Guðrún Vera Hjartardóttir

Ritað var um Einar Jónsson myndhöggvara í bókinni Minningar að grunnur verka hans væri ný og ný ítrekun á hinni eilífu baráttu andans við að ná sigri yfir efninu. Þessi ummæli vekja áhuga minn þegar ég hugsa um verk Guðrúnar Veru Hjartardóttur, ekki vegna einhverrar tengingar hennar við verk Einars Jónssonar heldur vegna þess að þótt tíminn líði og nýjar kynslóðir rísi með nýja list er enn verið að kljást við sama vandann. Listamaðurinn vill sýna meira en bara hluti, en til þess þarf hann að búa til hluti. Hann gengur til verks með ýmsum hætti, svo sem að vinna með efni, rannsaka það og gefa því nýja meiningu eða að vinna hugmyndir og síðan velja sér efni sem hann telur henta hugmyndinni.

Guðrún Vera hefur valið sér síðari kostinn í baráttu sinni við takmörk efnisins. Hún nýtir sér það efni sem kostur er á og þjónar hverri hugmynd fyrir sig. Í verkum hennar ber mikið á vangaveltum um þátttöku og virkni áhorfendans. Henni er það ljóst að ef engin spenna eða tengsl myndast á milli listaverks og áhorfenda missir verkið marks. Þótt listamaðurinn nái að yfirstíga efnið hefur hann enga vissu fyrir því að áhorfandinn leggi á sig að upplifa verkið. Ung manneskja í vestrænu þjóðfélagi er alin upp við að fá beinar upplýsingar frá sjónvarpi, útvarpi og tímaritum þar sem hlutverk mynda og texta er að koma upplýsingum sem best til skila svo neytandinn þurfi sem minnst að leggja á sig. Það er því ekki ósennilegt að slík manneskja nálgist listaverk með sambærilegum hætti og hún nálgast upplýsingarmiðlana. Frekar ómeðvituð og sofandi.

Verk Guðrúnar Veru vísa áhorfendanum gjarnan á hann sjálfan og verða því lykill fyrir hann að upplifa eigið ástand. Sjálf segir hún að verk sín byrji þar sem hugurinn stoppar og þykir mér það áhugaverður punktur að hafa þegar ég nálgast verk hennar. Ekki það að ég ætlist til þess að hugur minn hreinsist. Hann má spila sitt hlutverk að vild. Ég skil þetta þannig að hugurinn hefur einfaldlega ekki svarið og þegar hann sér það byrjar verkið að hafa áhrif og andinn sigrar á efninu. Áhorfandinn þarf að gera sjálfum sér kröfur eins og listamanninum og listaverkinu því hann er jú eins og listaverkið, efni og andi.

Jón Bergmann Kjartansson

listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail