Gjörningaklúbburinn
The Icelandic Love Corporation

Rannsóknarstofan Á.S.T.

Viðfangsefni:
Álagsþolsprófun/álagsþol kvensokka og sokkabuxna.

Tilgangur:
Að kanna styrkleika, endingu og eiginleika nælonsokkabuxna/sokka, við erfiðar en þó algengar aðstæður.

Lýsing:
Gervifótleggur er lagður á borð og færður í nælonsokkabuxur. Áhöldum er beitt til þess að reyna þol sokkabuxnanna. Þær eru brenndar, ristar, tættar, stungið í þær, teygt á þeim til hins ýtrasta og hnjámyndun könnuð. Tilraunir eru gerðar til þess að hefta útbreiðslu lykkjufalla og skemmda í nælonvefnum og áreiðanleiki þeirrar aðferðar er reyndur. Einnig voru tekin til greina áhrif efninsins á húð og tilfinningu í fótum og fótleggjum með tilliti til þrýstings og persónulegrar reynslu.

Niðurstaða:
Nælonþráðurinn reyndist afar sterkur en þó viðkvæmur fyrir mjög beittum hlutum og miklum hita. Efnið er sterkt og þrýstir á húðina og gerir hana stinna og áferðarfallegri. Ef gat kemur á vefinn vegna hita eða ef þræðir hafa slitnað þá þrýstist holdið út og gúlpar.

Auðvelt reyndist að stöðva smávægileg lykkjuföll með naglalakki. Naglalakk er gott til smáviðgerða vegna þess hversu fljótþornandi það er og einnig hversu handhægar og meðfærilegar umbúðirnar eru.

Þær sokkabuxur sem kannaðar voru að þessu sinni voru 20 denier. Denier er mælieining fyrir styrkleika vefsins sem notaður er í sokkabuxur. Til eru á markaðinum fleiri styrkleikar. Allt upp í 80 den. og eru þá sokkabuxurnar orðnar þykkari og jafnvel ógagnsæjar. Það hefur í för með sér að fegurð þeirra minnkar og fótleggirnir sjálfir njóta sín minna.

Hve mikil sem þykkt sokkabuxna er, er ljóst að hiti og beittir hlutir hafa slæm áhrif á nælonvefinn. Ef á að viðhalda góðu útliti splunkunýrra sokkabuxna sem lengst skyldi varast að láta þær komast í snertingu við mikinn hita og beitta hluti, s.s. sígarettu- og vindlaglóð, neglur, skæri, rakvélablöð, gæludýr, börn og oddhvassa hluti. Þetta getur þó reynst erfitt þar sem þessar hættur geta leynst þar sem síst má eiga von á þeim. Sérstaklega má telja mikilvægt að eigandi sokkabuxna hirði vel um neglur sínar því þær geta auðveldlega valdið miklum skemmdum. Þetta má gera með þjöl, naglabandaeyði, naglalakki, naglaklippum o.s.frv.

Í raun má segja að sá sem gengur í nælonsokkabuxum/sokkum þurfi að hafa með sér í töskunni tæki til viðhalds annars vegar sokkanna og hins vegar eigin persónu. Það allra nauðsynlegasta er ljóst naglalakk, naglaþjöl og jafnvel aukapar af sokkabuxum/sokkum í sama lit. Önnur aðferð sem má beita þegar sokkabuxur skemmast er að bera á varirnar sérstaklega áberandi lit sem þá dregur athyglina frá skemmdunum. Þessari aðferð er einnig beitt vegna annarra vandamála og getur reynst vel við ýmis tækifæri. Þessi lausn er auk þess ódýrari en aukapar af sokkabuxum.

Kostir nælonsokkabuxna/sokka eru þrátt fyrir allt þetta ótvíræðir því þær fegra og móta fótleggi og veita sjálfstraust. Að lokum má geta þess að sokkabuxur/sokkar geta átt langa lífdaga því þegar þeim verður ekki lengur komið til bjargar sem slíkum má hæglega endurvinna þær og búa til hárteygjur, hárbönd eða jafnvel hekla úr þeim mottu.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail