

Binario tre

Hendur á lærum. Fingurfitan.
Lófar límdir við glansið.
Rauðgult tauband mjótt um úlnlið og fáránlega hresst úrið
(miðað við þessa hörmulegu tíma sem við lifum á)
á hinum, blágrænt í brjáluðu stuði.
Enginn hringur.
Fingurfitan.
Hvernig 0,7 cm þykkt húðlagið heldur af stað (eins og ekkert væri)
upp handlegg hennar af einskærri gleði og án þess að skeyta um úlnlið.
Steinn um hálsinn
í leðuról.

Binario quatro

Hljóðið þegar hún klórar stutt með nöglum vinstri handar
í hægra upphandleggshold.
Það bergmálar úti á pallinum.
Ískrið þegar lestin er toguð af stað.
Hljóðin margvísleg dauf en skær
mynduð af samskellum munnvatns, góms og tanna.

Hljóðið þegar hún lyftir hári frá enni.
Hljóðið frá standpínu í svörtum buxum.
Hljóðið þegar augu mæta augum.

Og hljóðið þegar hún glottir bleikum vörum
án þess að birta um það tennur.

(Roma-Napoli 6.1.98)
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail