.




..

















Úlfhildur Dagsdóttir


Að VERA SýNDARVERA



Gangan um svefndal: eða inngangorð


Ég var dálítið þokukennd sjálf, ég viðurkenni það, en þokan sem ríkti eina nóttina þegar ég rölti í gegnum miðbæinn skapaði með mér þá merkilegu tilfinningu að ég hefði lent í dogma mynd. Ekki bara vegna þeirrar óraunveruleikatilfinningar sem þokan vakti mér, þarsem hún huldi mannauðar göturnar gráum rykhnoðrum og þurrkaði Hallgrímskirkju gersamlega út, heldur vegna þeirrar grófkornuðu áferðar sem umhverfið fékk, alveg nákvæmlega eins og í undirlýstri áferð dogma mynda. Kannski var þetta bara vegna þess að ég var að koma frá því að hafa lokið úthlutun kvikmyndasjóðs, þarsem dogma myndir voru nokkuð til umræðu, en ég held það hafi ekki bara verið það. Ég held að skynjun mín á umhverfinu hafi tekið breytingum á undanförnum árum og að það sem áður hefði kveikt tilfinningar um dulúð náttúrunnar og álfa og huldumenn (i wish) minnti mig nú á silfur í filmu, miðlaðan veruleika. Og það merkilega var að þessi veruleikaskynjun olli mér eingu hugarángri, né upplifði ég veruleikafirríngu eða fjarlægð þá sem iðulega er talað um, (þúnglega) þegar fjölmiðlun kemur til tals. Hreint ekki, mér leið vel í þessum sjálfskipaða heimi kvikmyndunar, fyrir mér var þessi miðlaða skynjun (eða skynjun miðlunar) orðin bæði ‘eðlileg’ og nærtæk.


Rásað um rásir


Fjölmiðlar og tækni eru farin að hafa róttæk áhrif á skynjun okkar, hvernig við skynjum okkur sjálf ekki síður en umhverfið. Mikill hluti af okkar daglegu upplýsingum kemur til okkar í formi miðlaðra heimilda, fréttamynda, tölvuflugna og gemsaðra símtala. Veruleikinn sem við gátum einu sinni talið okkur trú um að væri gagnsær og áþreifanlegur er orðinn bæði ósýnilegur og óhöndlanlegur: ef við bara gætum hreinsað burt gláku hins gagnsæja rýmis úr augum okkar, þá gætum við mögulega séð silfraða strengi rafboða sem skera tilveruna þvers og kruss, fylla öll skúmaskot og mynda hárfínan kóngulóarvef utanum útlimi okkar og innyfli. Kannski það sem þurfi sé einmitt grófkorna þoka sem réttir skynjunina af og opni okkur leiðir inn í nýja veruleika, sem hver um sig kvíslast í fjölmargar leiðir til að skynja heiminn upp á nýtt óháð skorðuðum frummyndum og yfirskipuðum skilningum. Álíka ímynd af einstaklingnum sem fanga í kóngulóarvef boða er að finna í verkum franska félagsfræðingsins Jean Baudrillards, sem í grein sinni “Algleymi samskiptanna” sviðsetur manninn sem skjá eða skerm, eða jafnvel gerfihnattardisk sem er orðinn leiksoppur rafboða og rafrása sem áreita hann stöðugt og stjórnlaust, umvefja hann upplýsingum og skilaboðum sem hann hefur ekkert að gera við og sem móta hans daglegu tilveru án þess að hann geti rönd við reist. Sá sem finnur sig í þessari skjámynd rásandi rása hlýtur að tapa sjálfi sínu og verða kleyfhugi, því hin margvísandi skilaboð sem fara inn og út um skjá hans valda togstreitu mótsögnum og sundrun hinnar heildstæðu sjálfsímyndar og sjálfsveru. Enginn veit hvernig á að taka Baudrillard – alvarlega eða ekki (og síst hann sjálfur), en kleyfhugi hans er einskonar eingill alheimsins, veruleikaskynið skert og skaddað, jafnframt því að vænghaf hans nær yfir allan skilning; útlægur í frummyndaheiminum á þessi eingill þann eina kost að glata sér í eilífri þoku og treysta á upplausn ‘föðurins’. Fyrir marga er þessi ímynd fjöl-miðlunar sjálfsins bæði skuggaleg og óviðunandi. Tæknisamfélagið hefur firrt manninn frá sjálfum sér, umhverfi sínu og sjálfstæði; hefur firrt manninn skilningi því hann er ekkert annað en summa skilaboða og rafrása sem neita honum um frumkvæði og yfirsýn. Með þessu er sjálfri mennskunni ógnað, því mennska mannsins felst einmitt í skilningi hans á umhverfi sínu, þekkingu sem gerir honum kleift að skilgreina, meta og dæma. Fjölmiðlatæknin hefur svipt manninn sjálfsákvörðunarrétti sínum og skapað úr honum skilyrt vélmenni, sem hefur tapað allri (draum)sýn á frummyndir hins rétta, góða og sanna. Þvert á þessa hugsun gengur sú hugmynd að tæknin geri þveröfugt; í stað þess að draga úr og útþurrka mennsku þá auki hún á hana og skapi manneskjunnium leið vettvang til að hafa meiri áhrif á sitt daglega brauð. Tæknin leysir manneskjuna úr viðjum vinnunnar; með því að láta tæknina sjá í auknum mæli um ýmis stöðluð atriði vinnuferlisins, með því að samhæfa hreyfingar líkamans vélinni þá fær sjálfsveran meiri möguleika á því að einbeita sér að öðru, svo sem því að auka þekkingu sína, skilning og skynjun. Þetta er hugmyndin bakvið sæborgina eins og þeir félagar Manfred E. Clynes og Nathan S. Kline mótuðu hana. Þegar manneskjan væri beintengd vélvirki þyrfti hún ekki lengur að eyða orku í þau fjölmörgu smáatriði sem taka upp dágóðan hluta af líkams og hugarstarfsemi hennar, heldur gæti hún, frjáls undan oki kaffivélarinnar, lyklaborðsins eða stýrisins, rásað inn á nýjar brautir upplifunar.


Ferðast með færibandi


Þetta var líka draumsýn Walters Benjamins um samfélag færibandsins og fjöldaframleiðslunnar. 1936 skrifaði Benjamin “Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar” og fagnar þar þeim möguleika sem hin tæknilega endurgerð býður uppá. Myndavélin sem fjölfaldar listaverkið bæði ummyndar það og afmyndar; hún ummyndar með því að toga rammann og teygja, stækka, minnka og hluta niður, og draga þannig fram þætti innan verksins sem áður voru huldir, eða yfirskyggðir. Afmyndunin felst í því að ára listaverksins leysist upp í fjölfölduninni, en áru kallar Benjamín ‘það’ sem gerir listaverkið einstakt, ‘það’ sem markar sköpun þess sem einstakt ferli, sem aldrei verður endurtekið. Allt frá því að helsti bölvaldur vestrænnar menningar, Platón, fordæmdi ímyndir sem spillimyndir (óhöndlanlegra) frummynda, hafa ímyndir þótt mjög ófínar, eftirhermur eða eftirlíkingar á upprunaleika eða raunveruleika, sem er álitinn ‘góður’ eða ‘réttur’ og sem eftirmyndin skemmir og er hún því ‘vond’ eða ‘röng’. Benjamin lagði sitt af mörkum til að breyta þessu dissi á ímyndir og boðaði í staðinn fagnaðarerindi eftirmyndarinnar; með eftirmyndinni kemst listin til fólksins, hún er ekki lengur óhöndlanleg inni á söfnum heldur er úti á meðal almennings. Og jafnframt breytist skynjunin á listina, ekki aðeins skynjun þess sem horfir heldur líka þess sem skapar, því listaverkið tekur strax á sig aðra mynd þegar það veit að þess bíður eilíft líf sem eftirmynd. Aðdáun Benjamins á tækninni hefur Peter nokkur Wollen, eða Ullarpési, tengt kenningum Antonios Gramsci um að færibandið færði fjöldanum samskonar frelsi skynjunar. Við færibandið fengi manneskjan loks rými til að hugsa, skapa og upplifa, því færibandið krefðist einskis af verkafólkinu annars en vandlega skilyrtra hreyfinga og því væri það frelsandi afl. Löngu áður en Klóni og Klóni komu fram með sína sæborg voru Benjamín og Gramsci því búnir að sjá möguleika þá sem tæknin býður. En í báðum þessum fallegu (í)myndum felast hættur. Færibandið þarf ekki endilega að frelsa, það getur heft: dofinn af eilífri endurtekningu fellur verkamaðurinn í dvala skilyrðingarinnar, líkt og lifandi dauður á hann sér enga tilveru utan fárra síendurtekna hreyfinga og athafna. Færibandið tekur yfir tilveru hans og hin líkamlega fátækt vinnuferlisins endurspeglar eða jafnvel mótar andlega fátækt. Slíkur maður hefur tapað mennsku sinni á færibandinu, horft á eftir henni inn um ginningargöp vélaopa, þaðan sem henni er umbreytt í vöru, vefnað eða lífsgæði. Sömuleiðis hafa menn áhyggjur af mennskunni frammi fyrir sæborg þeirra klóna2: hvað verður um mennskuna í þessari samsuðu véla og líffæra? Í báðum tilfellum er nálægð manneskjunnar við vélina orðin of mikil, tæknin er farin að hafa róttæk ítök í manneskjunni, hún er farin að grípa inn í mannslíkamann og móta mannshugann, maðurinn er ekki lengur mennskur heldur vélverskur, vélmenni eða vélvera, og sem slíkur er hann auðsveipari, það má stjórna honum með fjarstýringu eins og leikfangabíl eða tölvuteiknaðari risaeðlu. Þessi áhugaverða hugmynd gefur sér auðvitað að tæknin sjálf sé auðsveip og útreiknanleg, en allir þeir sem barist hafa við tölvur, bíla og fjarstýringar vita að það er svo ákaflega fjarri tækni að láta vel að stjórn, mun fjær henni en segjum, mönnum.


Interlúda eða millispil


Eitt kvöldið, í svefnrofunum, hrekk ég upp við ákafan hnerra innan úr íbúðinni. Með öran hjartslátt bíð ég anxíus eftir frekari þruskum en dúnalogn hefur lagst yfir húsið. Svo ég velti mér á hina hliðina og hugsa með mér að þetta sé líklega bara tvífaran mín sem þarna sé á ferð, því síðasta dagsverkið hjá mér fyrir rúmferð var einmitt að hnerra hraustlega. Og í því ég sofna velti ég fyrir mér hvernig það verði svo að hitta eigin tvíföru yfir morgunkaffinu; kannski sé hægt að nýta hana í húsverkin? Um morguninn var ég enn heltekin af þessari hugmynd og reis á fætur albúin þess að hitta aðra mig (úlf, varúlf eða hildi), einhversstaðar á róli um ganga hússins; og ég hafði allan vara á því kannski væri þetta mín verri kona sem þarna væri á ferð.


Sandur, sílkíkon og önnur kvik(s)yndi


Fjöldaframleiðsla færibandsins hefur ekki aðeins breytt skynjun okkar á ‘veruleikann’ eða umhverfið, heldur hefur hún breytt sjálfri hugmyndinni um skynjun. Við skynjum ekki lengur einhvern hlutlausan veruleika sem er ‘þarna úti’, heldur mótum við veruleikann í skynjun okkar, skynjunin sjálf skapar veruleikann – og hefur alltaf gert. Hin hreina ómiðlaða skynjun upplýsingarinnar gaf sér hlutleysi ‘augans’ og byggði heimsmynd sína á algildri sýn hins rökhugsandi einstaklings, hún byggði á sandi: Sannleiksbær frummyndin var allan tímann kviksyndi. Hið alsjáandi auga guðs er ekki lengur trúverðugt og í stað þess hefur komið samsett sýn skjáa og linsa, auga sem minnir á augu flugna frekar en guða; nema að því leyti sem tæknin hefur fært okkur nýja guði sem koma utan úr geimi og minna oftar en ekki á skordýr. Eftir því sem þekking okkar á jörðinni minnkar eykst áhugi okkar á hinum óþekkta geimi. Geimurinn er orðinn æ nákomnari og stundum er eins og hann renni saman við sæbergeiminn, í trássi við hefðbundnar hugmyndir um rými. Sjálft rýmið er orðið afstætt, rúmgott og víðfemt þá rúmast það í litlum kössum, rásum og ósýnilegum rafsegulbylgjum, jafnframt því að ferðast með ógnarhraða um ógnarfjarlægðir; myndin af þér veifandi út um þakgluggan er tekin úr gerfihnetti leingst útí geimi og þú getur fengið hana í hendina sem veifar. Og það getur græni tvífarinn þinn á Júpíter líka. Stoðunum hefur verið kippt undan grunnkerfum vestrænnar hugsunar, við höfum tapað trausti á rökréttar skilyrðingar rýmis og rýnum í stað þess inn í óendanlegt rými skjásins í þeirri von að greina andlit guðanna, en sjáum aðeins eigin spegilmynd, fjölfaldaða og grófkornótta. Sjálfsmynd okkar, sem einstaklinga og sem manneskja, tekur stökkbreytingum þegar hún er ekki lengur séð í gegnum augað eina, heldur í gegnum grilljón augu flugunnar; sundruð, samsett og fjölfölduð upplifum við algleymi upplýsinganna, líkami okkar er sandblásinn, fláður, niðurskorinn og skrumskældur af volki um sandöldur sílíkonhafsins. Þegar við göngum inn í rafrænt sæberspeis sýndarveruleikans þá skiptum við líkamanum út fyrir annarskonar efnisleika, nýja leiki með efni. Stundum hefur verið litið á sýndarveruleikann sem nýja staðfestingu á tvíhyggnum aðskilnaði efnis og anda, þarsem andinn losnar frá efninu og rásar frjálst um óhlutbundnar útsendingar rafsegulbylgna. Þannig er sýndarveruleikinn aðskilinn frá efnisveruleikanum – yfir hann hafinn; eða undir hann settur. (Samkvæmt þessu gæti orðið brátt um efnisleg viðskipti á vefum, svosem peningagreiðslur eða uppsagnarbréf.) En konan sem ranglar hamingjusamlega um innviði sæbergeims og les fréttir, pantar naglalakk eða sendir ákúrur afsannar í sviphendingu að veruleiki hennar sé sýndarmennska ein. Jafnframt því að við skynjum nýjan veruleika í sýndarheimum sílíkonsins birtist okkur (sem í þoku) að sú (á)sýnd sem við gefum þessum veruleika á rétt eins við þann veruleika sem liggur umhverfis tölvuna (á áttatíu dögum). Og hjáveruleikinn er ekki líkamslaus eða ólíkam(n)aður, heldur efnislegur heimur; nýr efnisleiki, en ekki ný tilraun til að hefja sig upp yfir hann í ‘fullkomnu’ andlegu rými, sumsé, ekki ný frummynd, heldur alltaf efnisleg eftirmynd. Þannig sáldrast hinn ytri veruleiki niður á sandströndu sílíkonhafsins og opnar okkur rými til að endurvinna frummyndirnar, endurgera guði okkar og forverur; skapa þær, ef svo má segja, í okkar eigin (eftir)mynd, hvort sem hún er í líki flugu eða vélveru. Á þennan hátt höfum við náð stjórn á fortíð okkar og þó framtíðin virðist óvægin er alltaf hægt að endurgera hana seinna.


Og nú að sjálfu at(t)inu


Benjamín og fleiri af þeim sem skrifuðu um tækni á fyrri hluta tuttugustu aldar dreymdi um samruna eða krossgötur tækni og listar. Tæknin var ekki aðeins tækifæri til að færa listina nær ‘almenningi’ heldur skapandi í sjálfri sér, öfugt við hefðbundin viðhorf þess tíma (og okkar tíma?) sem gerðu ekki ráð fyrir að tæknin væri fær um sjálfstæða skapandi hugsun. Fyrir Benjamín bauð (fjölföldunar)tæknin ekki aðeins upp á skapandi list heldur nýja skynjun á list, nýtt samband við list, sem skapar líkamlega nálægð milli áhorfandans og listaverksins, í stað þeirrar andlegu fjarlægðar (les: upphafningar) sem frummyndin býður uppá. Þessi líkamlega nálægð fullkomnast í innlimun avatörunnar í sýndarsafnið, þarsem hún hverfur inn í listaverkið og hverfist inn í sýndarrými listarinnar sjálfrar, sýndarveruleika sem jafnframt mótast af hinum ytri veruleika, líkt og í verki Finnboga Péturssonar þarsem ósýnilegar rásir veðráttunnar taka á sig sýnilegt form. Í hellum sýndarsafnsins eru frummyndir Platóns víðsfjarri, og þjóna engum tilgangi lengur. Sýndarhellarnir sýna okkur að munurinn á frummyndum og eftirmyndum skiptir ekki lengur máli, hann hefur verið leystur upp; hver hellir fyrir sig býður uppá einstaka lífsreynslu, sem hægt er að endurtaka aftur ogaftur. Fundur tækni og listar (samkvæmt Ullarpésa) krefst nýrrar fagurfræði sem hvorki hafnar röklegri hugsun sem andstæðu fagurfræði, né fagurfræði sem andstæðu röklegrar hugsunar: við þurfum á hvorutveggja að halda þarsem við ráfum um sýndarveruleikann; fagurfræði til að skynja listina, rökfræði til að átta okkur á sýndarrýminu og fikra okkur, praktískt, eftir tæknilegum rásum sýndarveruleikans. Á þennan hátt verður safngesturinn að gerast sæborg, sameina vélræna tæknikunnáttu og lífræna listnautn, ráfa um hornrétta rafta rökvísinnar jafnframt því að láta leiðast út í þoku fagurfræðinnar: eða var það kannski öfugt eða jafnvel hinsegin?