.
..

Geir Svansson


00 Sýnd verund í hjáheimum: Um upplifanir í stafrænni vídd
01 [C]ette fois il me semble que nous tenions la solution finale, l’équivalent définitif : la Réalité Virtuelle sous toutes ses formes ...
                                                                                                               Jean Baudrillard[1]01 Því trúa nú allir eins og nýju Neti að raunverunni hafi bæst vídd: Sýndarveruleikinn. Stafrænar eftirlíkingar í rauntíma í þrívíddargrafík. Gagnvirkni: Upplifanir í stafrænu rými. Upplifanir. Í tölvurými, rýmislausri, endalausri vídd, án fjarlægða. Skynjun, vitund: Fjarnávera í stýrirými stafrænna kerfa. — Sýndarverundin ku vera ný verufræði. Ný lífssýn(d). Ný veruleikasýn. Ný (á)sýnd verunnar. Sýnd sem splundrar viðteknum gildum og menningarlega mótuðum „staðreyndum“? Í sýndarveruleikanum virðist maður geta varpað gervi sínu, orðið það sem manni sýnist. Frelsast?

02 Sýndarveruleikinn —SV— er þó varla veruleiki. Heldur frekar (verulegur?) möguleiki. Fyrirheitna landið: Stýrirýmið/Cyberspace. Aðgengi mannsvitundar að „upplýsinga-rými“ með sjónrænum kennileitum og skilvirkum tengildum milli mannsheila og tölvu. Fullkomin tenging, fullkomin gagnvirkni. En hvort tveggja enn á frumstigi: „Skynjun“ í SV fengin með sjónvarpsgleraugum og „snerting“ með gagnaglófum, alsettum skynjurum. Þótt unnið sé að því að betrumbæta sýndarveruleika-tengildi af þessu tagi er draumurinn um „beinan“ aðgang að sýndarverundinni, með beintengingu heila og vélar, fjar(lægur)draumur. Beintenging við fylkið (the matrix, eða Netið) er enn bundin vísindaskáldskap; hún er forsenda samnefndrar kvikmyndarinnar The Matrix og þar áður nýrómantískrar cyberpönksögu Williams Gibsons, Neuromancer.

03 Hugtakið stýrirými var fyrst nefnt (og skilgreint) í Neuromancer. Andhetjan Case er „stýrirýmis-kúreki“, tölvuþrjótur, hakkari. Hann „stingur sér í samband“ við stýrirýmið með sérstakar rafrásir og sílíkonflögur ígræddar í heilann, og fer inn í sýndarveröld „fylkisins“. Hefur lifbrauð af tölvuafbrotum; brýst inn í Gervigreindir (GG) með hjálp vírusa. Hann veit ekki af líkama sínum , „kjötinu“, á meðan hann stýrir og vafrar um í sýndarveruleika sem er „[s]amskynræn ofskynjun sem milljarðar löggiltra tölvustýrenda, í öllum löndum upplifa […] Grafísk framsetning á tölvuupplýsingum sem teknar eru út úr gagnabönkum hverrar einustu tölvu í mann-kerfinu. Óheyrilega flókið fyrirbæri. Skipaðar ljóslínur í ekki-rými heilans, upplýsingar í klösum og samstæðum. Eins og borgarljós, sem renna út í fjarskann …“ (67)

04 Fyrirheitna takmarkið: Samruni mannsvitundar og vélvitundar; heilastarfseminnar og gervigreindarinnar; sálarinnar og sílikónflögunnar. Tilflutningur vitundar, úr líkamanum yfir í stýrirými (og yfir í skynjun annarrar manneskju sé hún samtengd fylkinu og veiti aðgang): Í þessari yfirfærslu vitundar liggur hin ídealíska sýndarverund. Að vera að öllu leyti vitundar og skynjunar „staddur“ í sýndarrými. Í fjarnánd við aðra (vél)veru.

05 @heimur, eins og aðrir sýndarheimar, gefur ef til vill vísbendingu um ótakmarkað frelsi í sýndarveruleik(a). En þessi hjá-heimur er enn sem komið einungis at-heimur; anarkískur með litlu @, sýndarverund þar sem gert er at í notandanum og honum att, með forræði, ofan í óbyrgða brunna. Notandinn/njótandinn á nokkra valmöguleika fyrir sinn persónugerving, Avatar, en frelsi hans er nánast ekkert. Í „raun“ er @heimur allur „LIBERAL STATE OF THE ART”, eins og í þætti Ómars Stefánssonar, þar sem Avatarinn er handtekinn og dreginn fram fyrir Skuggaveru og knúinn til játningar. Ríkisfangið er í öllum skilningi öfugmæli: Frjálslynt ríki listarinnar; Frjálslyndi: ástand listarinnar; Hágæða frjálslyndi/frjálsynd hágæði. „Frjálslyndið“ er írónía, skopstæling. Er @heimur umsögn um fagnaðarerindi sýndarveruleikans (og „frjálshyggjunnar“ í víðum skilningi)?

06 Allt frelsi er sýndarfrelsi.

07 Hver verða örlög „mannsins“ í þessu sýndarspili? Hvað verður um frumspekilegu hugtökin öll: „sálina“, „lífið“, „siðferðisgildi“, „valið“, „viljan“, „minninguna“ — allt það sem fram að þessu hefur skilgreint manninn frá vélinni? Munu kenningar stýrifræðinnar afmá þessi hugtök og bjóða fram
ný? Nýja heimssýn: nýja heimspeki, nýja siðfræði? Hver verður sjálfsmynd þess sem vafrar í sýndarveruleika? Hvert verður kyn hans og kyngervi? Hvað um kynferði? Kynþrá og þarfir?

08 Er fjarfróun raunhæfur, fullnægjandi samskiptamöguleiki, fullnægjandi kynlíf? Er fullnægingin sú sama? Er hún firrtari, ópersónulegri? Eða er ef til vill enginn munur á kynlífi líkamlegrar nálægðar og vélvæddu kynlífi í fjarnáveru. Er kannski aldrei hægt að fá það „saman“? Algleymið föl eftirmynd, sýndarveruleg upplifun, þrátt fyrir líkamlegan „samruna“ (með vefrænum tengildum)? Þrá okkar er jú aldrei uppfyllt, í fullkominni merkingu orðsins, fyrr en í dauðanum. Kynferðisleg „fullnæging“ er ör-dauði (petit mort), ördeyða; örskammur undanfari vöntunar, úrvinda boðberi skortsins sem er forsenda þrárinnar.

09 Fullnægjan er eins og hellismynd: Hvítur vökvinn spýtist út úr veggjunum og flæðir niður í dalinn í ÁSTARMYNDSKEIÐI Gjörningaklúbbsins í @heimum. Landslagið verður sæðislegt: fjöllin m(j)akast; blómin og (klónaðar) kindur ríða; tungl og sól skakast á hvort öðru. En Avatarinn er ósnertur og gengur þurrum fótum um dalverpið. (Í alsælunni, extasíunni, er maður að vísu alltaf „utan við sig“ (og aðra); sbr. Ekstasis/existanai, að setja úr skorðum, í grísku; ek-stase; „að standa fyrir utan“; sbr. ex- utiutan + histanai, að standa.)

10 Öll nærvera er fjarnávera.

11 Sýndarveruleikinn í hámarki virðist bjóða upp á að maður geti brugðið sér í nýtt kyngervi um leið og maður stingur sér í samband. Í Neuromancer (sem minnir á necromancer, uppvakningamanninn) getur maður brugðið sér í kyngervi og kyn annars. Bókstaflega. Case á í nánum (fjar)kynnum við Molly; hann stingur sér í hana, í gegnum tengildi á tölvunni og vafrar inn í sýndarrými hennar, inn í sýndarvitund hennar: þau eru tengd, tví-ein: „,Hvernig hefurðu það, Case?’ Hann heyrði hana segja orðin, skynjaði hvernig hún mótaði þau. Hún renndi hendi inn undir jakkann dró hring með vísifingri kringum geirvörtu undir hlýju silki. Hann greip andann á lofti við tilfinninguna. Hún hló. En tengingin var einátta. Hann átti ekkert svar.“(72). Hvert er kyngervi Case í Molly?

12 Hvernig getur maður vitað hvaða kyn, kyngervi og kynferði sá/það ber sem maður á í fjarnánum samskiptum við, t.d. í fjarfróun? Hvað er Avatarinn í „rauninni“; maður, kona, hommi, lesbía, streit, hinsegin. Eða ef til vill forritað konstrúkt gervigreindar? Skiptir það máli (í sýnd og raun)? Að hvaða leyti er kynlíf þar sem þátttakendur vita ekki um „raunverulegt“ kyngervi hins/hinna aðilana frábrugðið „eðlilegu“ kynlífi?

13 (Eru öll náin kynni fjarnáin?).

14 Sýndarverundin er ný sam-viska okkar. Ný sam-vitund. Ný dulvitund (eins konar I0 id) þar sem allt er leyfilegt. Bældar þrár og hvatir óheftar. Engir fordómar? Fjarfróun hlýtur að vera hinum hómófóbíska óbærileg (freisting).

15 Í sögunum tveimur sem Gibson skrifaði í kjölfarið á Neuromancer, Count Zero og The Mona Liza Overdrive, en saman eru þær samstæður þríleikur, kemur í ljós að hægt er að „lifa“ án líkamans, alfarið sem vitund í sýndarveruleik(a), eins konar ný alheims(net)vitund í stýrirými. — Dulúðin er eina svarið sem Gibson á við hrollkenndri staðleysu þeirrar sýndarverulegu framtíðar sem hann dregur upp.

16 Hugmyndir Gibsons eru teknar upp í The Matrix/Fylkinu. Þar er veruleikinn sannarlega ekki allur þar sem hann er séður. Aðalsöguhetjan, skrifstofublókin Anderson dagsdaglega en tölvuhakkarinn Neo í frístundum, fær snemma að vita að hversdagsleikinn sem hann lifir í, heimurinn eins og hann og samferðamenn hans skynja hann, er ekkert annað en „hula sem dregin er okkur yfir höfuð til að dylja sannleikann“ eins og skæruliðaleiðtoginn Morfeus upplýsir hann um.

17 Sannleikurinn í Fylkinu, er nefnilega sá að „veruleikinn“ er fylkið — sýndarrými og eftirlíking — í mögnuðu tölvuforriti sem ofjarlar mannsins, gervigreindar tölvur og vélar, hafa hannað til þess að hafa ofan af fyrir úreltu lífsformi. The Matrix endurnýtir gamla hugmynd og ef til vill gamlan ótta mannsins við hið ólífræna og vélræna, um að ofurgreint vélmenni taki af honum öll völd. Mannskepnan í Fylkinu er nefnilega til einskis nýt á jörðinni lengur nema til að framleiða rafmagn fyrir ofur-gervigreindar vélarnar, sem hafa ekki í aðrar auðlindir að sækja vegna ofmengunar og eyðileggingar himins og jarðar. Í þeim tilgangi er maðurinn klónaður og ræktaður í milljarðatali og viðhaldið í gervi-móðurlegi allan sinn líftíma. En til að hámarka framleiðslu og auka endingu „rafhlaðnanna“ þarf að veita manninum huglæga fróun og blekkja hann með því að gefa honum „lausan tauminn“ í sérhönnuðum sýndarveruleika sem líkir eftir venjulegu borgarlífi á ofanverðri 20. Öld.

18 Vélunum til ama er óværan þó enn til staðar; til er samfélag utanlegsmanna sem komist hafa undan og byggt sér borgina Síon á leyndum stað í iðrum jarðar (kviði Gaju). Þarna eru á ferðinni harðskeyttir veruleikasinnar sem hafna sýndarverundinni og stunda skæruhernað gegn alræði vélanna. Leiðtogi þeirra er Morfeus en Neo er hvorki meira né minna en Messías veruleikasinna: Sá sem getur leitt byltinguna fyrir nýrri veröld gegn ríkjandi vélöld.

19 Fylkið (sem gæti jafnframt heitið Fylgjan þar sem „matrix“ þýðir einnig fósturleg) vekur upp spurningar um skynjun og upplifun okkar á samtímanum en einnig um framtíðarhorfur mannsins. „Þú hefur lifað í draumi, Neo,“ segir Morfeus þegar hann sýnir honum heiminn eins og hann lítur út í raun og við blasa kolsvartar rústir mengaðs og óbyggilegs heims þar sem vélveran ræður ríkjum: „Velkominn í eyðimörk veruleikans“. Er nema von að sumir vilji ekkert af þessari eyðimörk vita og stöku frelsingjar séu tilbúnir, eins og Cypher í myndinni, að svíkja sinn Frelsara til að komast aftur í Fylkið/Fylgjuna og hvíla öruggur í gervileginu, á sýndarverulegu ímyndunarflugi í samlífrænu sambandi við „móður“ sína, vélina?

20 Öll von er ekki úti í Fylkinu. Öðru nær: Þótt það brjóti dálítið í bága við svala ímynd kvikmyndarinnar byggir andspyrnan gegn alræði vélanna á (hjá)trúarlegri von, og hálfgerðu fagnaðarerindi. Myndin er gegnskotin kristnum og goðsögulegum vísunum. Neo er beinlínis kallaður Kristur í myndinni og andspyrnukonan sem hann verður skotinn í ber nafn sem vísar í heilaga þrenningu, Trinity. Síon er ginnheilagt nafn á Jerúsalem.

21 Eins og í Neuromancer-þríleiknum er dulúðin, mystíkin svarið. Hugmyndafræðilega jaðrar boðskapur myndarinnar við „nýaldarsamkrull“ sem (s)elur á æskudýrkun og hjátrúnni á eilíft (æsku)líf. Fylkið er hannað (hannandi) fyrir tölvuleikjakynslóð sem á alltaf „einn kall eftir“ eða getur alltént byrjað nýjan leik þegar meldingin „Game over“ blikkar á skjánum. (Þess vegna þarf Neo, líkt og andhetjur Gibsons, að rísa upp frá dauðum og öðlast eilíft líf í sýndarverundinni sem kölluð er Fylkið. Aftur og aftur: að minnsta kosti í The Matrix 2 og ef til vill The Matrix 3.)

22 [En er allt sem sýnist (sem sýnist): Morfeus er í grískri goðafræði sonur svefnguðsins Somnusar. Nafnið hans merkir umbreytingu en hann getur tekið á sig öll form og allar mannsmyndir. Hver er Morfeus í raun og veru? Er hann kannski að blekkja Neo (og áhorfendur) og leiðir í gönur? Sýndarverulegur vélari (frá Hollywood, „hinu illa keisarveldi“) sem flytur doða og slen úr föðurhúsum? Eða er honum ætlað að vekja til vitundar um yfirvofandi ógn vélanna? ]

23 Rithöfundar og skáldfræðimenn eru ekki þeir einu sem hafa láta sig varða sýndarveruleikann, möguleika hans og hugsanlegar afleiðingar. Vísindaskáldin hafa yfirleitt verið framsýnni vísindasamfélaginu eða í það minnsta verið duglegri við að leggja fram djarfar tilgátur. Skáldskapurinn léttir jú vissri ábyrgð af höfundinum en vísindamenn eiga að vera yfirvegaðir og forðast allt fleipur. En nýlegar spár fjölmargra vísindamanna, um framþróun tölvutækninnar, vélamenna og gervigreindar, gefa vísindaskáldskapnum lítið eftir; vísindin eru, að því er virðist, að ná í skottið á skáldskapnum.

24 Í bókinni In the Mind of the Machine (Í huga vélarinnar) þar sem hann fjallar um þróun í rannsóknum á gervi-greind, telur Kevin Warwick, prófessor í stýrifræði við háskólann í Reading á Englandi, sýnt að gervi-greindar vélar muni áður en langt um líður taka manninum fram hvað greind varðar. Þrátt fyrir að ekki sé enn vitað nákvæmlega hvernig mannsheilinn starfar telur hann það tímaspursmál hvenær af þessu verður. Og Warwick hefur greinilega litla trú á róbótareglunum sem Isaac Asimov setti á sínum tíma, í sögunum sínum, til að koma í veg fyrir að vélmennunum hans dytti í hug að gera manninum mein. Hann er á því að vélarnar muni þegar fram líði stundir ekki kunna því vel að láta mun sér óskynsamari skepnu eins og manninn stjórna sér. Hann leiðir að því getum, ekki ólíkt Wachowski-bræðrum í The Matrix, að vélarnar muni ala manninn, erfðahannaðan og klónaðan, og halda hann sem eins konar húsdýr til að vinna afmörkuð verkefni. Maðurinn verði erfðabættur, eða erfðarýrður öllu heldur, til að hann verði stýrilátari.

25 [En af hverju ættu vélarnar að fá þá flugu í höfuðið að taka völdin í heiminum? Þær munu hugsanlega öðlast einhvers konar vitund, þótt hún verði ekki alfarið af mannlegum toga, sér í lagi verði af blöndun manns og vélar, og þær munu geta lært og hugsað. Erfiðara er hins vegar að gera sér í hugarlund af hverju vélarnar ættu vilja; hvaðan kæmi þeim viljinn og þráin til þess að sölsa undir sig jörðina. Ef eitthvað er að marka Freud þá þarf hvatir og þrár til að drífa manninn áfram. Kynþrá, lífsþrá, viljann til valda, eins og Nietzsche sagði. Hvað drífur vélina? Þarf ekki meira til en bara vélræn markmið? Kannski ekki ... Ef til vill er vargur í vé(l)um!]

26 Warwick er ekki eini vísindamaðurinn sem telur óhjákvæmilegt að gervi-greind skjóti mannlegri greind ref fyrir rass og heldur betur: Fjölmargir hafa velt vöngum yfir samruna manns og vélar og hugleiðingar um hugsanlega yfirtöku vélanna virðast settar fram í fúlustu alvöru. Hrollvekjandi staðleysuveröld, eða –vélöld öllu fremur, í kvikmyndinni The Matrix er því kannski ekki með öllu út í bláinn. Vísindamaðurinn Ray Kurzweil þykist í bókinni The Age of Spiritual Machines (Öld andlegra véla) vita að þegar á fyrstu áratugum aldarinnar verði munur milli manns og vélar hverfandi, að gervi-greindin öðlist þegar fram í sæki mannlegar víddir, að sálin og sílíkónflagan verði að lokum eitt. Beintenging manns og vélar því á næsta leyti. Áður en tveir áratugir af öldinni eru liðnir sér Kurzweil fyrir sér að hægt verði að hlaða upplýsingum beint inn í viðeigandi heilastövar mannsheilans eftir og véllífrænum taugaleiðurum.

27 Áherslur Warwicks og Kurzweils eru ólíkar en báðir boða þeir hvarf mannsins: annars vegar við að renna saman við vélina, hins vegar við að verða útmáður, eða hnepptur í þrældóm af henni. Í hvorugu tilfellinu verði homo sapiens ráðandi lífsform á jörðinni mikið lengur. Veröld verði vélöld: Í ver-undina komi vélræn ígræðsla sem marki endalok mannsins, upphaf sæborgarinnar, vélmannveru sem verði ekki skotaskuld úr því að dreyma hvers kyns kindur, jafnt rafrænar sem klónaðar.[2] Og (sam)vitund hennar verður Stýrirýmið, skyni gætt Fylkið. (Tekur við ný borgarmenning eða öllu heldur Borg-menning: Einn hugur; ein hugsun.?[3])

28 Hugdettuna um eyðilegt ástand raunveruleikans sækja þeir Wachowski-bræður til Jean Baudrillard og þeirrar staðhæfingar hans að veruleikinn sé okkur horfinn en í stað hans komnar eftirlíkingar, raunverulegri sjálfum „raunveruleikanum“ sem sé þar með orðinn „ofurverulegur“. Eftir standi „tægjur“ raunverunnar í „eyðimörk veruleikans”.[4]

29 Staðhæfingar Baudrillard um ofurverulegt ástand raunverunnar marka hvorki ídealíska afstöðu „gegn“ raunveruleikanum, né blinda trúa á vísindaskáldsögulega fantasíu, heldur eru líkingamál til þess að „lýsa“ þeim fjölmiðlaða veruleika sem við búum við; þá undarlegu veruleikafirrð sem við skynjum t.d. þegar við horfum upp á hörmungar í beinni útsendingu (hugsanlega okkar eigin), í rauntíma, í fullkomnu afskiptaleysi. Í vissum skilningi upplifum við ekki dauðann (né lífið) lengur nema á táknrænan hátt, og varla það. Meira að segja táknið hefur misst máttinn. Sýndarveruleiki sjálfrar „raunverunnar“ blasir við.

30 Öll virkni er sýndarveruleg (ekki bara gagnvirkni í stýrirými).

31 Baudrillard tortryggir enda sýndarveruleikann, eins og hvað annað. Öll kerfi mannsins, hvort sem þau byggja á göldrum, frumspeki, trú eða pólitík, hafa miðað að því að fela róttæka óvissu heimsins, segir Baudrillard, með því að finna jafngildi allra hluta og staðfesta með því merkingu þeirra og markmið. Fram að þessu hafi öll kerfin brugðist frammi fyrir óvissunni sem feli í sér „hin ómögulegu skipti”; þá staðreynd að algert „jafngildi“ sé ekki til, að óvissan (fáránleikinn) verði ekki umflúinn. En nú, segir hann (sbr. tilvitnun í upphafi þessa texta), „er engu líkara en við séum dottin niður á lokalausnina, hið endanlega jafngildi: Sýndarveruleikann í öllum sínum birtingarmyndum — hinu stafræna, upplýsingaflæði, alheimstölvuvæðingu, klónun.“ (24).

32 Sýndarveruleikinn er, við fyrstu sýn, svo tæknilega og sýndarlega fullkomin eftirlíking að hann getur auðveldlega komið í staðinn fyrir „veruleikann“ og þar með afmáð óvissuna. Þessi manngerða eftirmynd heimsins er margfalt „sannari“ og margfalt „raunverulegri“ en „fyrirmyndin“, segir Baudrillard. Hann er „[h]ið algera jafngildi, altækur skjár, lokalausnin. Hin algera huggun í vöggu netsins þar sem svo auðvelt er að hverfa. Alnetið hugsar mig. Hið Sýndarverulega hugsar mig. Tvífari minn vafrar um á rásum netanna, þar sem ég rekst aldrei á hann. Vegna þess að þessi hjálægi alheimur hefur ekkert með sjálfan sig að gera.” (25).

33 En ekkert er sem sýnist: Sýndarverundin er ekki lengur raunveruleg í raun, segir Baudrillard. Hún hefur glatað tilvísuninni og verður ekki auðið að endurheimta hina raunverulegu fyrirmynd. Með því að gleypa frummyndina leiðir hún fram heiminn í óvissri mynd. Er þessum alheimi (@heimi) þar af leiðandi ekki skapað að hverfa, spyr Baudrillard: Enn eitt kerfið dæmt til að mistakast; kerfi sem byggir á „draumórum og er ófært um að bægja frá óvissunni og glundroðanum sem hin ómögulegu skipti valda“ (25).

34 Heimurinn er ávallt þegar sýndur en aldrei gefinn.Orðalisti:
Eftirlíking: simulation
Fjarfróun: teledildonics
Fjarnávera: telepresence
Fylkið: The Matrix; The Internet (sem stýrirými)
Gagnaglófi: Dataglove (skrásett vörumerki)
Gagnvirkni: interaction
Gervigreind (GG): Artificial Intelligence (AI)
Kyn: sex
Kynferði: sexuality
Kyngervi: gender
Netið: the Internet; the Net
Sjónvarpsgleraugu: binocular TV headset
Stýrifræði: cybernetics
Stýrirými: cyberspace
Sýndarrými: cyberspace (sæberspeis)
Sæborg: cyborg
Tengildi: interface


Bókalisti:
Baudrillard, Jean. L’Échance impossible, Paris: Galilée 1999.
Baudrillard, Jean. Frá eftirlíkingu til eyðimerkur, Reykavík: ReykjavíkurAkademían og Bjartur 2000.
Dick, Philip K. Blade Runner (Do Androids Dream of Electric Sheep), New York: Ballantine Books 1990.
Gibson, William. The Neuromancer, London: Grafton Books 1984.
   —    —   . Count Zero, London: Grafton Books 1986.
   —    —   . The Mona Liza Overdrive, New York: Bantam 1989.
Kurzweil, Ray. The Age of Spiritual Machines, London: Penguin Books Ltd. 1999.
Wachowski, Larry & Andy. The Matrix, Warner 1999.
Warwick, Kevin. In the Mind of the Machine, London: Arrow 1998.


[1] Sjá L’Échance impossible Paris: Galilée 1999, bls. 24.
[2] Sbr. hugleiðingar Philip K. Dick í Do Androids Dream of Electric Sheep sem kvikmynd Ridleys Scott, Blade Runner, er gerð eftir.
[3] Sbr. Borgana óborganlegu  í Star Trek; þeir eru vélmannverur með eina sam-vitund en enga einstaklingskennd; þeir eru, „hver“ þeirra og til samans, borg, sá/sú eini/eina og sami/sama.
[4] Um þessar hugmyndir má lesa á íslensku í Jean Baudrillard: Frá eftirlíkingu til eyðimerkur, Reykjavík: ReykjavíkurAkademían og Bjartur 2000.