Gabríela Friðriksdóttir

Þegar maður situr í líkama sínum og fer að hugsa eða velta þessu öllu fyrir sér, ástinni og lífinu, þá umlykur mann þessi þörf fyrir að sjá allt í samhengi og vilja greiða úr þessum lífsins flóka. Þetta heitir alhæfingarhvöt eða einföldunarveiki.

Alls staðar er fólk að letja eða hvetja hvort annað. Hópast saman eða sundrast. Verður ástfangið býr, til sambönd eða slítur þeim. Sambandið líkami og sál hefur líka verið voða mikið tekið. Ég heyrði það á förnum vegi að Maó Tse Tung hefði þjáðst af harðlífi og getgátur voru uppi að það hafi leitt til andlegs angurs hans. Þess vegna hafi hann hatað. Hugsa sér ef Hitler framdi fjöldamorðin vegna verks í eyra. Stalín var ef til vill með illt í fæti og svo framvegis.

Limirnir virðast því vera ansi merkilegir skankar. Í Ástralíu býr útdeyjandi ættbálkur í eyðimörkinni sem kallar sig hina sönnu þjóð (real tribe). Þetta fólk talar örsjaldan, notar aðallega hugsanaflutning en leggur ríka áherslu á að tala við fæturna. Það heldur því nefnilega fram að fæturnir veslist upp af einmanaleik og afskiptaleysi eins og smábarn sem ekki fær aðhlynningu eða ástúð.

Spakir menn segja að í miðju magans sé kjarninn þar sem sannleikurinn sofi. Að hugsa með maganum eða brjóstinu eða setja hugann undir iljarnar. Í öllu þessu er hægt að taka námskeið. Það er ekkert fráleittt að einbeita sér að eyranu eða öðrum líkamshluta. Börn teikna líkamann í bollum eða hollum þar sem hver partur er sjálfstæð heild einsog í Michelin-manninum eða Basett´s-stráknum.

Samband hugsunarinnar við limi sína og öfugt er svipað sambandi hjóna, kall stjórnar kellu, kella kalli og soddann.

Að finna til býr í öllum líkamshlutunum. Ef til vill er hægt að beina öllu þessu tilfinningadæmi að miðju magans og vekja sannleikann í kjarnanum. Mikilvægast er þó að vera meðvitaður um sjálfstæði líkamspartanna. Hver líkamspartur er lýðveldi og krefst lýðræðis.

Hér má ekki hætta, því líkaminn er á landi, í sjó, lofti, undir himni með skínandi stjörnum og öllu þessu uppúr og niðrúr. Hugur-líkami, líkami-hugur, maðurinn-umheimurinn, umheimurinn-maðurinn eru órjúfanleg sambönd og skilnaður að borði og sæng varla mögulegur. Dauðinn er ekki einu sinni alger skilnaður. Líkaminn er af moldu og verður það aftur. Hugurinn hættir sarfsemi en andinn heldur áfram. Bob Marley sagði heiminn í hausnum á sér. Sú vissa er örugglega næg til að vekja sannleikann í kjarnanum. Stríð og merkilegir söguviðburðir eiga upptök sín í endaþarmi eða eyra einhvers. Umheimurinn líkamlegi og andlegi byggir á tilfinningu skankanna. Hægt er því að lesa út úr vísindum, listum, trúarbrögðum, íþróttum og stjórnmálum líðan limanna. Líkaminn er því heimsálfa með fjölda lýðvelda og sálin þá kannski sjórinn í kring. Það sem er í gangi þarna úti er þá ekkert svo voðalega merkilegt! Þetta er allt þarna í heimsálfunni heima-líkamanum.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail