Arngunnur Ýr Gylfadóttir og Francette Pacteau

UNDIR HJÚP

Árið 1923 lýsti Freud því yfir að sjálfið væri „fyrst og fremst líkamlegt sjálf“. Fjórum árum síðar bætti hann við að það tengdist fyrst og fremst þeirri skynjun sem „rekja má til líkamshjúpsins.“ Franski sálgreinirinn Didier Anzieu tekur í svipaðan streng og Freud í sínum kenningum og telur að sjálfið sé umfram allt fólgið í „húðsjálfinu“ (Skin Ego).

Smábörn skynja fyrst líkamshjúp sinn, húðina, þegar þau snerta hörund móðurinnar.
Geirvartan – flæði mjólkurinnar frá munni og niður í kok – þessi innri fylling ásamt ytri húðsnertingu verður til þess að barnið finnur fyrir eigin rúmtaki í gegnum sitt innra og ytra yfirborð. Samspil snertingar og hljóðs milli móður og barns myndar að auki traustvekjandi snerti- og hljóðumbúðir utan um tilveru þess, nokkurs konar safnþró er hefur að geyma tilfinningar, myndir og hughrif barnsins. Það er á þessu stigi sem „húðsjálfið“ tekur að myndast eins og skel utan um allan líkamann.

„Húðsjálfið“ mótast í samræmi við þau hlutverk sem líkamanum hafa verið falin. Líkaminn er ílát sem geymir allt það góða sem fylgir næringu og umönnun, en hörundið markar þau landamæri sem skilja á milli hins ytra og innra; hörundið er skjöldur okkar gegn ytri árásum sem og innri togstreitu. „Húðsjálfið“ er þannig hvorttveggja í senn upplýsingamiðstöð og tjáskiptamiðill okkar við aðra. (Barnið upplifir snertingu við móðurina fyrst sem gróf skynhrif en síðar sem ákveðna tegund tjáskipta.) „Húðsjálfið“ er með öðrum orðum eins konar „skrásetningartafla“ sem tekur við öllum merkjasendingum umhverfisins. Varnir og síur „húðsjálfsins“ verða óhjákvæmilega að þola margvíslegar hremmingar á lífsleiðinni sem skilja eftir sig slóða af sálrænum útbrotum. „Húðsjálfið“ getur rofnað eins og sigti eða brotnað í billjón mola. Og þegar verst lætur getur það orðið svo óverulegt að það þolir ekki hið minnsta áreiti. Eða svo tilfinningadofið að það hættir að skynja nokkurt áreiti.

Francette Pacteau
Þýðing: Gylfi Baldursson
listamenn
gagnrýni
gallerí
vefur
miðstöð
enska
e-mail