.




..

















Hvað er @

Þegar list og hátækni er att saman verður til ný veröld: "Atið“ eða @. ART.IS og OZ.COM hafa unnið saman að tilraunaverkefni sem fengið hefur nafnið @ en það tákn er eins konar samnefnari yfir allt sem viðkemur tölvuveruleika og netheimum. @ er nýr veruleiki, ný veröld sem sköpuð er í tölvuheimum þar sem listamenn geta valið úr möguleikum sem ekki eiga sér neina hliðstæðu í veruleikanum. Í stað þess að einn Guð skapi heiminn á sjö dögum hefur hópur listamanna skapað nýjan heim sem opnast þér í einu vetfangi: Ný veröld verður til þar sem sköpunargleðin og hugmyndaflugið eru óheft. Þú gengur inn í þennan framandlega heim og verður þátttakandi í því sem þar birtist - tekur jafnvel þátt í sköpun hans. Í þessari veröld upplifir þú myndir og tónlist og verður fyrir áður óþekktum hughrifum sem eru langt umfram það sem venjulegt listasafn eða jafnvel framúrstefnulegustu tölvuleikir geta boðið. Þér er @ inn í nýjan heim.

Sjö íslenskir listamenn/hópar úr fremstu röð taka hér höndum saman við færustu tölvuspekúlantana - forritara og hugmyndasmiði OZ - til að þaulkanna þá möguleika sem tölvu- og nettæknin býður. Hér birtist sköpunargáfa framtíðarinnar: Listin og tölvuöldin verða eitt.

Í @ veröldinni tvinnast ekki aðeins saman myndir og hljóð heldur gerir tæknin okkur kleift að hreyfast og skynja umhverfið líkt og við séum stödd í raunverulegu rými. Þetta umhverfi er töfrum gætt; í því er hægt að upplifa hluti sem eru langt handan við það sem hversdagsleikinn býður okkur. Þessi listviðburður er því afar ólíkur því sem gerist og gengur á hefðbundnum söfnum. Hér er ekki á ferðinni þögult og líflaust umhverfi heldur verður gesturinn virkur þátttakandi í verkinu. Gestir geta tekið þátt í mótun verksins á
ýmsan hátt og þannig sett mark sitt á þá veröld sem næstu gestir standa frammi fyrir.

Hver listamaður hefur útbúið svæði í @ veröldinni þar sem hans hugmyndir og stíll ráða ferðinni en þessi svæði tengjast á ýmsan hátt svo áhorfandinn veit ekki fyrr til en allt umhverfið breytist og hann þarf að takast á við nýjan veruleika og nýjar þrautir. Ferðalag um þessa heima er ævintýri sem hver áhorfandi upplifir á sinn hátt.

Í grein um verkefnið sem birt er á Internetinu og geisladiskum skrifar Úlfhildur Dagsdóttir: Fundur tækni og listar krefst nýrrar fagurfræði sem hvorki hafnar röklegri hugsun sem andstæðu fagurfræði, né fagurfræði sem andstæðu röklegrar hugsunar: við þurfum á hvorutveggja að halda þar sem við ráfum um sýndarveruleikann; fagurfræði til að skynja listina, rökfræði til að átta okkur á sýndarrýminu og fikra okkur, praktískt, eftir tæknilegum rásum sýndarveruleikans. Á þennan hátt verður safngesturinn að gerast sæborg, sameina vélræna tæknikunnáttu og lífræna listnautn, ráfa um hornrétta rafta rökvísinnar jafnframt því að láta leiðast út í þoku fagurfræðinnar: eða var það kannski öfugt eða jafnvel hinsegin?