Finnur Arnar

Það var einu sinni maður sem ætlaði að sigra heiminn og hann var hugsanlega sá eini fyrr og síðar sem hefði getað það. Hann var búinn að eyða mörgum árum í að undirbúa allt í smáatriðum og ekkert virtist geta komið í veg fyrir áform hans. Loks rann sá dagur upp að allar hans fyrirætlanir um heimsyfirtöku skyldu verða að veruleika. Þegar hann vaknaði um morguninn fann hann fyrir alveg ægilegum sársauka í litlu tá vinstri fótar. Hann reyndi allt til að lina kvalirnar en allt kom fyrir ekki. Hugur hans var heltekinn. Hann sá sér því ekki annað fært en að hætta við að sigra heiminn.

Eins er með mig. Þegar mér er illt í litlu tá er ég líka ómöglegur til allra hluta.

Mér finnst lífsreynsla annarra heillandi. Lífsreynsla okkar flestra er sjaldnast einstök. Stórar tilfinningar eru hversdagslegar þegar ekki varðar okkur sjálf eða einhvern okkur nákominn. Vitneskjan um tvær milljónir ástfanginna á þessari stundu gerir mig ekki hamingjusamari og mér er lítil huggun í sorg minni þó tíu milljónir annarra syrgi.

Í myndlistinni skiptir einstaklingurinn mig mestu máli. Ekkert er stærra en mannsævi lifuð af einlægni.
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail