.




..

















Art.is

Íslenska menningarsamsteypan ART.IS ehf. var stofnuð í árslok 1997 og á sér engin fordæmi í íslensku menningarlífi; það er net listamanna, sýningarstjóra, fræðimanna, gagnrýnenda, kennara og hönnuða sem starfa að því að koma íslenskri menningu á framfæri jafnt innan lands sem og á alþjóðlegum vettvangi. Sérstök áhersla er lögð á framsæknar listir og fræðimennsku, en ART.IS er allt í senn bókaútgefandi og listrænt ráðgjafafyrirtæki sem tekur að sér að skipuleggja sýningar og umfangsmikla menningarviðburði, einkum á sviði sjónlista og hugvísinda.

Vefur ART.IS hefur að geyma upplýsingar um leiðandi samtímalistamenn ásamt myndum og greinum sem spanna margvísleg svið og tímabil. Á vefnum er mörgum af þeim verkefnum sem ART.IS stendur að einnig gerð skil, en fyrirtækið stýrir sýningarhaldi Mokka-kaffis og sá um tíma einnig um sýningar í Gallerí Sævars Karls. Þá annast ART.IS umfjöllun um myndlist fyrir menningarþáttinn Mósaík í samstarfi við breiðan hóp gagnrýnenda, auk þess sem það hafði yfirumsjón með Sjónþingum Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs 1997-1999. Öll kynning fer fram í nafni ART.IS sem nýtur liðsinnis margra þekktustu fræðimanna landsins. Jafnframt því að starfa í nánu sambandi við listamenn, fyrirtæki og stofnanir sækist ART.IS eftir að brúa bilið milli ólíkra list- og fræðigreina og miðla þeirri þekkingu út í samfélagið.

ART.IS leggur mikla áhersu á útgáfu hvers konar fræðibóka. Vorið 1998 gaf ART.IS út bókina “Flögð og fögur skinn", 430 síðna bók um mannslíkamann eins og honum bregður fyrir í okkar nútímasamfélagi í tengslum við samnefnda sýningu sem skartaði meðal annars listamönnum á borð við Louise Bourgeois, Matthew Barney, Orlan og Barböru Kruger. ART.IS var tilnefnt til menningarverðlauna DV fyrir þetta framlag sitt, sem var hluti af Listahátíð í Reykjavík 1998. Í ársbyrjun 1999 hleypti ART.IS svo myndlistar- og ljóðasýningunni “Lífæðar" af stokkunum, en það er farandsýning sem sett var upp á ellefu sjúkrahúsum hringinn í kringum landið í boði alþjóðlega lyfjarisans Glaxo Wellcome. Með sýningunni fylgdi vegleg, litprentuð sýningarskrá með umfjöllun um alla 24 þátttakendurna, tólf ljóðskáld og tólf myndlistarmenn. Í árslok 1999 gaf ART.IS út rúmlega 1000 síðna bók um kvikmyndir, “Heimur kvikmyndanna" , í samstarfi við Forlagið og var sú bók útnefnd til menningarverðlauna DV á sviði kvikmynda. Í ársbyrjun 2000 gaf ART.IS út bókina “Hláturgas: Læknaskop frá vöggu til grafar" í tengslum við aðra farandsýningu um spítala landsins. Þá stendur ART.IS að sýningu 14 myndlistarmanna í Stekkjargjá á Þingvöllum og Listasafninu á Akureyri í samvinnu við Kristnihátíðarnefnd, Gallup og Tímarit Máls og menningar.