Egill Sæbjörnsson

Amsterdam, 15. mars 1998

Bréf til Hannesar Sigurðssonar, forstjóra art.is
Varðandi verk Egils Sæbjörnssonar Dans III.

Dans III er sjálfstætt verk sem þó tengist tveim öðrum verkum eftir Egil Sæbjörnsson. Þau nefnast Dans I og Dans II og má því segja að Dans III sé hluti af seríu. Í Dansi I stekkur Egill fram og til baka í vinnustofu sinni með hæfni þrautþjálfaðs akrobata eða nútíma dansara. Maður gæti haldið að hann væri dansari eða akrobat þegar í raun hann er það alls ekki og allt hefur verið sett á svið. Það fyrsta sem mörgum dettur í hug eftir að hafa séð verkið er að það sé unnið í tölvu. En þótt Egill vinni með tölvur og sé í verkum sínum að spyrja sjálfan sig spurninga varðandi hina komandi heima Internetsins þar sem fólk býr í sýndarhúsum og klæðist sýndarlíkömum og fötum hönnuðum af frægustu tískuhönnuðunum, þá kýs hann ekki að nota tölvur beint við gerð verka sinna. Í stað þess kýs hann að nota aðra miðla til að varpa nýju ljósi á málin. Hann notar skæri, kennaratyggjó og frumstæðar blekkingaraðferðir ljósmyndarinnar og kvikmyndarinnar sem fær mann til að víkka samhengið enn meira. Hann hefur líka sagt að það séu ekki nógu miklir töfrar sem fylgi tölvuunnu efni og að hann vilji að fólk upplifi sína töfra sem það skapi sjálft með ímyndun sinni í stað þess að matreiða allt fyrirfram með einhverju tölvuforriti.

Með því að notfæra sér blekkingu miðilsins tekst Agli að eyða þyngdaraflinu og takmörkum eigin líkama, en það eru mikilvægir útgangspunktar í verkum hans. Hvernig er hægt að brjóta takmörk hins efnislega? Hvar eru mörkin á milli sýndarveruleika og veruleika? Hvernig kemur sýndarveruleiki fram í þeim veruleika sem við lifum og hrærumst í dags daglega? Hvernig hefur sýndarveruleiki verið hluti af tilveru mannskepnunnar frá upphafi? Ef til vill má segja að listir endurspegli einna best þann sýndarveruleika sem maðurinn lifir í á hverjum tíma. Til dæmis mætti bera saman gervilíkamninga (avatars) þá sem hannaðir eru fyrir þrívíða heima Internetsins í dag og súmanskar styttur frá því snemma á þriðja árþúsundi fyrir Kristsburð. Guðinn Abu kemur frá öðrum heimi, heimi guðanna, sem ekki ómerkari maður en Jesús Kristur kenndi einnig við. „Ég er ekki af þessum heimi,“ sagði hann. Þessi annar heimur eða guðaheimur, sem er utan okkar venjulega heims, líkist að mörgu leyti sýndarveruleika Internetsins þar sem hann birtist sem annar heimur til hliðar við okkar heim og aðeins er gengt inn í hann í gegn um ákveðin hlið. Því er áhugavert að velta fyrir sér hvar mörk raunveruleika, sýndarveruleika og hins andlega í heiminum liggja og skoða tengsl hlutveruleikans svokallaða og sýndarveruleika tölvunnar. Jafnvel þótt hugtakið „sýndarveruleiki“ sé nýtt af nálinni merkir það ekki að sýndarveruleiki sé nýtt fyrirbæri. Maðurinn hefur alla tíð lifað í sýndarveruleika og gerir það enn. Hinn nýi sýndarveruleiki tölvunnar gerir ekkert annað en að varpa ljósi á þann sýndarveruleika sem alltaf hefur verið til.

Hugmyndir þær sem við höfum um heiminn láta okkur sjá heiminn í ákveðnu ljósi. Ekkert getur þó fullvissað okkur um að heimurinn sé eins og við ímyndum okkur að hann sé. Vísindamenn reyna að finna úr hverju efni er búið til og fullyrða í dag að 99,99 prósent alls efnis sé í raun tómarúm og að þeir viti ekki hvað þetta 0,01 prósent sem eftir stendur sé. Þrívíðir gerviheimar tölvunnar eru einnig 99,9 prósent ekki neitt þar sem þeir eiga tilveru sína aðeins í svokölluðu „gervirými“ eða „cyberspace“. Efnislegur grundvöllur þessara tveggja veruleika er því svipaður. Eins og geimurinn virðist óendanlegur, virðast gresjur sýndarveruleikans í tölvunum einnig fræðilega óendanlegar. Hver veit nema að NASA muni á komandi árum eyða meiri fjármunum í að rannsaka sýndarveruleika en geiminn sjálfan?

Í verki sínu Dans II notar Egill lykilhreyfingar Gene Kelly, þar sem hann dansar í myndinni „An American In Paris“, til að búa til sinn eigin dans á eldhúsborðinu heima hjá sér. Aðferðin sem hann notar er að klippa út dúkkulísur af Gene Kelly og raða þeim á borðið og ljósmynda.

Í dansi III notast hann einnig við lykilstöður til að búa til dans, sem ekki er hægt að framkvæma í veruleikanum. Grunnefniviðurinn eru 23 skyggnumyndir sem sýna mismunandi hreyfingar og líkamsstöður. Þessar 23 lykilstöður gegna svipuðu hlutverki og leir gegnir fyrir leirlistamanninn. Úr þeim er verkið búið til. Egill hefur breytt líkama sínum í leir sem hann getur síðan hnoðað og stjórnað eins og strengjabrúðu. Hann setur sjálfan sig fyrir utan líkama sinn og veltir honum fyrir sér eins og tæki sem má leika sér með.

Að allri alvöru slepptri þá hefur Egill einnig gaman af því að leika sér og vill hafa gaman af því sem hann gerir, og ég held að dansinn beri það með sér. Hann er að reyna að sýna að honum þyki vænt um líkama sinn sem hann sér sem tæki sem auðveldlega vill gleymast þegar óefniskennt sýndarumhverfi verður stöðugt meiri hluti af okkar daglega lífi. „Hvert er líkaminn að fara og hvar hefur hann verið?“ verða lokaorð þessarar umfjöllunar minnar um verk Egils Sæbjörnssonar, Dans III.

Bestu kveðjur
Nis Roemer Poulsen
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail